• 23/04/2023

  Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og segja stuttlega frá honum. 

  Byggðasafn Skagfirðinga

   

  Hver er gripurinn?

  Valnastakkur Andrésar H. Valberg (1919-2002), gerður úr 1600 völum úr a.m.k. 800 fjár en völurnar eru misgamlar, þær elstu jafnvel allt frá landnámsöld. Andrés hafði lambsvölur í hálsmálinu til að hafa þar fallegri áferð. Völur hafði hann í staðinn fyrir tölur, hnepptar á færilykkjur úr eltiskinni. Völurnar í stakknum eru boraðar að framan og aftan og þræddar saman hálft í hálft. Stærð stakksinn frá öxlum og niður að framan er um 80 cm en ummál að neðan er 136 cm, Andrés vigtaði stakkinn og sagði hann um 20 kíló.

   

  Til hvers var hann notaður?

  Andrés Valberg notaði hann á mannamótum þegar hann var að skemmta fólki með kveðskap. Þá lánaði Andrés einnig Hrafni Gunnlaugssyni stakkinn í kvikmyndina Hrafninn flýgur. Til gamans má geta að Andrés notaði einnig stundum heitið Valnastakkur sem skáldanafn.

   

  Hver er saga hans?

  Þegar Andrés var 7 ára las faðir hans fyrir hann Hellismannasögu, þar er minnst á kappann Valnastakk og sagði faðir hans að valnastakkur væri brynja úr völum. Þá sló Andrés því föstu og strengdi þess heit að valnastakk myndi hann gera þegar völurnar væru orðnar nógu margar. Andrés fékk völur frá móður sinni í tannfé, þá voru þær orðnar um 300 talsins og jók hann síðan við stofninn jafnt og þétt. Ef hann fann kindahræ þá skar hann völuna úr. Þegar hann var 17 ára var hann í skipavinnu að raða tunnum og var sagt að raða hálft í hálft annars myndi allt hrynja, þaðan fékk hann þá hugmynd að þræða völurnar saman hálft í hálft. Hann byrjaði með hampsnæri en það nuddaðist í sundur, þá prófaði hann plastvarinn rafmagnsvír en það tognaði svo á honum að hann varð að byrja upp á nýtt. Þá fann hann silfurbenslavír sem var harður og óþjáll en stakkurinn rann samann og dugði vel en Andrés notaði hann í yfir 40 ár.

   

  Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?

  Valnastakkurinn kom ásamt alls um 500 gripum frá Andrési Valberg sem gjöf til Sauðárkróksbæjar árið 1988 og við sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði árið 1998 fóru gripirnir til Byggðasafns Skagfirðinga.

   

  Af hverju völduð þið þennan safngrip?

  Valnastakkurinn er einstakur gripur með skemmtilega og áhugaverðu sögu og tengdur einstökum og landskunnum manni sem lagði einnig mikið til safnasamfélagsins í formi gripa og heimilda.

   

  Fyrir áhugasöm er hægt að lesa nánar um sögu valnastakksins hér: https://timarit.is/page/6803919?iabr=on#page/n179/mode/2up