• 14/10/2022

    Út er komið safnablaðið Kvistur.

    Efnistökin í þessu níunda hefti eru fjölbreytt en í þetta skipti er blaðið ekki þematengt heldur var auglýst eftir efni frá safnafólki og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Í blaðinu má einnig finna þrjár greinar sem byggðar eru á útskriftarverkefnum safnafræðinema. Það er óhætt að segja að blaðið endurspegli það öfluga starf sem fram fer á söfnunum. Greinarnar eru áhugaverðar og safnafólk deilir reynslusögum og hugmyndum hvort með öðru. Fjallað er um aðgengi að söfnum, safnfræðslu, samstarf safna, umhverfismál, rannsóknarstarf og tækninýjungar svo eitthvað sé nefnt. Þá er gerð grein fyrir skýrslum sem unnar voru fyrir landshlutasamtök sveitarfélaganna þar sem skoðaðir voru kostir um frekara samstarf safna eða sameiningar í hverjum landshluta.

    Ritstjóri blaðsins er Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir og í ritstjórn sitja Birna María Ásgeirsdóttir, Sigurjón Baldur Hafsteinsson, Þóra Sigurbjörnsdóttir og Þorgerður Þorleifsdóttir.

    Hægt er að kaupa Kvist í Bóksölu stúdenta, eða með því að hafa samband við ritstjórn.