Nafn: Hjördís Pálsdóttir
Safn: Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla og Vatnasafn
Staða: Safnstjóri
Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?
Það er margt í gangi. Undirbúningur fyrir nýju grunnsýninguna okkar stendur sem hæst. Sýningin sem fyrir var hefur staðið frá árinu 2001. Það var áskorun út af fyrir sig að taka skrefið að breyta sýningunnni en algjörlega komin tími á það. Sýningin mun fjalla um Snæfellsnes á 20. öld og til okkar daga, út frá sjónarhóli ungra Snæfellinga.
Nú nýverið fór fram Hræðileg helgi í Stykkishólmi og voru af því tilefni nokkrir viðburðir sem safnið hélt. Var boðið upp á draugahús og sýninguna Skessur sem éta karla eftir Dagrúnu Jónsdóttur þjóðfræðing. Einnig var boðið upp á draugagöngu þar sem Anna Melsteð þjóðfræðingur sagði frá skemmtilegum draugasögum tengdum Stykkishólmi.
Framundan á safninu eru svo spennandi breytilegar sýningar. Sumarstarfið fer að komast á fullt og stærsti viðburður okkar í sumar verður opnun nýju sýningarinnar.
Þjóðbúningahátiðin Skotthúfan verður haldin fyrstu helgina í júlí en það er okkar stærsti árlegi viðburður. Þar kemur hópur fólks saman í þjóðbúningum. Á dagskrá hefur meðal annars verið fyrirlestrar tengdir þjóðbúningnum og klæðnaði kvenna fyrr á tímum, kynningar á jurtalituðu einbandi sem og kynning á víravirkisskartgripum, þjóðdansar, í fótspor fjallkonu/gönguferð, rímnakveðskapur, tónleikar og langspilssmiðja.
Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?
Þegar ég var 18 ára bauðst mér sumarvinna hér á safninu. Á árunum 2004 – 2012 hafði ég unnið hér fimm sumur. Vorið 2014 fékk ég svo stöðu á safninu sem safnstjóri eftir nám í þjóðfræði og hagnýtri menningarmiðlun.
Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?
Fjölbreytileikinn, að starfa á fáliðuðu safni getur verið mikil áskorun en jafnframt lærir maður mjög mikið af því. Maður er allt í senn safnstjóri, starfsmaður í afgreiðslu/verslun, innkaupastjóri verslunar, sýningarstjóri, markaðs- og kynningarstjóri og sinnir öllum þeim störfum sem sinna þarf á söfnum.
Það er skemmtilegt að kynnast nýju fólki og hitta kollega.
Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?
Hún er á fremur persónulegum nótum. En sumarið 2011 vann ég hér sem sumarstarfsmaður og var einn daginn að taka á móti gestum af Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi. Með í hóp var afi minn sem var orðinn mjög sjóndapur og átti ekki langt eftir. Hann lét sig yfirleitt ekki vanta ef brjóta átti upp daginn á dvaló. En ég bjóst ekki við honum, sökum heilsufars. Það hefur sennilega eitthvað haft með það að gera að barnabarnið hans var að vinna á safninu, að hann mætti á safnið með hópnum. Hann hafði á orð á því hvað ég væri glæsileg til fara og ég grínaðist með það eftir á að hann hefði nú ekkert séð það.
Hver er þinn uppáhalds safngripur?
Ég held að jólasveinninn úr Hólmkjör sé allavega ofarlega á listanum. Jólasveinn þessi var árviss gestur í desember í versluninni Hólmkjör í Stykkishólmi árum saman og margir af minni kynslóð tengja sterkt við hann þar. Svo er húsið sjálft merkilegasti gripurinn. Það eru forréttindi að fá að vinna í þessu sögufræga húsi, Norska húsinu.
Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?
Ég er mjög dugleg að heimsækja söfn þegar ég fer erlendis og elska að fara í safnbúðir. Mér finnst mjög gaman að fara á listasöfn og þótti t.d. Weisman art museum í Minneapolis mjög skemmtilegt, sérstaklega húsið sjálft. Ætli það eftirminnilegasta hafi ekki verið að sjá Monu Lisu í Louvre, og hvað mér fannst það tilkomulítið, eftir að vera búin að bíða lengi í röð eftir að komast inn á safnið. Þetta var fyrir tíma snjallsíma.