Þann 18. maí á Alþjóðlega safnadeginum voru Íslensku safnaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn. Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) standa saman að verðlaununum, sem eru viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.
Verðlaunin að þessu sinni hlaut Listasafn Reykjavíkur fyrir framsækið miðlunarstarf, en í umsögn valnefndar segir meðal annars:
Grunnstef í miðlun Listasafns Reykjavíkur er að allir geti tengst myndlist í fortíð og samtíma á eigin forsendum. Gestir safnsins á öllum aldri, af ólíku þjóðerni og mismunandi áhuga eða getu eru hvattir til að skoða og uppgötva og ekki síst til þátttöku í miðlunarstarfi safnsins. Safnið leitast við að sníða sýningar og aðra miðlun með það að markmiði að skapa borgarbúum og öðrum gestum innihaldsríkar og ánægjulegar myndlistarstundir.
Í miðlunarstarfi sínu sýnir Listasafn Reykjavíkur mikinn metnað og nýsköpun til að ná til ólíkra markhópa safnsins á framúrskarandi hátt.
Þau söfn sem hlutu einnig tilnefningu til verðlaunanna voru Gerðarsafn fyrir tengingu milli innra og ytra safnastarfs, Listasafn Íslands fyrir Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi, Sauðfjársetur á Ströndum fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi og Þjóðminjasafn Íslands fyrir Með verkum handanna.
Í valnefnd sátu Bergsveinn Þórsson dósent við Háskólann á Bifröst, Helga Einarsdóttir verkefnisstjóri á fræðslusviði Alþingis, Sigrún Kristjánsdóttir sýningarstjóri hjá Árnastofnun og Sigríður Örvarsdóttir safnstjóri á Menningarmiðstöð Þingeyinga. Haraldur Þór Egilsson var formaður nefndarinnar fyrir hönd Minjasafnsins á Akureyri, sem hlaut verðlaunin 2022.
Sigrún Brynja Einarsdóttir ráðuneytisstjóri Menningar- og viðskiptaráðuneytis, afhenti verðlaunin í Safnahúsinu við Hverfisgötu og ríkti mikil gleði meðal safnafólks sem fjölmennti á viðburðinn og fagnaði blómlegri starfsemi safna á Íslandi í dag.