• 21/10/2022

    Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og svara nokkrum laufléttum spurningum um hann. 

     

    Skógasafn

     

    Hver er gripurinn?

    Altarisdúkur, efnið virðist vera úr silki. Dúkurinn er nú gulleitur að lit, sökum aldurs. Dúkurinn er 135 x 99 cm að stærð. Innar er ferhyrndur reitur 98 x 80 cm að stærð, renningar saumaðir umhverfis hann. Dúkurinn er alkögraður, en kögrið hefur fallið brott á stöku stað. Dúkflöturinn er útsaumaður með jurtaskreyti. Útsaumsþráðurinn er alsettur hnútum, lagður niður og saumaður niður líkt og við refilsaum. Þörf er á frekari rannsóknum til að skera úr um efni, saumgerð og uppruna dúksins.

    Hver er saga hans?

    Sagan segir að dúkurinn hafi verið gefinn Holtskirkju undir Eyjafjöllum af Þorbjörgu Eyjólfsdóttur, sem var kölluð Tyrkja-Tobba. Samkvæmt Reisubók Ólafs Egilssonar var Þorbjörg líklega frá Vestmannaeyjum og var numin á brott í Tyrkjaráninu. Hún var seld í þrældóm í Alsír árið 1627 og hún hét því að ef hún myndi öðlast frelsi á ný myndi hún gefa Holtskirkju altarisdúk. Árið 1637 var Þorbjörg ein af 37 Íslendingum sem voru keypt úr ánauð. Aðeins 27 komust þó alla leiðina heim heil á höldnu. Eftir heimkomuna stóð hún við loforð sitt og gaf Holtskirkju altarisdúkinn.

    Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?

    Altarisdúkurinn var í Holtskirkju til ársins 1888 en það ár skemmdist kirkjan mikið vegna óveðurs. Því var ákveðið að endurbyggja kirkjuna í Ásólfsskála og dúkurinn var þá færður í nýju kirkjuna þar sem hann var styttur til þess að passa á altarið þar. Altarisdúkurinn var afhentur Skógasafni þann 6. nóvember 2007 af sóknarnefnd og söfnuði Ásólsskálasóknar.

    Af hverju völduð þið þennan safngrip?

    Við völdum þennan safngrip vegna þess að gripurinn ber merki um seiglu og viljastyrk eftir hörmungar Tyrkjaránsins. Við vildum varpa ljósi á sögu manneskju sem var einfaldlega fórnarlamb aðstæðna og lítið hefur verið rætt um í íslandssögunni. Það er ómögulegt að setja sig í spor fólksins sem var numið á brott til Alsír, en við teljum að dúkurinn sé táknrænn fyrir þrautseigju hennar í framandi og erfiðum aðstæðum. Að gefa dúkinn var augljóslega verkefni, sem var henni mjög mikilvægt. Dúkurinn er allur útsaumaður með jurtaskrauti og virðist vera undir miklum áhrifum frá Alsír.