Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og segja stuttlega frá honum.
Hvalasafnið á Húsavík
Hver er gripurinn?
Mjaltarstóll úr hvalbeini sem er til sýnis í nýrri sýningu sem fjallar um hvalreka við Ísland. Sýningin skoðar mikilvægi hvalreka í sögu Íslands og hvernig við höfum nýtt hvalafurðir sem hafa rekið að landi fyrr á tímum.
Til hvers var hann notaður?
Stóllinn var notaður við mjaltir og önnur tilfallandi verkefni í fjósi.
Hver er saga hans?
Stóllinn er búinn til úr brjóstbeini úr langreiði sem rak að landi í Hvalrekanum mikla á Ánastöðum árið 1882. Þessi hvalreki er sá stærsti sem sögur fara af við Ísland, en samkvæmt heimildum festust tugir langreiða í hafís nærri landi. Eggert Jónsson bóndi á Ánastöðum kallaði til mannskap til að skera hvalina og ef þessi atburður hefði ekki komið til hefði orðið mikill hungurdauði vísvegar á norðurhluta landsins vegna harðinda þetta árið. Það sem vekur athygli okkar á safninu er stærð bringubeinsins, en ef við berum það saman við bringubeinið á steypireyðinni á safninu, sem er stærst allra hvaldýra, má draga þá ályktun að hvalirnir í hvalrekanum mikla hafi verið gríðarlega stór dýr.
Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?
Stóllinn er í láni frá Þórarinni Blöndal, sýningarhönnuði safnsins, og er í eigu fjölskyldu Þórarinns. Hann kom inn á safnið í byrjun júní 2023.
Af hverju völduð þið þennan safngrip?
Þetta er skemmtilegur hlutur til að sýna vegna þess að hann fléttar saman sögulegan atburð sem fjallað er um á sýningunni og er á sama tíma skemmtilegt dæmi um hvernig við nýttum hval á fjölbreytta vegu.