• 05/11/2023

    Farskóli FÍSOS fór fram í Hollandi dagana 10.-13. október síðastliðinn og er óhætt að segja að hann hafi verið einstaklega fróðlegur og skemmtilegur. Tæplega 120 manns tóku þátt í farskólanum og má reikna með að safnafólk hafi snúið aftur heim uppfullt af innblæstri og hugmyndum.

    Alls voru heimsótt 29 söfn í 35 málstofum og vinnustofum. Söfnin voru ótrúlega fjölbreytt og áherslurnar misjafnar. Flest safnanna voru staðsett í Amsterdam, en einnig gátu þátttakendur valið um að heimsækja Amersfoort eða Utrecht og þann 12. október var hægt að velja um að heimsækja söfn í Leiden, den Haag eða Rotterdam.

    Tveir aðalfyrirlesarar fluttu erindi á Rijksmuseum í Amsterdam annars vegar Harm Stevens, forvörður og sýningarstjóri í sagnfræðideild og hins vegar Annemies Broekgaarden, deildarstjóri miðlunar og fræðslu og voru bæði erindin mjög áhugaverð.

    Það var einnig nóg um afþreyingu og stórskemmtileg árshátíð var haldin með pompi og prakt á ráðstefnuhótelinu þar sem dansað var langt fram á nótt.

    Við þökkum Farskólastjórn fyrir skipulagið og ykkur öllum fyrir þátttökuna, gleðina og gamanið, samtölin og samveruna.

    Myndin sem fylgir var auðvitað tekin af Herði Geirssyni og þökkum við honum kærlega fyrir.