• 03/04/2023

    Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur 18. maí næstkomandi. Þema safnadagsins þetta árið er „Söfn, sjálfbærni og vellíðan“.

    Söfn hafa veigamiklu hlutverki að gegna í málefnum sem varða sjálfbæra þróun og vellíðan fólks í þeim samfélögum sem þau þjóna. Starfsemi safna byggir á trausti almennings auk þess sem þau tengja saman ólíka hópa og eru því í einstakri stöðu til þess að koma jákvæðum breytingum til leiðar. Söfn geta lagt lóð sín á vogarskálarnar og stutt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með ýmsum hætti: allt frá því að taka þátt í loftslagsaðgerðum og hlúa að fjölbreytileika til þess að beita sér gegn félagslegri einangrun og bæta andlega heilsu.

    Safnadagurinn er haldin í samstarfi FÍSOS og Íslandsdeildar ICOM og verkefnisstjóri safnadagsins er Dagrún Ósk.

    Markmiðið er eins og áður að það verði líf og fjör á söfnunum á safnadaginn, söfn eru hvött til að standa fyrir viðburðum og mörg söfn hafa frítt inn í tilefni dagsins. Söfn sem ætla að standa fyrir viðburðum eða hafa frítt inn mega gjarnan hafa samband við Dagrúnu á netfanginu doj5@hi.is.

    Markmiðið er einnig að vekja athygli á söfnum í samfélagsmiðlum og fjölmiðlum. Safnafólk sem langar að skrifa greinar í tilefni dagsins eða taka yfir samfélagsmiðla Alþjóðlega safnadagsins og veita innsýn í starfið eru einnig beðin að hafa samband við Dagrúnu.