• 05/04/2018

    Sveitarstjórnarkosningar 2018 og söfnin í landinu
    Undanfarnar vikur hafa stjórnir FÍS, félag íslenskra safnafræðinga og FÍSOS, ásamt fagdeild safnamanna innan fræðagarðs, unnið að ályktun um stöðu safna í sveitarfélögum á Íslandi í tilefni af sveitarstjórnarkosningum nú í vor. Ályktun verður send flokkunum þann 6. apríl og fréttatilkynning á fjölmiðla í kjölfarið.
    Þann 25. apríl kl. 16.00 bjóða bréfritarar til fundar með fulltrúum framboðanna í Borgartúni 6, 3. hæð i Reykjavík.
    Stjórnir félaganna leita til félagsmanna til að koma ályktuninni til sem flestra frambjóðanda. Þeir sem hafa áhuga að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni sendið póst á stjorn@safnmenn.is.
    Nú er lag kæru félagar að efla sýnileika safna og opna enn frekar á umræðuna um mikilvægi þeirra líkt og félagsmenn hafa rætt á farskólum félagsins undanfarin ár.



    Fréttatilkynning – Framtíð safna á Íslandi: Eru söfn á stefnuskrá flokka?
    Félag íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS), Félag íslenskra safnafræðinga (FÍS) og fagdeild safnmanna innan Fræðagarðs hvetur til umræðu meðal frambjóðenda til sveitarstjórnakosninga 2018 um stöðu safna landsins. Sveitarfélög landsins reka flest a.m.k eina stofnun sem fellur undir safnalög. Ábyrgð sveitarfélaganna er því rík, bæði er varðar rekstur safna og framtíðarsýn í málaflokknum.
    Söfn eru mikilvægur þáttur í samfélagsgerðinni á Íslandi, innan menningar- og efnahagslífs. Árlega sækja þau rúmlega 1.000.000 gestir á landsvísu. Söfn landsins safna, rannsaka og miðla menningararfinum og varðveita hann til framtíðar.
    Félagsmenn FÍSOS, FÍS og fagdeildar Fræðagarðs hafa metnað fyrir faglegu safnastarfi á Íslandi. Framtíðarskipulag safna er félagsmönnum efst í huga. Þess vegna óska félagsmenn framboð og flokka um stefnu er viðkemur málefnum safna í þeirra sveitarfélagi.
    Félögin hafa í sameiningu sent ályktun til þeirra einstaklinga og stjórnmálaflokka sem bjóða fram krafta sína í komandi sveitarstjórnarkosningum.
    Óskað er eftir viðbrögðum við ályktuninni og þeim spurningum sem þar eru settar fram.
    Félögin bjóða fulltrúum flokkanna á umræðufund 25. apríl 2018 kl. 16.00 í Borgartúni 6, 3. hæð, þar sem málefni safna verða til umfjöllunar.Léttar veitingar í boði.