Lög félagsins

Lög félags íslenskra safna og safnafólks

Samþykkt á aðalfundi 27. september 2017

  1. gr. – Heiti

Félagið heitir Félag íslenskra safna og safnafólks (Icelandic Museums Association). Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið var stofnað árið 1981.

  1. gr. – Félagsaðild

Um tvenns konar félagsaðild er að ræða; aðild einstaklinga og aðild stofnana.

Félagar geta orðið þeir einstaklingar sem vinna fagleg störf við lista-, minja- og náttúrufræðisöfn og þeir sem lokið hafa námi í greinum sem nýtast í starfsemi slíkra safna.

Félagsaðild geta hlotið þær stofnanir sem starfa á safnasviði og falla undir skilgreiningu safnalaga nr. 141/2011 á hugtakinu safn.

Heimilt er að kjósa heiðursfélaga. Heiðursfélagar eru tilnefndir á aðalfundi af stjórn félagsins og telst samþykkt fái hún atkvæði meirihluta atkvæðisbærra félagsmanna.

Heiðursfélagar hafa kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi.

Stjórn félagsins tekur inn nýja félaga.

  1. gr. – Tilgangur félagsins

Hlutverk og markmið félagsins er að efla faglegt safnastarf með því að:

  • standa að endurmenntun félagsmanna, m.a. með Farskóla FÍSOS, útgáfustarfsemi, fundahaldi, fyrirlestrum, námskeiðum og ferðalögum eftir því sem fjárhagur félagsins gefur tilefni til.
  • taka þátt í opinberri umræðu um málefni safnastarfs.
  • standa vörð um hagsmunamál safna og safnafólks, að undanskildum launa- eða kjararéttindum.
  • eiga samskipti við hliðstæð samtök erlendis.
  • auka þekkingu og fræðslu um söfn og starfsemi safna.
  • halda úti heimasíðu félagsins. 
  1. gr. – Stjórn félagsins

Stjórn félagsins er skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum sem öll eru kosin á aðalfundi félagsins. Kosið er í stjórn til tveggja ára í senn, formaður, meðstjórnandi og varamaður annað árið en varaformaður, gjaldkeri, ritari og varamaður hitt árið.

Á fundum félagsins fara aðalmenn með atkvæðisrétt, varamenn hafa tillögurétt og taka þátt í umræðum en greiða ekki atkvæði nema um inntöku nýrra félagsmanna.

Stjórn félagsins fer með rekstur félagsins og vinnur að markmiðum þess skv. 3 gr. þessara laga.

Stjórnin heldur fundi þegar formaður telur þess þörf eða ef tveir eða fleiri stjórnarmenn æskja þess.

Stjórn félagsins er heimilt að ráða til starfa framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjóri heyrir undir stjórn FÍSOS og vinnur í umboði stjórnar að markmiðum félagsins samkvæmt starfslýsingu.

Stjórn er heimilt að fela öðrum félagsmönnum verkefni sem falla að markmiðum félagsins skv. 3. gr. þessara laga. 

  1. gr. – Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir 30. október ár hvert.

Boðað skal til aðalfundar með tölvupósti til félagsmanna félagsins og með auglýsingu á heimasíðu félagsins með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.

Kosningarétt og kjörgengi hafa einungis þeir félagsmenn og forsvarsmenn stofnana sem greitt hafa árgjald félagsins fyrir aðalfund, eða fulltrúar í umboði þeirra.

Stjórn félagsins auglýsir eftir framboðum í laus embætti samhliða boðun aðalfundar. Lögmæt framboð þurfa að hafa borist stjórn sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund.

Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

Aðalfundarstörf eru:

A. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

B. Skýrsla formanns um störf félagsins.

C. Ársreikningur félagsins.

D. Umræður um árskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.

E. Lagabreytingar.

F. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.

1. Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.

2.  Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið en annars hitt árið.

3. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.

4.  Kosning farskólastjóra til eins árs.

G. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.

H. Önnur mál.

  1. gr. – Félagsfundur

Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar.

Stjórninni er skylt að boða til almenns fundar ef tíu eða fleiri félagsmenn æskja þess. Almennan félagsfund skal boða með minnst einnar viku fyrirvara. Almennur fundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

 

  1. gr. – Félagsgjald og farskólagjald

Gjaldkeri annast innheimtu félagsgjalda eftir félagaskrá sem ritari heldur. Hafi félagi ekki greitt félagsgjald í tvö ár í röð fellur hann sjálfkrafa úr félagatali félagsins.

Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds.

Skólastjórn Farskóla ákvarðar farskólagjald. Aðilar utan félagsins greiða eitt og hálft gjald.

  1. gr. – Lagabreytingar

Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi, enda sé tekið fram í fundarboði að tillögur um lagabreytingar séu á dagskrá.

Tillaga til lagabreytingar skal hafa borist stjórn félagsins fyrir 10. ágúst. Stjórn félagsins getur einnig lagt til lagabreytingar að eigin frumkvæði.

Tillaga til lagabreytingar telst samþykkt ef hún hlýtur tvo þriðju hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.