• 11/04/2023

  Nafn: Katrín Helga Guðmundsdóttir.

  Safn: Gerðarsafn/ Listasafn Kópavogs.

  Staða: B.A í listfræði, móttaka og miðlun.

  Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana? Sýningin “Að rekja brot” opnaði í byrjun febrúar og hefur verið áhugavert að kynna sér þá listamenn sem taka þátt í sýningunni og verkin þeirra. Það kom einhver ferskur blær á safnið með þessari sýningu þar sem hún er mjög kraftmikil. Svo verður ótrúlega spennandi að sjá veglega grunnsýningu á verkum Gerðar Helgadóttur sem opnar á næstu vikum á neðri hæð safnsins.

  Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni? Ég útskrifaðist með B.A í listfræði í HÍ síðasta sumar og langaði að prufa að vinna á listasafni og ákvað að sækja um á Gerðarsafni þar sem mér fannst það spennandi safn sem er í mikilli þróun. Ég hef alltaf haft ótrúlega gaman að því að fara á listasöfn og er það yfirleitt eitt af því fyrsta sem geri þegar ég fer til útlanda. Umhverfið og orkan á söfnum er svo upplífgandi og góð.

  Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið? Ég hef unnið á safninu í rúmt hálft ár og það sem mér finnst skemmtilegast er að heyra frá ánægðum gestum safnsins og einnig að fylgjast með ferlinu þegar verið er að setja upp nýja sýningu. Mér finnst líka ótrúlega gaman að kynnast og skrifa um verkin í safneign safnsins.

  Hver er þinn uppáhalds safngripur? Minn uppáhalds safngripur er N° 14 (Browns over Dark) eftir Mark Rothko sem má sjá í Pompidou safninu í París. Verkið er stórt og áhrifamikið. Það er vel hægt að komast í hugleiðsluástand í návist verksins.

  Annað uppáhald er Mót/ Meeting eftir Gerði Helgadóttur sem er skúlptúr úr steinsteypu og gleri undir egypskum áhrifum. Þar mætast fínleiki og styrkur og mynda fallega heild.

  Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?  Ég verð að segja að Salvador Dalí safnið sem er rétt fyrir utan Barcelona sé mitt uppáhalds hingað til. Þar gleymdi maður algjörlega stað og stund og sogaðist inn í draumaveröld Dalí. Ekki skemmdi fyrir að umhverfið í Figueres þar sem safnið er staðsett er ekkert smá fallegt. Það er algjör upplifun að fara á þetta skemmtilega safn.