• 28/09/2022

   Nafn: Elín S. Sigurðardóttir

  Safn: Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi

  Staða: Safnstjóri

  Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

  Nú er venjubundnum opnunartíma safnsins lokið en safnið er opið alla daga frá 1. júní til 31.ágúst frá kl. 10:00 – 17:00. Eftir þann tíma er fyrst og fremst opnað fyrir hópum en að sjálfsögðu er fólki hleypt inn þegar undirrituð er þar til staðar vegna annarrar vinnu. Og það er einmitt það sem er í gangi þessa dagana að taka á móti hópum sem eru þó nokkrir núna í september og fram í október. Þá þarf að fara yfir safnmuni í föstum sýningum sem margir hverjir eru mjög viðkvæmir og þó venjubundnum þrifum í safninu sé sinnt vel yfir sumartímann þarf að huga að því sérstaklega vel þegar haustar að.

  Einnig þarf að skrá muni sem safninu berast og búa um til varðveislu og svo þegar tími gefst er unnið að ljósmyndun muna og vistun á Sarpi. Haustin eru líka oft notadrjúg í ýmiss konar rannsóknarvinnu og um þessar mundir fer fram undirbúningur vegna töluverðs stórs rannsóknarverkefnis sem vonandi verður hægt að vinna í vetur.

  Vert er að geta um ýmsa viðburði sem boðið er upp á í safninu. Á hverju vori er opnuð ný textíllistasýning. Miðað er við að þessar sérsýningar séu mjög ólíkar frá ári til árs. Í vor opnaði Ragnheiður Björk Þórsdóttir, veflistakona, sýninguna Þráðlag. Sýningin mun vera uppi fram á næsta vor. Þá er árlega boðið upp á a.m.k. eina Stofutónleika og í sumar kom fram Kammerkór Skagafjarðar undir stjórn Helgu Rósar Indriðadóttur. Oft á tíðum eru fluttir skemmtilegir og fróðlegir fyrirlestrar í safninu og er á áætlun síðar í haust að Bjarni Guðmundsson, fyrrum safnstjóri Búvélasafnsins á Hvanneyri, flytji fyrirlesturinn „Konur breyttu búháttum“. Á aðventu er lesið úr nýjum bókum og gestum boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur. Síðan á útmánuðum er tekið á móti grunnskólabörnum sem fá leiðsögn um safnið og spreyta sig á að kemba ull og spinna og fylgja þræðinum í vef. Kemur sér þá vel fyrir þau og kennara þeirra að fletta upp á einni af vefsýningum safnsins „Að koma ull í fat“ sem vistuð er á heimasíðu safnsins en má líka að finna á www.sarpur.is. Þá hafði safnið það að venju að bjóða upp á þjóðbúninganámskeið annaðhvort ár í safninu þ.s. konur saumuðu sér nýja búninga eða löguðu eldri búninga. Því miður höfum við ekki getað sinnt þessum þætti starfsins sl. tvö ár.

  Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

  Það má segja að það hafi gerst dálítið óvart. Ég var árið 1992 kosin formaður Sambands Austur – húnvetnskra kvenna sem voru samtök 10 kvenfélaga í héraði. Kvenfélagskonur innan þessara samtaka höfðu á sjöunda áratugnum safnað munum sem tengdust heimilisiðnaði og opnuðu lítið safn árið 1976. Nokkrar þeirra sinntu safninu eftir því sem þær gátu í sjálfboðavinnu. Um árabil var ég í stjórn þessara samtaka og verð að viðurkenna að ég hafði ekki mikin áhuga á safnastarfi en þegar ég gerðist formaður SAHK fékk ég safnið í fangið. Við sem þá vorum í stjórn samtakanna unnum að því að mynda sjálfseignarstofnun um Heimilisiðnaðarsafnið með aðild sveitarfélaga héraðsins sem þá voru tíu rétt eins og kvenfélögin og búnaðarfélögin. Síðan þetta gerðist hafa orðið miklar breytingar ekki bara á starfsemi kvenfélaganna sem eru orðin mjög fá heldur líka á stjórnsýslu sveitarfélaganna. Eftir sem áður hef ég fylgt þessu safni og allri uppbyggingu þess undanfarin 30 ár og nú síðustu árin í  60% starfshlutfalli og eini fastráðni starfsmaðurinn en að auki eru tvær námsstúlkur meginhluta sumaropnunnar safnsins.

  Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

  Þegar ég lít til baka þá verður að viðurkennast að að það að vinna að uppbyggingu safnsins og upplifa allar þær breytingar sem orðið hafa á safnastarfi hefur veitt mér mikla ánægju en oft á tíðum verið líka mikil áskorun. Sjálft safnastarfið er mjög fjölbreytilegt hvort heldur sem er í innra starfi safnsins sem fer að miklu leiti fram yfir vetrartímann eða í leiðsögn og móttöku gesta sem oft á tíðum getur verið mjög orkufrek.

  Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

  Það hafa oft átt sér stað skemmtilegar uppákomur í safninu. Það gerðist einu sinni hjá mér í leiðsögn að ég var að sýna erlendum gestum prjónuð nærföt. Ég hélt á sjálfu „föðurlandinu“ þ.e. blágrænum nærbuxum og gesturinn sem hafði orðið tíðrætt um náttúrlegu ullar litina okkar spurði „er þetta náttúrulegur litur“ og ég svaraði að bragði „Já“ og  sá svo allt í einu fyrir mér blágrænar kindur út um hagann og flýtti mér að leiðrétta þetta mismæli. Það var þó eins og viðkomandi þætti þetta ekkert óeðlilegt og virtist alveg geta hugsað sér blágrænan náttúrulit.

  Hver er þinn uppáhalds safngripur?

  Ég á marga uppáhalds safngripi og undrast ótrúlega fallegt handbragð formæðra og feðra frá fyrri tíma, þar sem oft á tíðum var unnið við mjög við bágar aðstæður. Í sumar hef ég leyft mér að hampa lítilli pjötlu af svuntudúk sem má segja að sé leiðarstef að nokkrum verkum Ragnheiðar veflistakonu. Viðkomandi svuntudúkur var ofinn aldamótaárið 1900 úr fínasta þræði sem vitað er um að hafi verið handspunninn úr ull. Það eru 25 þræðir í einum sentimetra en í verkum Ragnheiðar teljast 6 þræðir í sentimetra úr fínasta þræði sem fánanlegur er í dag og framleiddur á Íslandi..

  Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

  Þau eru mörg söfnin sem eru eftirminnileg og gaman að heimsækja. Það gerðist þó einhverju sinni að við hjónakornin vorum á ferð um Þingeyjarsýslur og maðurinn minn stakk upp á að kíkja inn í Samgönguminjasafnið á Ystafelli. Ég var frekar treg til en lét þó undan og viti menn – vandamálið var að koma mér aftur út.