• 08/11/2022

  Nafn:  Nína Friðriksdóttir

  Safn:  Hafnarborg

  Staða: móttöku- og þjónustufulltrúi

   

  Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

  Núna eru tvær sýningar í gangi, annars vegar haustsýningin flæðir að – flæðir frá og hins vegar safneignarsýningin Vísað í náttúru. Þar á eftir erum við svo auðvitað á fullu að undirbúa næstu sýningar, meðal annars á verkum hafnfirsku feðginanna Sóleyjar Eiríksdóttur og Eiríks Smith. Annars er alltaf nóg að gera í húsinu og mikið af tónlistarviðburðum yfir vetrartímann eins og hádegistónleikar og síðdegisjazz.

   

  Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

  Ég fór í B.A. í listfræði í háskólanum og var að leita mér að vinnu sem tengdist náminu. Þar sem ég bjó í Hafnarfirði fannst mér svo alveg tilvalið að sækja um á listasafninu í bænum mínum. Síðan eru svo allt í einu liðin fimm ár og hefur maður fengið að taka þátt í flestum hliðum safnastarfsins á þeim tíma.

   

  Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

  Hvað það er mikil fjölbreytileiki í starfinu – alltaf nýtt fólk í húsinu í sambandi við sýningar og fylgir þar mikið af skemmtilegum viðburðum allt árið. Það eru reglulega leiðsagnir, fjölskyldusmiðjur og tónleikar. Með öllum þessum viðburðum kemur flóra af fólki sem nýtur samverunnar í Hafnarborg. Einnig er það samstarfsfólk mitt sem gerir vinnuna einstaklega skemmtilega.

   

  Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

  Fyrsta sýningin eftir að ég byrjaði að vinna í Hafnarborg var afmælissýning í tilefni 30/35 ára afmælis Hafnarborgar. Þar voru valin verk úr safneigninni. Eitt af verkunum sem var til sýnis var verkið Ástarljóð, í dumbrauðum plastpoka eftir Ernu Ómarsdóttir. Verkið var staðsett ofan á flygli safnsins sem fékk að standa í salnum á meðan sýningunni stóð. Ég man ekki hversu oft gestur kom og lét mig vita að það væri poki með einhverju rusli ofan á flyglinum í salnum og það var alltaf jafn skondið.

   

  Hver er þinn uppáhalds safngripur?

  Það er verk eftir Braga Ásgeirsson sem heitir Tímavél. Þegar við vorum að færa safneignina þegar safnið fékk nýjar fjargeymslur um það leyti sem Covid skall á, tók ég sérstaklega eftir þessu verki sem er svo ólíkt öðrum verkum í safneigninni. Verkið er svo í dag hluti af fræðslusýningu Hafnarborgar þannig ég fæ að sjá verkið daglega.

   

  Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

  Ég hef verið dugleg að skoða og kíkja á söfn á ferðum mínum um heiminn og þá aðallega listasöfn. Ein eftirminnilegasta safnaheimsóknin mín er heimsókn á White Rabbit Gallery í Sydney. Safnið er eitt stærsta safn af kínverskri samtímalist í heiminum og var sýningin Supernatural í gangi þegar ég heimsótti safnið árið 2019 og þar sá ég meðal annars fjöll af rusli og gestir gátu farið í ferðalag um hugsanlegt landslag tuttugustu og fyrstu aldarinnar.