• 13/11/2023

    Nafn:  Þóra Sigurbjörnsdóttir

    Safn: Listasafn Einars Jónssonar

    Staða: Sérfræðingur

    Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

    Það er ýmislegt í gangi hér þessa dagana, ég er búin að vera hérna í um 7 mánuði og er að finna minn sess smátt og smátt á nýjum vinnustað. Verið er að undirbúa umsóknir í safnasjóð, skila skýrslum og vinna þessi helstu skrifstofustörf, vaktaplan, bókhald og þess háttar. Svo koma hér skólahópar í heimsókn af og til sem eru þá „píndir“ til þess að tjá sig um höggmyndir Einars Jónssonar, það er mjög skemmtilegt. Þó að þeim geti brugðið þegar orðinu er kastað til þeirra. Maður verður að dansa á línunni þar sem maður stýrir of mikið eða of lítið, oftast andar þó einhver út úr sér einhverju og smá umræða kemst af stað, sem ég verð alltaf svo glöð að heyra. Það þarf að æfa Íslendinga í að geta átt svona samtöl í opinberu rými, og það tekur tíma að fatta að manni má finnast allskonar um myndlist.

    Við erum mikið búnar að vera að spá í skráningarmálum safnsins undanfarnar vikur og erum með góða hjálp við það verkefni í Maríu Hjelm sem hefur starfsreynslu hér á safninu og þekkir því vel til. Auðvitað hefur margt verið unnið nú þegar í skráningarmálum, en það þarf að klára málið (og það er hægt hér). Búið er að gera ýmis plön um hagræðingu í geymslum og þess háttar. Það er líka verið að vinna að útgáfu í tengslum við afmælisár safnsins og ég hef verið að grafa mig í gegnum myndir sem til eru í safninu fyrir það. Margt og mikið er sem sagt í gangi. Listasafn Einars er með fámennt starfslið á skrifstofu svo það reynir á að forgangsraða hlutunum.

    Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

    Mig hafði lengi langað til að vinna á safni, en það er mjög erfitt að komast inn í safnageirann. Mér fannst þetta eitthvað svo heillandi veröld, sérstaklega vinnan sem er unnin á bakvið tjöldin og ekki síst geymslurnar. Að raða upp gripum svo þeir segi söguna, allt sem maður getur uppgötvað í geymslunum! Á endanum fékk ég helgarstarf á Byggðasafni Hafnarfjarðar þar sem ég flakkaði á milli víkingasýningarinnar frá York sem var í gangi það sumarið og svo sat ég yfir í Sívertsenhúsinu og Siggubæ. Svo flutti ég til Danmerkur og lærði listasögu í nokkur ár. Eftir að ég kom heim úr því námi fékk ég að vinna skráningarverkefni fyrir Listasafn Íslands sem var mjög lærdómsríkt. Eftir það fór ég í kennslufræðina og kenndi svo í tvö ár… svo kom hrunið og kennsluferillinn fór í frysti og ég fór í meistaranám í safnafræði. Þá var ég líka svo heppin að ég fékk hlutastarf í Hönnunarsafninu sem breyttist svo í 100% sérfræðingsstöðu. Þannig var nú sú köflótta saga.

    Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

    Fjölbreytnin í starfinu er helsti kostur þess og galli. Svo finnst mér fólkið sem starfar á söfnum sérlega skemmtilegt og andinn hér á Íslandi þar sem hægt er að leita til allra eiginlega hvenær sem er, er einstakur. Það er líka mjög gaman þegar maður hefur verið að grufla í einhverju í lengri tíma og svo birtist gripur eða sem er púslið sem vantaði.

    Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

    Ég vann mjög lengi á Hönnunarsafni Íslands. Þar er frekar stór rafmagnshúsbíll í safneigninni, sem við fundum ekki í nokkur ár. Eins fáránlegt og það er nú. Einn daginn var svo hringt frá þáverandi Framkvæmdasýslunni og við beðnar um að koma og ná í bílinn okkar, hann væri fyrir, þar sem fara átti í framkvæmdir í byggingu Listaháskólans í Laugarnesinu. Það var því  stokkið af stað eftir bílnum sem er mjög þungur. Bíllinn er í laginu eins og padda og þakið á honum er þannig gert að það er einskonar hleri sem opnast upp og fellur niður aftur af bílnum og myndar pall, þá birtist tjald með innbyggðri grind sem er áfast palli og þaki. Mjög flottur bíll. En við keyrðum úr Garðabænum inn í Laugarnes þar sem flutningabíll tók bílinn á pall. Ég og Harpa safnstjóri eltum svo flutningabílinn og sáum þá hvernig hlerinn opnaðist á leið undir Kópavogsbrúna, í eftirmiðdagsumferðinni. Þannig að við urðum að hendast út úr bílnum og upp á pallinn til að hjálpa til við að reyna að loka hleranum, og böggla tjaldinu aftur inn í bílinn. Bílnum var svo komið fyrir í varðveislurými safnsins, þar sem hann vekur alltaf mikla athygli, enda eins og geimfar í útliti.

    Hver er þinn uppáhalds safngripur?

    Í Hönnunarsafninu er til gullfallegt sófaborð eftir Þorkel Guðmundsson heitinn. Það er frá 1960 minnir mig og er úr reyktri eik. Einfalt en flókið á sama tíma í forminu.

    Nú er ég að kynnast safneigninni á Listasafni Einars Jónssonar og hef ekki fundið uppáhalds þar enn þá, en miðað við það sem er hér að finna á ég örugglega eftir að heillast af einhverju skemmtilegu.

    Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

    Eitt eftirminnilegasta safnið sem ég hef heimsótt hingað til er líklega Holræsasafnið í París (Le Musée des Égouts). Það á sér langa sögu og áður en það opnaði var víst vinsælt að fara með fínt fólk að skoða holræsakerfi borgarinnar. Fyrstu heimsóknirnar voru farnar um 1867 í tengslum við Heimssýninguna. Þá var ferðast um á bátum, en núna er þetta frekar snyrtilegt og gengið um göng, þó að lyktin sé sum staðar alveg ferleg.

     

    Safnamanneskja í sínu náttúrulega umhverfi: Varðveislurými og skrifstofan