Stjórn Félags íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS) og Félags íslenskra safnafræðinga (FÍS) skora á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðuneyti að móta metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir uppbyggingu á starfsemi Náttúruminjasafns Íslands, og tryggja rekstargrundvöll safnsins svo sómi verði að fyrir þjóðina. Staða Náttúruminjasafns Íslands er algerlega óásættanleg, sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum.
Náttúruminjasafn Íslands er eitt höfuðsafnanna þriggja sem eru í eigu hins opinbera og eiga lögum samkvæmt að vera leiðandi í faglegu safnastarfi. Höfuðsöfnin þrjú, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands gegna því mikilvæga hlutverki að vera grunnstoð í miðlun og varðveislu á náttúruarfi þjóðarinnar og menningu.
Um starfsemi íslenskra safna gilda lög nr. 141/2011 svokölluð safnalög, þau eru sett til þess „að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn“ (1.gr. Tilgangur).
Í 5. gr. safnalaga segir enn fremur: Söfn eru opin almenningi og safna, varðveita, rannsaka og miðla því sem er til vitnis um manninn, sögu hans og menningu, náttúru og umhverfi í nafni samfélagsins og til framgangs þess. Þau skulu hafa að leiðarljósi að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
Það er skýlaus krafa að hið opinbera axli þá ábyrgð sem því ber, og leggi sitt að mörkum til uppbyggingar Náttúruminjasafns Íslands. Það er forgangsmál að tryggja safninu húsnæði og sýningaraðstöðu til frambúðar. Öflugt náttúruminjasafn styrkir menntakerfið, menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Aukinn skilningur okkar á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta og mest aðkallandi verkefni samtímans.
Fyrir hönd FÍSOS og FÍS
Bergsveinn Þórsson form. FÍSOS
Helga Lára Þorsteinsdóttir form. FÍS