• 15/03/2023

    Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og segja stuttlega frá honum. 

    Landbúnaðarsafn Íslands

     

    Hver er gripurinn?

    Skrúfstykki frá Ólafsdal.

     

    Til hvers var hann notaður?

    Skrúfstykkið hefur verið notað til smíða í Ólafsdal. Torfi Bjarnason skólastjóri Bændaskólans í Ólafsdal hefur trúlega notað gripinn við landsfræga smíði sína á staðnum. En þar voru verkfæri og aðrir gripir smíðaðir til að stuðla að framförum í verkháttum í landbúnaði. Síðar var það notað í Arnarholti og Hlöðutúni í Stafholtstungu, Borgarfirði. Skrúfstykkið er þannig brúkað að tveir kjálkar halda þeim hlutum sem verið er að smíða, lagfæra, rétta, beygja, bora eða skrúfa í o.s.frv. á sínum stað svo notandi þurfi ekki að nota eigið afl. Segja má að gripurinn sé nokkurs konar þvinga þar sem hægt er að skrúfa kjálkana sundur og saman eftir stærð þess sem á milli kemur í smíðum.

     

    Hver er saga hans?

    Sagan segir að gripurinn sé ættaður frá Ólafsdal þar sem Torfi Bjarnason hefur notað skrúfstykkið til smíða í smiðju sinni. Jafnvel nýtti hann stykkið við gerð þeirra verkfæra frá Ólafsdal sem einnig eru á Landbúnaðarsafninu eins og plóga, hestareku og lappaherfi. Eigendasaga gripsins er sú að þegar Ólafsdalsskólinn hætti árið 1907, færði Torfi dóttir sinni Ragnheiði (1873–1953) og tengdasyni Hirti Snorrasyni (1859–1925) skrúfstykkið. Þau voru skólastjórahjón á Hvanneyri um aldamótin 1900 og hafði Hjörtur meðal annars kennt við Ólafsdalsskóla 1892–1894. Þau fluttu síðar að Arnarholti í Stafholtstungum um 1911, í næsta nágrenni við vinafólk sitt á Hlöðutúni. Nábýlið þar á milli var gott og þegar Ragnheiður fluttist frá staðnum árið 1935 sem ekkja færði hún Hlöðutúnsfólkinu skrúfstykkið að gjöf. Á Hlöðutúni var verkfærið varðveitt vandlega fyrst af Brynjólfi Guðbrandssyni og Jónínu Guðrúnu Jónsdóttur sem voru samtíða Ragnheiði og Hirti á Hvanneyri. Þannig gekk skrúfstykkið milli kynslóða fjölskyldunnar á Hlöðutúni. Guðmundur G. Brynjólfsson nýtti það eftir foreldra sína og svo síðast sonur hans Brynjólfur sem færði safninu gripinn.

     

    Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?

    Eftir að hafa verið vandlega gætt á Hlöðutúni færði Brynjólfur Guðmundsson, bóndi á sama stað, safninu hann að gjöf sumarið 2010.

     

    Af hverju völduð þið þennan safngrip?

    Við fyrstu sýn virðist um ósköp venjubundið skrúfstykki sé að ræða. Það sem gefur þessum grip þó meiri merkingu fyrir Landbúnaðarsafnið er tenging þess við Ólafsdal og notkun þess við smíðar og viðhald á landbúnaðartólum. Í Ólafsdal var fyrsti búnaðarskóli landsins stofnaður og var Torfi Bjarnason stofnandi og skólastjóri hans þekktur fyrir framfaramál í landbúnaði á seinni helmingi 19. aldar. Fór hann meðal annars til Skotlands árin 1868–1871 þar sem hann kynnti sér steinsmíði, jarðyrkjuverkfæri o.fl. Til Íslands flutti hann með sér enska ljái sem tóku við af þeim íslensku vegna þeirra eiginleika að ekki þurfti að dengja þá líkt og íslensku ljáina. Í búskapartíð Torfa í Ólafsdal hóf hann að slétta túnin þar með plógum og öðrum áhöldum sem ekki höfðu verið í mikilli notkun hérlendis. En þýft undirlendi Íslands var afar óþægt ljáum og hrífum í heyskap fyrri tíðar svo aðferðir Torfa við sléttun túna mörkuðu þáttaskil í framförum hvað ræktun varðar. Enn fremur stundaði hann og nemendur hans smíðar á fjölmörgum verkfærum sem breiddust um landið ásamt aukinni þekkingu og framförum í landbúnaði. Skrúfstykkið stendur þessari merku sögu til vitnisburðar og endurspeglar mikilvægi smárra og hversdagslegra áhalda sem sköpuðu eitthvað meira og stærra í þróun landbúnaðar hér á landi.