• 11/10/2022

  Nafn:  Kristín Nanna Einarsdóttir

  Safn: Gljúfrasteinn – Hús skáldsins

  Staða: Starfskona

   

  Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

  Það er alltaf eitthvað í gangi á Gljúfrasteini. Skemmst er að minnast heimsóknar úkraínska rithöfundarins Andrej Kúrkov sem hlaut Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness á dögunum. Hann kíkti í kaffi og kleinur og tók lagið á flygilinn í stofunni. Í sumar voru haldnir stofutónleikar á hverjum sunnudegi en síðustu tónleikarnir fóru fram í lok ágúst. Davíð Þór Jónsson kom fram á þeim tónleikum, sólin skein inn um suðurgluggann og það var setið upp í rjáfur. Þessa dagana erum við smám saman að koma okkur í haustgírinn sem felur m.a. í sér að taka á móti skólahópum og kynna þá fyrir húsinu, skáldinu og listinni.

   

  Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

  Ég hafði fyrst og fremst áhuga á bókmenntunum sjálfum þegar ég sótti um starf á Gljúfrasteini. Ég hafði skrifað BA-ritgerð í íslensku um tvær skáldsagnapersónur í verkum Halldórs Laxness, þá Jón Prímus úr Kristnihaldi undir Jökli og Organistann í Atómstöðinni. Í kjölfarið lá beinast við að sækja um á Gljúfrasteini. Svo skemmdi auðvitað ekki fyrir hvað húsið var fallegt – ég tala nú ekki um að hafa náttúruna í allri sinni dýrð í bakgarðinum. Eins og svo margir hafði ég gengið upp að Helgufossi áður en ég byrjaði að vinna á safninu og heillaðist af umhverfinu. Ég hafði líka komið á eftirminnilega tónleika í stofunni og heimsótt safnið sem gestur. Ég var sannfærð um að þetta væri réttur staður fyrir mig, enda var það aldeilis raunin.

   

  Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

  Það sem mér finnst skemmtilegast við starfið er líklega hvað það er fjölbreytt. Á safninu tökum við á móti gestum og grúskum í bókmenntum, en það þarf líka að sinna ýmsum öðrum verkum í húsinu – til dæmis vökva blóm Auðar í stofunni, bjarga seinheppnum býflugum úr sundlauginni og trekkja klukkuna í forstofunni. Ég hóf störf í mars og þá þurftum við að moka okkur leið í gegnum snjóskafla til að komast leiðar okkar. Á Gljúfrasteini tekur lífið nefnilega mið af árstíðunum og umhverfinu og engir tveir dagar eru eins. Stundum er húsið fullt af fólki en þess á milli er hægt að gera núvitundaræfingar við uppvaskið í eldhúsinu og fylgjast með Grímannsfellinu skipta litum.

   

  Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

  Ætli ég verði ekki að nefna það þegar ég settist í Eggið – eitt frægasta húsgagn Gljúfrasteins. Það er víst stranglega bannað en ég vissi það ekki þá, enda nýbyrjuð og vitlaus. Stofan var þétt setin af fólki frá rithöfundaþinginu Iceland Writers Retreat og Ármann Jakobsson var að halda tölu. Ég hafði kynnt hann á svið en vissi svo ekkert hvað ég átti að gera við mig. Ég kom mér vel fyrir í Egginu fyrir aftan Ármann og það vildi ekki betur til en svo að það náðist á mynd. Hún var svo birt á vef rithöfundaþingsins. Ég hugsaði ekkert um þetta fyrr en nokkrum mánuðum síðar þegar ég var að drekka kaffi með samstarfskonum mínum. Þær byrjuðu að tala um hvað það væri skelfilegt þegar fólk settist í Eggið – þennan gamla og viðkvæma safngrip. Mér svelgdist á kaffinu og hélt mig til hlés það sem eftir lifði kaffitímans. Þær eiga kannski einhvern tímann eftir að rekast á myndina frá rithöfundaþinginu á netinu, og ég á mér litlar málsbætur.

   

  Hver er þinn uppáhalds safngripur?

  Það eru margir hlutir í uppáhaldi, en ég ætla að nefna Maríuteppið eftir Auði Laxness. Hún var svo mögnuð manneskja og listakona. Þetta teppi hangir í stofunni á Gljúfrasteini, en Auður saumaði það árið 1955 í tilefni Nóbelsverðlaunanna og gaf Halldóri. Þegar Gljúfrasteinn var byggður var hún aðalverkstjórinn og sá um allt sem við kom innréttingu hússins. Á safninu eru margir munir eftir hana, til að mynda veggteppi og púðar, en hún var mikil talskona íslensks handverks og hönnunar.

   

  Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

  Það sem kemur fyrst upp í hugann er Monet-safnið í Giverny. Það er staðsett í litlu sveitaþorpi rétt fyrir utan París og ég heimsótti það í vor á þessu ári. Við tókum lestina frá París til Giverny og leigðum okkur hjól á brautarstöðinni. Þaðan hjóluðum við fallega leið að húsi og görðum Monets sem eru líklega þekktastir fyrir vatnaliljurnar. Það var dásamlegt að komast aðeins út fyrir stórborgina, ná andanum og ganga um í þessu umhverfi sem minnti helst á málverk – ekki nema von. Auk garðanna er hægt að skoða hús Monets og í aðalsafnbyggingunni stóð yfir sýning um Monet og Rothko. Þetta var dásamlegur dagur og ég mæli heils hugar með þessari dagsferð út frá París.