Í síðustu viku flykktist safnafólk á Farskóla FÍSOS sem haldinn var á Hallormsstað. Þátttakan var mjög góð, í kringum 120 manns mættu, veðrið var frábært og svæðið skartaði sínu fegursta. Dagskráin samanstóð af spennandi fyrirlestrum og fjölbreyttum málstofum þar sem fjallað var um ólíkar hliðar safnastarfs.
Á dagskrá voru einnig skoðunarferðir um svæðið. Á miðvikudeginum lá leið hópsins á Seyðisfjörð þar sem Tækniminjasafn Austurlands var heimsótt, ljósmyndasýning á Lónsleiru skoðuð og stoppað við í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli. Hópurinn fékk líka kynningu á fornleifauppgreftri í Firði á vettvangi og sú heimsókn varð heldur betur gagnvirk, því safnmaðurinn Tim Junge hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar fann perlu frá landsnámsöld á svæðinu. Þá var Minjasafn Austurlands heimsótt, þar sem Safnaráð bauð upp á drykki, áður en hópurinn færði sig yfir á Valaskjálf á Egilsstöðum þar sem boðið var upp á mat og drykki og stórskemmtilegt Sing-along undir stjórn Grétu Sigurjónsdóttur úr hljómsveitinni Dúkkulísunum. Það var mikil gleði og gaman í rútunni á leiðinni aftur að Hallormsstað.
Á fimmtudeginum var Hallormsstaðarskógur og Hallormsstaðarskóli skoðuð með leiðsögn og á föstudeginum fór hópurinn að Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og Óbyggðasetrinu, áður en öllum mannskapnum var skilað við Sláturhúsið, nýlagfært og enduropnað menningarhús á Egilsstöðum.
Á Farskólanum fór einnig fram aðalfundur FÍSOS og á fimmtudagskvöldið var árshátíð safnafólks þar sem þríeykið Margrét Erla Maack, Lalli töframaður og Ragnheiður Maísól sá um að skemmta gestum. Óvænt uppákoma varð þegar rafmagnið fór hálftíma fyrir árshátíð og var straumurinn úti í rúman klukkutíma. Það bjargaðist þó allt á endanum og verður ábyggilega lengi í minnum haft (að minnsta kosti af skipuleggjendunum).
Nú er Farskólastjórn að taka saman skýrslu um farskólann og okkur langaði að heyra frá þátttakendum um hvernig þeim fannst takast til að þessu sinni. Á slóðinni hér á eftir má senda inn ábendingar, bæði um það sem var vel heppnað og hvað hefði mátt betur fara: https://forms.gle/vkpQv9cATa6cDaMeA
Að lokum langar okkur að þakka ykkur öllum fyrir komuna, gleðina og gamanið, samtölin og samveruna.
P.S. Okkur langar líka að biðja ykkur að passa vel upp á nafnspjaldaplöstin ykkar fyrir næsta Farskóla.