• 15/08/2022

  Nafn: Lýður Pálsson

  Safn: Byggðasafn Árnesinga

  Staða: Safnstjóri

  Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

  Það er margt í gangi um þessar mundir. Við erum með söfnin á Eyrarbakka galopin í sumar og tíðar gestakomur. – Í vor hélt safnið listahátíðina Hafsjó- Oceanus í samstarfi við listakonuna Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur sem býr á Eyrarbakka. Það voru 20 listamenn, innlendir og erlendir, sem komu að hátíðinni. Lokahelgin var 11.-12. júní þar sem allskonar gjörningar voru í gangi og listsýningar opnaðar í öllum mögulegum rýmum safnanna á Eyrarbakka. Mjög skemmtilegt verkefni og ég er ríkari af listrænum vinum eftir hátíðina. Listsýningar Hafsjós verða opnar til septemberloka. – Við erum enn að koma okkur fyrir í nýrri innri aðstöðu safnsins að Búðarstíg 22. Það er endalaus vinna ef ég þekki safnastarf rétt. – Svo er ýmislegt sem rekur á fjörurnar eins og t.d. þegar ákveðið var að setja upp 100asta rampinn við dyr Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka í átakinu Römpum upp Ísland. Það var þriðjudaginn 9. ágúst sem rampurinn var settur upp og vígður að viðstöddum fjölda gesta.

  Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

  Það gerðist með þeim hætti að Hildur Hákonardóttir forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga á Selfossi kom að máli við mig í mars 1992 og bauð mér að leysa sig af í eitt ár. Ég kom til starfa 1. júní 1992 og eitthvað hefur teygst úr þessu eina ári. Ég er sagnfræðimenntaður og var búinn að útvega mér kennsluréttindi og ætlaði að feta slóð kennslunnar. En raunin varð önnur. Við safnið hef ég starfað í þrjátíu ár og er ekkert fararsnið á mér. Starfið er mér mikils virði. Ég hlakka til hvers vinnudags.

  Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

  Það er fjölbreytileikinn. Byggðasafn Árnesinga er lítil stofnun með þrjá faglærða starfsmenn í fullu starfi og það þýðir að gengið er í öll möguleg störf á safninu. Það er gaman að taka við athyglisverðum aðföngum, það er gaman að rabba við gesti um Húsið á Eyrarbakka og stórmerka sögu þess. Það er líka mjög skemmtilegt að eiga samtöl við fólkið í héraðinu en einkum á ég samskipti við fulltrúa Héraðsnefndar Árnesinga sem er eigandi safnsins. Það ríkir mikill velvilji í garð safnsins meðal sveitarstjórnarmanna í Árnesþingi.

  Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

  Jú, það var havarí á safninu þegar Margrét Þórhildur Danadrottning kom í Húsið á Eyrarbakka til kvöldverðar 15. maí 1998. Drottningin reykir eins og allir vita og aftengja þurfti öll kerfi Hússins. En svo var ekki til öskubakki á Eyrarbakka þetta kvöld og því varð drottningin að gjöra svo vel að sáldra öskunni á borðdúkinn! Þetta var mjög eftiminnileg uppákoma í safninu. Eftirminnilegar uppákomur hafa reyndar verið margar, eins og mótun nýrrar grunnsýningar í Húsinu 1994-1997, jarðskjálfti 2008 sem var reyndar ekki skemmtileg uppákoma, vígsla Eggjaskúrsins 2004, tilkoma Hafnarbrúar 3 árið 2002, kaup Kirkjubæjar 2011 og tilkoma nýrrar innri aðstöðu okkar árin 2019 til 2021.

  Hver er þinn uppáhalds safngripur?

  Þessu er auðsvarað. Ég á engan sérstakan uppáhalds safngrip. Allur safnkostur er uppáhalds hjá mér. Mér þykir reyndar Húsið á Eyrarbakka mjög merkilegt og þetta gamla hús sem hýsir grunnsýningu okkar er í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo þykir mér afar vænt um Rjómabúið á Baugsstöðum sem er hluti af safninu.

  Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

  Ég hef skoðað fjöldamörg söfn á ferðum mínum um heiminn og mörg eru þau mér eftirminnileg. Ég fer ekki erlendis án þess að skoða söfn í leiðinni. En eftirminnilegasta safnið er sennilega minnsta safnið sem ég hef skoðað. Það er Þakskífusafnið sem ég sá í Svíþjóð fyrir tíu árum: Taktegel-museum í Hedenstedt. Fyrirtæki þar sem framleiddi þakskífur kom upp þessu pínulitla safni. Safnhúsið varla stærra en fjórir fermetrar og þar mátti taka bækling um þakskífur og sögu þeirra. Til sýnis á þessum örfáu fermetrum voru fjölbreyttar þakskífur af öllu tagi ásamt miklum fróðleik um þakskífur.