• 29/08/2016

    NAME-mynd

    Verið velkomin á hugarflug um safnfræðslu þriðjudaginn 13. september kl. 17 í Gerðarsafni, Hamraborg 4 í Kópavogi. Viðburðurinn er tækifæri fyrir safnkennara og sérfræðinga fræðslu á söfnum og menningarstofnunum að kynnast og ræða hugmyndir, verkefni og áherslur í safnfræðslu.
    Á viðburðinum verða verðlaunuð fræðsluverkefni frá Norðurlöndunum kynnt og boðið upp á sjónleiðsögn um sýningarnar SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR í Gerðarsafni. Að leiðsögn lokinni fara fram umræður og hugarflug þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða eigin verkefni, finna sameiginlegar lausnir og skiptast á hugmyndum. Á meðan á umræðum stendur er boðið upp á léttan kvöldverð í Garðskálanum á neðri hæð Gerðarsafns.

    Viðburðurinn fer fram á ensku þar sem verða þátttakendur frá Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Noregi. Þátttaka er gjaldfrjáls. Takmarkaður fjöldi kemst að á viðburðinn og er tekið við skráningum á netfangið brynjas@kopavogur.is til miðvikudagsins 7. september.

    Viðburðurinn er í boði samtakanna NAME (Nordic Association for Museum Education), sem er norrænt tengslanet fyrir starfsmenn og sérfræðinga fræðslu á söfnum og menningarstofnunum. NAME samanstendur af fimm norrænum félögum: FÍSOS (Ísland), SFF (Noregur), FUISM (Svíþjóð), Pedaali (Finnland) og MiD (Danmörk). Markmið NAME er að efla tengsl starfsmanna á sviði fræðslu og veita meðlimum félaganna tækifæri til að miðla eigin þekkingu og læra af reynslu samstarfsmanna á Norðurlöndunum. Tengslanetið vinnur að því að búa til vettvang þar sem hægt er að byggja upp samstarfsverkefni og auka samskipti á milli landa. Þar að auki getur öflugt tengslanet vakið athygli á safnfræðslu og mikilvægi þess í starfi safna og menningastofnanna.