• 17/05/2018

  Tilkynnt var um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2018 í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi, þann 17. maí í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Forseti Íslands,  Guðni Th. Jóhannesson,  afhendir safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn þann 5. júní nk. á Bessastöðum.
  TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:
  Grasagarður Reykjavíkur
  Grasagarður Reykjavíkur er lifandi safn undir berum himni. Þar er varðveittur stór hluti af
  íslensku háplöntuflórunni ásamt fjölbreyttu úrvali erlendra plantna. Heildarfjöldi safngripa er um 5.000, skipt í átta safndeildir.
  Hlutverk Grasagarðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Plöntusöfnin gefa hugmynd um fjölbreytni gróðurs í tempraða beltinu nyrðra. Meginhluti tegundanna kemur úr frælistum erlendra grasagarða og fer ræktunin fer fram í sáningarhúsi, uppeldisgróðurhúsum, vermireitum og uppeldisbeðum.
  Grasagarðurinn stendur fyrir öflugri fræðslustarfsemi fyrir almenning og skólahópa árið um
  kring, enda er fræðsla eitt af meginhlutverkum hans. Markmið fræðslunnar er að nýta hin
  margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf,
  garðmenningu og grasnytjar, sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu. Auk fræðslusamstarfs
  við leik- og grunnskóla borgarinnar hefur Grasagarðurinn verið í samstarfi við m.a.
  Kvikmyndasafn Íslands, Garðyrkjufélag Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands. Ýmis
  samstarfsverkefni á sviði rannsókna og söfnunar hafa ennfremur verið unnin á undanförnum árum í Grasagarðinum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Lystigarð Akureyrar, Norræna genabankann o.fl.
  Grasagarðurinn starfar samkvæmt íslensku safnalögunum og er viðurkennt safn. Sömuleiðis er unnið eftir lögum um náttúruvernd, öðrum íslenskum lögum og reglugerðum er varða starfsemina og alþjóðlegum samþykktum um líffræðilegan fjölbreytileika.
  Mat valnefndar er að Grasagarður Reykjavíkur gefi ómetanlega innsýn í stórmerkilega flóru
  Íslands og sé einstakur meðal safna á Íslandi. Garðurinn er lifandi safn undir berum himni,
  með lifandi safngripum. Fræðsla er mikilvæg stoð í starfseminni, ásamt rannsóknum, þar
  sem áhersla er lögð á fjölbreytt samstarf.
  Listasafn Árnesinga
  Listasafn Árnesinga býður upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott
  aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einkaog samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins.
  Safnið heldur úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum,
  listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Námskeið og smiðjur eru haldnar reglulega fyrir almenning þar sem gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins.
  Listasafn Árnesinga var á sínum tíma fyrsta listasafnið utan höfuðborgarsvæðisins sem opið var almenningi og hefur sýnt sig og sannað sem öflugt og framsækið listasafn.
  Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns
  Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.
  Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands
  Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og leiðandi á sínu sviði. Þar er
  varðveittur mikilvægur minjaauður þjóðarinnar, sem er í senn kveikja þekkingar og
  nýsköpunar.
  Undanfarin ár hefur Þjóðminjasafn Íslands tekið framfaraskref í varðveislumálum sem eru öðrum söfnum til fyrirmyndar. Rannsókna- og varðveislusvið safnsins hefur aukið þekkingu safnmanna á fyrirbyggjandi þáttum forvörslu og mikilvægi réttrar meðhöndlunar safngripa með útgáfu Handbókar um varðveislu safnkosts, sem aðgengileg er á vefsíðu safnsins. Góð varðveisla þjóðminja er forsenda þess að framtíðin þekki þann auð og geti nýtt sér hann.
  Árið 2016 var tekið í notkun nýtt varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands á
  Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði. Húsnæðið var innréttað sérstaklega eftir þeim kröfum sem
  sérfræðingar safnsins settu til þess að tryggja kjöraðstæður til varðveislu safngripa. Aðstaða til þess að sinna varðveislu er til fyrirmyndar; vinnuaðstaða fyrir móttöku gripa og skráningu ásamt vel útbúnu forvörsluverkstæði. Rými til rannsókna er stórbætt og fræðimönnum og nemendum er gefið færi á að nýta safnkostinn í verkefnum sínum. Varðveislu- og rannsóknasetrið styður mjög vel við markmið safnastefnu á sviði menningarminja þar sem aðstæður hafa verið skapaðar til að gera starfsfólki enn betur kleift að vinna faglega og á vandaðan hátt með safnkostinn um leið og rækt er lögð við starfsumhverfið til að styðja við markmið safnastarfsins.
  Mat valnefndar er að varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands muni hafa
  afgerandi áhrif á fagleg vinnubrögð starfsmanna safna um allt land. Með því er tónninn
  gefinn fyrir framtíðarvarðveislu þjóðargersema.