• 30/09/2022

    Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og svara nokkrum laufléttum spurningum um hann. 

     

    Nýlistasafnið

     

    Hver er gripurinn?

    Verk, án titils, eftir Pétur Magnússon

     

    Nánari lýsing

    Verkið er háþrykk á ljósan pappír, um 25×16 cm. Tveir litir, rauður og blár, látnir mætast við miðjuna en myndefni er nokkuð abstrakt.

     

    Hver er saga hans?

    Verkið var merkt „höfundur óþekktur“ og taldist ráðgáta í safneign Nýlistasafnsins. Það var sýnt á „Spurningamerkjasýningu“ árið 2008 þar sem leitast var eftir upplýsingum um höfundinn, en enginn gestur bar kennsl á verkið. Á sýningunni SKÖPUN / EYÐING sem var hluti af Sequences X 2021 fólu sýningarstjórarnir  Þráinn Hjálmarsson og Þóranna Björnsdóttir nemendum í 6. bekk í  Fellaskóla að velja verk úr safneigninni til sýningar í Marshallhúsinu. Verkið var eitt þeirra sem varð fyrir valinu, en það var ennþá merkt „höfundur óþekktur“. Pétur Magnússon kom sem gestur á sýninguna og brá í brún, en hann kannaðist sannarlega við verkið sem þar hékk. Nú hefur það því verið merkt honum og skráning lagfærð. 

     

    Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?

    Pétur Magnússon hefur gefið Nýlistasafninu þó nokkur verk, en ekki er vitað hvenær eða með hvaða hætti þetta verk barst safninu. Öll verk í safneigninni eru gjafir, en fyrstu ár Nýlistasafnsins var listamönnum skylt að gefa verk til þess að teljast fulltrúi safnsins og þar með eigandi þess. Í dag telur fulltrúalistinn hátt í 400 listamenn og reglulega þiggur safnið gjafir frá fulltrúum sem og öðrum, en ekki er lengur skylda að gefa safninu verk.

     

    Af hverju völduð þið þennan safngrip?

    Þátttaka nemenda í 6. Bekk í Fellaskóla í sýningunni SKÖPUN / EYÐING færði safninu nýtt sjónarhorn á safneignina. Undir umsjón Gretu S. Guðmundsdóttur, myndlistarkonu og kennara, kynntu þau sér hina umfangsmiklu safneign Nýlistasafnsins, sem staðsett er í næsta nágrenni skólans við Völvufell, með það fyrir augum að velja úr verk til sýningar í sýningarrými Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu. Nemendurnir tóku að sér hlutverk sýningarstjóra og höfðu frjálsar hendur með val verkanna og báru þau á borð verk sem vakið hafa áhuga þeirra og hylli. Nokkur verk sem merkt voru óþekktum höfundi voru valin, en slík verk fara sjaldan fyrir sjónir almennings. Verkin voru sett í nýtt samhengi og fyrir vikið öðlaðist safnið mikilvægar upplýsingar.

    Um þessar mundir stendur einnig yfir alsherjar yfirferð á safneigninni þar sem óþekkt verk og horfin eru rannsökuð og sett í sviðsljósið. Hver hilla og skúffa í safngeymslunni verður yfirfarin til þess að staðfesta geymslustað allra verka og auglýst eftir upplýsingum um þau verk sem ekki finnast og þau sem merkt eru óþekktum höfundi. Verkefnið hófst nýverið í sýningarrými safnsins og var þá vonast eftir því að listamenn og listunnendur bæru kennsl á verk. Þegar yfirferð safnkostsins er lokið og staðfest hefur verið hvort að verk séu í raun horfin úr safneigninni, mun safnið ráðast í heimildasöfnun um horfnu verkin með það ú huga að setja á fót arkíf horfnu verkanna. Þá munu þau vera endurheimt að einhverju leiti, ef verkin finnast ekki.