Í hverjum mánuði munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og svara nokkrum laufléttum spurningum um hann. Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti ríður á vaðið.
Hver er gripurinn?
Roðskór. Skór saumaðir úr steinbítsroði.
Til hvers voru þeir notaður?
Skórnir voru notaðir sem fótabúnaður á svæðinu. Íleppar voru prjónaðir í skóna og auðvitað voru notaðir ullarsokkar með, því roðið var ekki þykkt og skýldi ekki vel gegn veðri og vindum.
Hver er saga þeirra?
Eins og gefur að skilja var mikilvægt að nýta allar afurðir sem féllu til hér um slóðir, enda um langan veg að fara eftir vistum og lífsbaráttan oft hörð. Í gömlu verstöðvunum á svæðinu má sjá gamla grjótgarða sem notaðir voru til að herða á steinbít. Roðinu var flett af fiskinum áður en hann var barinn og svo lagt í bleyti áður en það var notað. Þá var hægt að teygja úr því og sníða niður í skó. Vinnukonur á bæjunum sáu yfirleitt um að sauma skóna, en það var hlutverk húsmæðranna að sjá um að til væri roð þegar á þyrfti að halda. Skósaumurinn tók ekki langan tíma fyrir vana manneskju, enda þurfti að sauma mörg pör, jafnvel daglega á sumum heimilum, þar sem þeir entust fremur illa.
Af því að endingin á skónum var svo stutt þá voru vissar vegalengdir á svæðinu mældar í fjölda roðskópara sem slitnuðu á leiðinni. Þannig er t.d. Látraheiðin sex roðskóaleið, Hafnarfjall fjögurra og Breiðavíkurháls og Hænuvíkurháls tveggja roðskóaleið hvor. En þó voru alltaf roðbætur teknar með í för, til að bæta í götin á leiðnni.
Hvernig og hvenær rötuðu þeir á safnið?
Ólafía Egilsdóttir, húsfreyja á Hnjóti saumaði skóna og gaf á safnið. Ólafía var móðir Egils Ólafssonar stofnanda safnsins og voru því hæg heimatökin að koma skónum á sýningu safnsins, sem var einmitt fyrstu árin staðsett á heimili fjölskyldunnar á Hnjóti.
Ólafía saumaði mörg pör af roðskóm í gegnum tíðina og eiga margir afkomendur hennar par eftir hana.
Af hverju völduð þið þennan safngrip?
Skórnir vekja jafnan mikla athygli gesta á safninu og sumir jafnvel trúa því ekki að þetta hafi í alvörunni verið notað. Þeir láta ekki mikið yfir sér en hafa þó verið hið mesta þarfaþing fyrr á tímum og bera merki um ótrúlega útsjónarsemi þeirra sem þurftu að nýta allt sem til féll.