• 07/02/2015

    Þann 17. maí 2015 verður íslenski safnadagurinn haldinn hátíðlegur í samstarfi við Íslandsdeild ICOM. FÍSOS heldur utan um kynningu, safnar saman dagskrá safna, gerir hana aðgengilega og dreifir dagskránni til fjölmiðla.
    Markmiðið með deginum er að kynna og efla safnastarf á Íslandi. Fjölbreytt dagskrá er í boði og landsmenn hvattir til að heimsækja söfn og njóta skemmtunar og fræðslu fyrir alla fjölskylduna. Íslenski safnadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur ár hvert, annan sunnudag í júlí, en vegna breyttra aðstæðna hefur verið ákveðið að færa hann til og halda hann í samhengi við Alþjóðlega safnadaginn.
    Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af International Council of Museums (ICOM) ýmist er haldið upp á daginn yfir helgi, einn dag eða eina viku. Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum. ICOM leggur til þema ár hvert og 2015 er unnið eftir yfirskriftinni „Söfn í þágu sjálfbærni“ (e. museums for sustainable society).
    Að halda íslenska safnadaginn í samhengi við alþjóðlega safnadaginn, er viðbragð við breyttu starfsumhverfi safna og gefur aukin tækifæri til þess að vinna markvisst að því að efla faglegt safnastarf með ákveðið alþjóðlegt þema að leiðarljósi hverju sinni.
    Öll söfn eru hvött til þess að fara að huga að þessum degi og senda síðan inn dagskrá sína á safnadagurinn@safnmenn.is ásamt upplýsingum um opnunartíma og aðgangseyri á þessum degi.
    Banner_ice