• 11/07/2022

    Safnmanneskja mánaðarins

    Nafn:  Björk Hólm Þorsteinsdóttir

    Safn: Byggðasafnið Hvoli

    Staða: Forstöðumaður safna

    Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

    Í dag erum við bara á fullu í hefðbundnu sumarstarfi. Við erum með opið alla daga í sumar frá 10.00-17.00 og frábæra sumarstarfsfólkið mitt stendur vaktina með miklum brag. Við nýtum rólegar stundir til að yfirfara skráningu á safnkosti og bæta merkingar, það er alltaf eitthvað hægt að bæta og laga. Í vor fengum við nokkra skólahópa til okkar frá nærliggjandi sveitarfélögum sem og nokkra bekki úr Dalvíkurbyggð en fyrir þá hópa útbjuggum við nokkrar gerðir af ratleikjum um safnið. Það eru mjög mörg börn sem hafa sótt safnið aftur eftir slíkar heimsóknir og vilja spreyta sig aftur á fleiri leikjum. Við höfum líka verið dugleg að bjóða hópum eins og krökkum af leikjanámskeiði og fleira. Við erum líka með skemmtilegt bingó sem er vinsælt hjá yngri kynslóðinni og gefur gestum tækifæri á að skoða sýninguna með ólíkum hætti í hvert sinn. Við erum einnig að leita af nafni á ísbjörnin okkar og bjóðum gestum að koma með tillögur.

    Í sumar ákváðum við líka að með hverjum seldum miða myndum við gefa sumarkort sem gildir sem fríkort fyrir þann sem kaupir í allt sumar. Við erum að vonast til þess að þetta skili sér í fleiri endurkomum á safnið.

    Á þjóðhátíðardaginn buðum við upp á fánasmiðju en þá gátu gestir og gangandi komið og búið sér til sinn eigin fána, hvernig fána sem er og veifað honum við hátíðarhöldin, sem reyndar voru færð inn þetta árið sökum veðurs. Við stefnum svo á að vera með nokkra viðburði seinna í sumar. t.d. tálgsmiðju og vonandi eitthvað tengt textíl og ull. Þetta fer jú vissulega allt eftir mannskap, veðri og vindum. Gestafjöldi hefur verið nokkuð stöðugur en ég er spennt að sjá hvernig júlí þróast enda er það yfirleitt okkar fjölmennasti mánuður. Í sumar reyndum við að vera sýnileg á samfélagsmiðlum og erum að byrja með enn frekara markaðsstarf. Það tekur alltaf smá tíma að koma sumarstarfsmönnunum inn í málin sen nú er þetta allt að slípast til. Nóg spennandi fram undan í það minnsta.

    Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

    Ég er menntaður þjóðfræðingur og hafði starfað á söfnum meðfram háskólanámi. Ég var samt alls ekki búin að ákveða að leita sérstaklega eftir starfi á þeim vettvangi. Ég flutti norður til Dalvíkur þegar ég var ólétt af mínu fyrsta barni og ætlaði satt að segja aðeins að dvelja þar í fæðingarorlofinu. Ég fékk síðan tækifæri til að taka að mér hlutavinnu við skráningu í Sarpinn fyrir Byggðasafnið Hvoli og mér þótti orkan þar afskaplega góð. Þegar það losnaði starf forstöðumanns á bóka- og héraðsskjalasafni stökk ég á það en sá fyrir mér að vinna náið með byggðasafninu og þáverandi forstöðukonu þar því ég sá helling af möguleikum á því að tengja þessi söfn betur saman. Það var síðan seint árið 2018 að gerð var skipulagsbreyting þess eðlis að Byggðasafnið var fært undir minn hatt og minn titill kominn í að vera Forstöðumaður safna. Þetta gerðist því eiginlega alveg óvart – en mikið sem ég er þakklát fyrir það í dag.

    Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

    Mér finnst allt sem tengist fólki og sögum áhugavert. Safnastarf er fyrir mér að meðhöndla sögur fólksins í gegnum hlutina sem hafa varðveist. Hluturinn einn og sér er kannski ekki svo merkilegur en þegar þú ert búinn að festa við hann sögur og ævi einstaklinga, jafnvel kynslóða þá fær hann aðra merkingu. Hlutirnir lifa líka lengur en fólkið sjálft en í gegnum hlutina lifir það lengur.

    Að velta fyrir mér mikilvægi, menningararfi, ímynd og hvaða saga það er sem við viljum tjá er líka sérstakt áhugamál hjá mér. Við erum stöðugt að varpa fram einhverri ímynd og söfn eru stútfull af ímyndarsköpun. Söfn eru líka svo mikilvægur miðill – þau gefa manni vettvang til að skoða fortíðina með gagnrýnum augum og það má líka tala um það sem var erfitt og jafnvel það sem við í dag teljum rangt. Söfnin eru líka frábær vettvangur til að draga fram það sem við erum stolt af. Söfn eru líka bara svo frábær afþreying, dásamlegur samverustaður fyrir fjölskyldu og vini sem skilur eitthvað eftir sig, svona oftast allavega 😉

    Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

    Úff þegar stórt er spurt… ég veit nú ekki alveg nákvæmlega hvort þetta tengist starfinu, en þetta tengist safninu vissulega. Við vorum í smá vandræðum með unglingahóp sem hafði gert sig heimakominn í litlu skoti fyrir framan innganginn hjá okkur flest laugardagskvöld um dálítið skeið. Auðvitað gaman að ungviðið velji safnið til að stunda sína félagslegu afþreyingu – en þessi fylgdi mikill subbuskapur sem var verra. Iðullega var búið að draga fram útihúsgögn inn í portið svo að starfsmaður komst jafnvel varla inn til að opna á sunnudögum. Þessum kvöldfögnuði fylgdu líka tómar dósir og sígarettustubbar, við erum að tala um allan pakkann. Ég og nafna mín og samstarfskona vorum mikið búnar að velta því fyrir okkur hvernig við gætum upprætt þetta eða allavega fengið þau til að ganga betur um. Þar sem við höfðum ekki fjármagn til að dúndra í rándýrar eftirlitsmyndavélar eða lifandi öryggisvörð ákváðum við að hengja upp skilti sem segir „brostu, þú ert í mynd“ og staðsetja gamla myndavél, sem við áttum inni í geymslu sem óskráðan safngrip – svona beint í gluggan sem blasti við partýgestum þegar þau voru búin að koma sér fyrir í portinu. Myndavélin var að sjálfsögðu ekki tengd við neitt og hefur sennilega ekki virkað í yfir 50 ár… en þetta virkaði. Frá og með þessum degi voru húsgögnin á sínum stað og skotið hreint og fínt allar helgar 😊

    Hver er þinn uppáhalds safngripur?

    Úff það er mjög erfitt að gera upp á milli. Ef ég er fullkomlega hreinskilin þá held ég reyndar að mínir uppáhaldsgripir, aðallega því þeir snertu mig svo djúpt, séu málverkin sem Jóhann Svarfdælingur málaði þegar hann starfaði fyrir sirkus erlendis. Við erum með tvö málverk til sýnis hjá okkur, annað af fíl og hitt af trúð. Myndirnar eru einstaklega vel gerðar en þegar ég horfi á þær þá sé ég bara sársauka. Trúðurinn er leiður en samt að sprella – ég ímynda mér alltaf að Jóhann hafi sjálfur séð sig sem hálfgerðan trúð, án þess að vilja það. Hann sagði það oft sjálfur að hann hafi verið fangi í eigin líkama. Meðan hann starfaði í sirkúsnum mátti hann ekki fara út fyrir hússins dyr í björtu því að fólk mátti ekki sjá hann „ókeypis“. Fíllinn er síðan náttúrulega bara eitthvað stórt – fólk dáist að stærðinni. Sem er nákvæmlega það sem fólk gerði þegar það sá Jóhann. Sá þennan stóra mann en skipti sér ekki af því hvaða aðra kosti hann hafði. Sagan hans Jóhanns finnst mér ótrúleg og mögnuð fyrir svo margar sakir en þessi myndverk minna mann á að oft er meira en augað sér – Jóhann starfaði kannski í fjölleikahúsi af því að hann var hávaxinn – en hann var fjöllistamaður í mun meiri skilningi en bara það.

    Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

    Mér finnst þetta bara rosalega erfið spurning ef ég á að vera hreinskilin. Ég viðurkenni að það eru enn mjög mörg söfn á íslandi sem ég á eftir að heimsækja en tvö söfn poppuðu strax upp í hugann. Það eru Síldarminjasafnið á Siglufirði og Eldheimar í Vestmannaeyjum. Bæði þessi söfn finnst mér virkilega flott unnin og uppsett. Síðan er reyndar Árbæjarsafnið alltaf í sérstöku uppáhaldi – ekki síst eftir að ég eignaðist börn og gat upplifað það upp á nýtt í gegnum þeirra augu. Ef ég yrði spurð að þessari spurningu aftur eftir hálft ár þá verð ég eflaust komin með ný svör því að ég stefni á að heimsækja þau mörg í sumar 😊

    Ef ég nefni söfn erlendis þá held ég að ég verði að segja Uffizi galleríið í Flórens. Við maðurinn minn eyddum heilum rigningardegi af vikudvöl okkar í Flórens á safninu. Ég hefði satt að segja getað verið lengur. Myndverkasafnið sem þar er að finna er náttúrulega stórbrotið, en húsið og saga þess er ekki síður eitthvað sem vekur hjá mér áhuga.