Alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi

FÍSOS hélt uppá alþjóðlegi safnadagurinn  þann 18. maí 2020 sl.  í samstarfi við Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna, ICOM. Markmið alþjóðlega safnadagsins er að kynna og efla safnastarf í heiminum.

Í ljósi heimsfaraldursins Covid19 voru söfn hvött til að færa viðburði yfir í hinn stafræna heim og vekja þannig athygli á starfi safna samfélaginu til góðs. FÍSOS og ICOM hvöttu alla til að virða reglur Almannavarna um að það séu ekki fleiri en 50 manns í hverju rými og virða viðmið um 2 metra fjarlægð milli fólks.

Á hverju ári velur ICOM þema fyrir Alþjóðlega safnadaginn 18. maí og árið 2020 var yfirskrift dagsins:

“Söfn eru jöfn/Söfn fyrir jafnrétti: Fjölbreytni og þátttaka allra 2020”

Söfn um heim allan fögnuðu Alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí 2020 og dagana í kring með því að nota stafrænar lausnir vegna Covid19. Þátttaka í Alþjóðlega safnadeginum fer vaxandi meðal safna um heim allan. Árið 2019 tóku yfir 37.000 söfn þátt í atburðinum í 158 löndum.

Ýtum undir fjölbreytni og þátttöku allra í menningarstofnunum samfélagsins

Höfuðatriði samfélagslegs gildis safna er möguleikinn á því að bjóða fólki af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn að upplifa einstaka hluti. Söfn eru í senn virtar stofnanir og breytingaafl og nú er rétti tíminn til  að þau sýni fram á mikilvægi sitt með því að taka þátt í pólitískum, samfélagslegum og menningarlegum veruleika nútíma samfélags með uppbyggilegum hætti.

Þær áskoranir sem þátttaka fjölbreytts hóps hefur í för með sér og þeir erfiðleikar sem fylgja því að fjalla um flókin samfélagsleg málefni í umhverfi þar sem klofningur eykst stöðugt eru ekki bundin við söfn og menningarstofnanir eingöngu en skipta þessar stofnanir þó miklu máli þar sem þær eru í hávegum hafðar í samfélaginu.

Sívaxandi væntingar um samfélagslegar breytingar hafa drifið áfram umræðuna um möguleika safna á að vera jákvætt samfélagsafl með því að halda sýningar, ráðstefnur, gjörninga og standa fyrir fræðsludagskrám og framtaksverkefnum. Hins vegar er mikið óunnið í þá átt að sigrast á meðvituðum og ómeðvituðum breytum sem geta skapað ójöfnuð innan safna, og á milli safna og gesta þeirra.

Slíkur ójöfnuður getur tekið til margra atriða; til dæmis þjóðernis, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, félagslegs bakgrunns, menntunarstigs, líkamlegrar getu, stjórnmálaskoðana og trúarbragða.

Undir yfirskriftinni „Söfn eru jöfn/Söfn fyrir jafnrétti: Fjölbreytni og þátttaka allra“, leitast Alþjóðlegi safnadagurinn 2020 við að verða sameinandi afl sem í senn fagnar þeim ólíku sjónarmiðum sem finna má í samfélögum og starfsliði safna, og leitast við að koma auga á og sigrast á hvers konar slagsíðu í því sem sýnt er og þeim sögum sem þar eru sagðar.

Sýnileiki á samfélagsmiðlum

Í tilefni af safnadeginum árið 2020 voru söfn hvött til að vera virk á samfélagsmiðlum. Þátttakendur voru hvattir til að merkja myndir og færslur með myllumerkjunum #safnadagurinn, #söfnfyrirjafnrétti, #MuseumDay,  #IMD2020,  #Museums4Equality á Instagram, Twitter og Facebook. Þá var hægt er að deila stafrænum viðburðum á Facebook síðum FÍSOS og safnadagsins.

Söfn um allan heim

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af International Council of Museums (ICOM). Þátttakendur eru um 37.000 söfn í 158 löndum. Söfn um allan heim skipuleggja dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977.