Skýrsla farskólastjóra FÍSOS 2010
Stjórn Físos þakkar Guðrúnu og farskólastjórninni góð störf og skilmerkilega skýrslu. Stofnaður var reikningur sérstaklega fyrir farskólann og gerð verður grein fyrir honum á næsta aðalfundi FíSOS.
Farskóli FÍSOS 2011
Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri í Glaumbæ verður skólastjóri næsta farskóla sem haldinn verður í Skagafirði. Kristín Sóley Björnsdóttir, kynningarstjóri Minjasafnins á Akureyri, ritari Físos verður fulltrúi stjórnar FÍSOS
Endurmenntunarnámskeið
Dagana 28. mars – 2. apríl verður haldið hraðnámskeið á vegum námsbrautar í safnafræði við Háskóla Íslands, félögum FÍSOS að kostnaðarlausu. Námskeiðið er styrkt af Félagi íslenskra safna- og safnmanna, sem og Þjóðminjasafni Íslands. Námskeiðið verður kynnt á póstlistanum og ákveðið var að þetta verði endurmenntunarnámskeið FÍSOS í ár.
Rannsóknarsetur í Safnafræði
Þann 7. janúar síðastliðinn var Rannsóknarsetur í Safnafræði við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Rannsóknasetrinu er ætlað að vera víðtækur vettvangur þverfaglegra rannsókna á sviði safnafræða. Í stjórn Setursins sitja sjö fullrúar skipaðir af eftirfarandi aðilum: Námsbraut í safnafræðum við Háskóla Íslands, FÍSOS, Safnaráði, Félagi íslenskra safnafræðinga, námsbraut í safnafræðum við University College London og fulltrúi frá Félagsvísindastofnun. Fulltrúi FÍSOS verður Elfa Hlín Pétursdóttir.
Safnabókin
Ný safnabók mun koma út fyrir vorið. Í fyrra kom bókin út í fyrsta sinn og var ákveðið að endurbæta hana nú í ár þannig að hún myndi nýtast íslenskum söfnum sem best í að kynna starfsemi þeirra. FÍSOS og Safnaráð veita útgefendum bókarinnar faglega aðstoð vegna útgáfunnar. Stjórn FÍSOS mælist til þess að útgáfa hennar verði annað hvert ár.
Málefni Listasafns Árnesinga
Á fundi stjórnar FÍSOS þann 14. desember var rætt um fréttaflutning í DV frá því í október þar sem fjallað var um riftun samnings sem Hannes Lárusson og Listasafn Árnesinga höfðu gert með sér. Vegna einhliða fréttaflutnings í DV um ónægju þriggja sýningarstjóra með starfshætti safnstjóra í Listasafni Árnesinga hafi stjórn Físos séð ástæðu til að kynna sér málið. Telur stjórn að safnstjóri hafi brugðist rétt við og ásakanir þremenninganna hafi verið óréttmætar m.a. vegna vanþekkingar á hlutverki og starfsháttum safna. Þessi ágreiningur endaði þó vel því þremenningarnir sáu að sér og skrifuðu afsökunarbréf en sú hlið málsins kom aldrei fram opinberlega. Telur stjórn Físos að málið hafi endað vel að lokum og af þessu megi draga mikilvægan lærdóm.
Málefni um Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var send eftirfarandi ályktun frá FÍSOS vegna lokunar Minjasafns Orkuveitunnar:
Stjórn Físos harmar að Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið lokað án fyrirvara.
Reglubundin söfnun gripa tengdum sögu rafvæðingar hófst árið 1971 á 50 ára afmæli Rafmagnsveitunnar. Hér var því tæplega 40 ára söfnunarstarf og 20 ára reynsla af miðlun og sýningu þessarar sögu slegin af án þess að nokkurt samráð hefði verið haft við neina kunnáttuaðila, fagsöfn eða aðra slíka. Á þessu hálfrar aldar tímabili hefur safnið þegið gjafir og/eða tekið við gripum frá öðrum aðilum, fyrirtækjum eða stofnunum á sviði raforkugeirans. Stjórn Físos vekur athygli á skilgreiningu 4. gr. safnalaga nr. 106/2001 á safni: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.” Safnkostur Minjasafns Orkuveitu Reykjavíkur er safn menningarsögulegra gripa og því mikilvægt að hann glatist ekki. Því fylgir ákveðin ábyrgð og skuldbinding sem varðar rannsóknir, miðlun og varðveislu. Þó þröngt sé í búi tímabundið er mikilvægt að hlúa að þeim menningarverðmætum sem safnið geymir og gera áætlanir um framtíð þess.
Með kveðju frá stjórn FÍSOS
Guðný Dóra, Elfa Hlín, Kristín Sóley, Helga, Jón Allans og Sigríður Melrós