• 06/07/2022

  Opnað hefur verið fyrir skráningar á Farskóla FÍSOS sem fram fer á Hótel Hallormsstað dagana 21.-23. september 2022. Farskólinn er árleg fagráðstefna safnafólks á Íslandi og í ár er yfirskrift hans Söfn á tímamótum. Boðið verður upp á áhugaverða fyrirlestra, spennandi málstofur, skemmtilegar skoðunarferðir, fjörugar skemmtanir og síðast en ekki síst stórkostlega árshátíð.

  Til að skrá sig á Farskólann þarf að fylla út meðfylgjandi skráningarform. Þátttakendur eru jafnframt beðnir um að velja sér málstofur.

  Málstofurnar verða þrisvar á dagskrá og hægt er að velja úr fjórum í hvert sinni. Við biðjum ykkur um að velja alltaf eina málstofu og eina til vara. Nánari upplýsingar um málstofurnar má finna hér.

  Farskólagjöld eru 25.000 kr. fyrir félagsmenn í FÍSOS en 35.000 kr. fyrir aðra. Innifalið eru hádegis- og kvöldmatur á miðvikudegi, hádegis- og hátíðarkvöldverður á fimmtudegi og hádegisverður á föstudegi auk morgun- og síðdegishressinga á meðan ráðstefnu stendur. Morgunverður er innifalin í verði á gistingu.

  Athugið að skráning á Farskólann er bindandi. Ef skráður þátttakandi hættir við eftir 31. ágúst greiðist full skráningargjald. 

  Boðið verður upp á rútuferð frá flugvelli inn í Hallormsstað í tengslum við vélina sem á að lenda á Egilsstöðum á miðvikudagsmorgni kl. 8:30. Síðasti dagskrárliður á föstudegi verður skoðunarferð og í beinu framhaldi af henni verður rútuferð út á flugvöll í veg fyrir vélina sem á að leggja af stað til Reykjavíkur kl. 19:25.

  Við minnum á að farskólagestir sjá sjálfir um að bóka gistingu. Til að gera það er best að senda póst á netfangið heidrun@701hotels.is

  Athugið: Við ítrekum að mælst er til þess að sem allra flestir deili herbergi með öðrum svo hægt sé að tryggja að allir fái svefnpláss á hótelinu.

  Smellið hér til að skrá ykkur á Farskólann.