• 27/03/2014

  Í umræðunni um hækkanir hjá Sarpi hefur verið kallað eftir viðbrögðum stjórnar FÍSOS í þessu máli og að stjórnin beiti sér með einhverjum hætti. Umræðan hefur snúist um óvænta hækkun sem söfn eru misvel í stakk búin til að bregðast við. Fjárhagur safna er gjarnan þannig að ekki má við óvæntri hækkun sama hvers eðlis hann er.
  Ef við byrjum á þessu óvænta, þá eru eflaust ýmsar leiðir færar til þess að draga úr óvissunni þegar kemur að kostnaði aðildarsafna að Rekstrarfélagi Sarps (RS). Nefna má aukið upplýsingaflæði, það er á ábyrgð allra sem eiga aðild að RS (stjórnar, safna, framkvæmdarstjóra o.s.frv.) Ef söfn víða um land eiga erfitt með að sækja aðalfundi í Reykjavík má jafnvel hugsa sér möguleikann á því að halda aðalfundinn í samhengi við farskóla, fyrir eða eftir. Svo er auðvitað ýmsar lausnir til staðar í upplýsingatækni nútímans!
  Hækkunin er síðan annar handleggur í umræðunni. Er það óeðlilegt að með auknu umfangi fylgi aukinn kostnaður? Hvað er eðlilegt að söfn greiði fyrir gagnagrunn sem þennan? Á Sarpur að stækka eða standa í stað? Opnun sarps á netinu er gott dæmi um vöxt. Aðgangur fyrir almenning er gríðarlega mikilvægur fyrir safnastarf í landinu. Það er öllum söfnum í hag að almenningur átti sig á mikilvægi þess að söfn séu til, að söfn haldi utan um menningararfinn. Má því ekki segja að það sé þá frekar tilefni til að blása til sóknar heldur en að draga saman?
  Stjórn FÍSOS gerir sér fyllilega grein fyrir þeim fjárhagsvanda sem flest söfn standa frammi fyrir og að hækkun sem þessi getur haft áhrif á annað safnastarf. Þeim er því vandi á höndum. Sá vandi, að mati stjórnar FÍSOS, felst þó síður í hækkunum á greiðslum til Sarps en, að öllum líkindum, fremur í slæmu aðgengi safna að nauðsynlegu fjármagni sem þarf í reksturinn. Það aðgengi má að mörgu leyti rekja til þess að eigendur safna sjá hvorki né skilja fjármagnsþörf safna. Það er á því sviði sem stjórn FÍSOS telur eðlilegt að íhlutun eigi sér stað. Gera þarf eigendum safna grein fyrir því að skráning og aðgengi að gögnum er lykilatriði í safnastarfi. Söfnin þurfa að fjárfesta í slíku tæki og þegar umræðan um Sarp er annars vegar er mikilvægt að draga fram kosti Sarps. Það þarf að styrkja rökstuðning fyrir því hversu þýðingarmikill þessi liður er í faglegu safnastarfi. Þar er komið inn á hlutverk FÍSOS, en markmið félagsins eru m.a. að auka þekkingu og fræðslu á söfnum og safnastarfi.
  Getur verið að rót vandans liggi í viðhorfum til faglegs safnastarfs? Jafnvel skilningsleysi samfélagsins? Og þar sem flest söfn hér á landi eru rekin af sveitarfélögunum endurspeglast samfélagsviðhorfin í sveitarstjórnum sem síðan mynda stjórnir safna. Er ekki raunverulegi vandinn í þessu öllu saman að hækkunin komi sér verulega illa fyrir mörg söfn?
  Umræðan á vissulega rétt á sér. Hins vegar held ég að það sé ekki hlutverk FÍSOS að skipta sér að rekstri RS eða að benda á leiðir til sparnaðar, hagræðingar eða álíka. Miklu frekar ætti að huga að leiðum til að stuðla að áframhaldandi framþróun Sarps, þar sem um er að ræða gríðarlega mikilvægt tæki í safnastarfi á landinu. Hlutverk FÍSOS í þeim efnum er að efla þekkingu á faglegu safnastarfi. Sem skilar sér með auknum skilningi eigenda safnanna á mikilvægi alls starfs þeirra, að kostnaður við skráningu er jafnsjálfsagður og kostnaður við sýningargerð.
  FÍSOS vinnur nú hörðum höndum að því að auka sýnileika félagsins, gera það að gildandi talsmanni faglegs safnastarfs. Við höfum fengið starfsmann til liðs við okkur, á dagskránni er málþing og fyrirlestraröð m.a. Ýmsar leiðir eru færar og auðvitað eru allar hugmyndir félagsmanna vel þegnar!