• 26/03/2014

    Elísabet Pétursdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri FÍSOS og mun hún starfa í umboði stjórnar félagsins. Um er að ræða tímabundið starf sem felst  í því að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem félagið vill koma í framkvæmd.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að endurskoða hlutverk FÍSOS, meðal annars vegna nýrra safnalaga. Árið 2011 var breyting á lögum félagsins samþykkt sem gerir stjórn kleift að ráða til sín starfsmann til að annast daglegan rekstur félagsins. Á sama ári var samþykkt að stofnað yrði til samráðshóps sem ynni skýrslu um breytt hlutverk félagsins, í kjölfarið leit skýrslan Framtíð FÍSOS dagsins ljós.
    FÍSOS stendur á tímamótum sem samráðsvettvangur allra safna og safnmanna og þar af leiðandi er mikilvægt að efla sýnileika félagsins, ekki síst til þess að gera félagið meira gildandi í faglegri umræðu um starfsemi safna. Þau verkefni sem eru á döfinni hjá FÍSOS verða vonandi til þess að styrkja starfsemi félagsins enn frekar. Ráðning verkefnastjóra fyrir félagið er skref í þá átt að efla félagið sem mun koma til góðs fyrir öll söfn í landinu og faglegt safnastarf.
    Elísabet Pétursdóttir er með meistaragráðu í safnafræði frá Háskóla Íslands, og BA gráðu í þjóðfræði frá sama skóla. Lokaritgerð hennar í safnafræði fjallaði um safngestarannsóknir, hlutverk þeirra, aðferðir og væntingar. Nýlega hélt hún fyrirlestur um það efni á vegum þjóðfræðingafélagsins. Hún lauk starfsnámi í Víkinni – Sjóminjasafni og hafði áður unnið á Ljósmyndasafni Reykjavíkur meðal annars.
    Elísabet hefur nú þegar tekið til starfa og hafið undirbúning á málþingi, sem áætlað er að halda um miðjan maí og fyrirlestraröð sem hefst í lok apríl. Þar að auki mun hún stýra hugmyndavinnu um eflingu heimasíðu félagsins og halda utan um ýmsa þætti sem snerta íslenska safnadaginn.