• 05/05/2023

    Eftirfarandi ályktun var send til Kópavogsbæjar þann 3. maí 2023:

    Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu menningarstofnana Kópavogs í kjölfar tillagna um breytingar á starfsemi þeirra sem samþykktar voru á fundi bæjarstjórnar 26. apríl síðastliðinn. Jafnframt lýsir stjórn FÍSOS yfir miklum vonbrigðum með hvernig málið var unnið og þeim gögnum sem lögð eru til grundvallar ákvörðuninni. Tvö þeirra safna sem um ræðir, Náttúrustofa Kópavogs og Gerðarsafn, eru viðurkennd söfn og eru meðlimir í FÍSOS.

    Á undanförnum árum hefur blómlegt og faglegt starf menningarhúsanna í Kópavogi vakið verðskuldaða athygli. Þar hefur verið byggt upp öflugt þverfaglegt starf sem hefur m.a. skilað sér í öflugu fræðslustarfi og áhugaverðum sýningum safnanna. Starf menningarhúsanna í Kópavogi hefur sannarlega verið til fyrirmyndar. Tillögur bæjarstjórnar og bæjarstjóra Kópavogs koma því verulega á óvart en við teljum þær byggja á veikum grunni og bera merki um ófagleg vinnubrögð. Jafnframt virðist þar birtast skilningsleysi á eðli menningarstofnana og gildi menningar fyrir samfélög.

    Ljóst er á athugasemdum forstöðumanna safnanna við skýrslu KPMG að hún er full af rangfærslum og skrifuð af mikilli vanþekkingu á starfi menningarstofnana og gildi menningar fyrir samfélagið. Það er þyngra en tárum taki að sveitarfélagið skuli leggja slíkt plagg til grundvallar þegar framtíð og starfsemi menningarstofnana er ákvörðuð en sniðganga þar með faglegt mat forstöðufólks, þeirra sem sannarlega hafa vit á málefninu. Þá er einnig umhugsunarvert að bæjarstjórn hafi ekki tekið meira tillit til athugasemda Safnaráðs en raun ber vitni.

    Í tillögunum er lagt til að „gert verði nýtt upplifunarrými sem tengir saman bókmenntir, myndlist, náttúruvísindi og tónlist“. Í því samhengi vill stjórn FÍSOS koma því á framfæri að slík miðlun sprettur ekki úr engu. Grunnur allrar miðlunar safna og annarra menningarstofnana felst í öflugum rannsóknum, söfnun, skráningu og varðveislu. Án þessara grunnstoða er verið að byggja skýjaborgir sem duga skammt.

    Við hvetjum Kópavogsbæ til að endurskoða ákvörðun sína og tefla ekki í tvísýnu þeim ótvíræðu lífsgæðum sem öflugar menningarstofnanir fela í sér fyrir íbúa sveitarfélagsins. Eins má benda á að söfn og menning eru meðal þriggja helstu áningarstaða sem ferðamenn sem heimsækja Kópavog leita eftir.

     

     

    Virðingarfyllst,

    Stjórn FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna

    Anita Elefsen, formaður, Síldarminjasafn Íslands

    Elsa Guðný Björgvinsdóttir, varaformaður, Minjasafn Austurlands

    Jón Allansson, gjaldkeri, Byggðasafnið á Görðum

    Ingibjörg Áskelsdóttir, ritari, Borgarsögusafn Reykjavíkur

    Þóra Sigurbjörnsdóttir, meðstjórnandi, Hönnunarsafn Íslands

    Sigríður Þorgeirsdóttir, varamaður, Þjóðminjasafn Íslands

    Hjörtur Þorbjörnsson, varamaður, Grasagarður Reykjavíkur