• 28/03/2020

  BIRTAN Í SAFNASTARFI Á TÍMUM KÓRÓNAVEIRUNNAR

  eftir Sigurjón Baldur Hafsteinsson

  Í siðareglum ICOM er ein grunnhugsun reglnanna orðuð með þessum hætti: „Hvert tækifæri skal nýtt til að upplýsa og mennta almenning um markmið, tilgang og metnað starfsstéttarinnar til að stuðla að auknum skilningi almennings á framlagi safna til samfélagsins.“ Þessi hugsun á vel við núna þegar Covid-19 veiran, eða kórónaveiran, hefur haft lamandi áhrif á heimsbyggðina og þar með safnastarf. Mörgum söfnum úti í heimi hefur verið lokað, á Spáni, Írlandi, Danmörku, Bandaríkjunum, og einnig hér á landi. Lokun safna hefur orðið til þess að þau standa frammi fyrir nýju verkefni, sem er að rækja hlutverk sín á sama tíma og dyrum þeirra hefur verið lokað og samstarfsmönnum meinað að eiga í eðlilegum samskiptum á vinnustað. 

  Fyrirséð er að samkomubann og lokun safna getur og muni hafa áhrif á starfsemi safna. Sem dæmi hafa samskipti á vinnustaðnum minnkað, bæði við samstarfsmenn og aðra utan safnsins. Ástandið tekur einnig sinn toll af líðan starfsmann og blandast við ótta, röskun á fjölskylduhögum og óvissu um framtíðina. Vinna við safnkost safna mun sjálfsagt dragast á langinn og þar með raska áætlunum í þeim efnum. Allur undirbúningur fyrir sumaropnanir mun riðlast s.s. eins og sýningargerð. Erfiðleikar eru og verða mögulega á næstu vikum og mánuðum með alla aðdrætti fyrir söfnin og áætlanir t.d. í tengslum við gerð sýninga. Fræðslustarf hefur tímabundið dottið niður á söfnunum sjálfum og spurning hvort að það muni hafa áhrif til langframa. Sjálfsagt er einnig að gestafjöldi þetta sumarið muni vera töluvert lægri vegna hruns í millilandaflugi og þar með heimsóknum erlendra ferðamanna á söfn.

  Ein spurning sem vaknar í þessu ástandi er hversu tilbúin söfn eru til þess að sinna hlutverkum sínum við þessar aðstæður. Óhjákvæmilega hafa söfn, eins og margir aðrir vinnustaðir, tekið á það ráð að nota stafræna tækni til að sinna bæði vinnu og því hlutverki að þjónusta notendur sína. Óhætt er að segja að aðstaða safna hér á landi sé hins vegar mjög mismunandi þegar kemur að því að einbeita sér að stafrænu þjónustuhlutverki safna. Í mörgum tilfellum eru söfnin fáliðuð og vinna við að gera safnkost þeirra aðgengilegan s.s. með skráningum í Sarp, hefur gengið hægt á undanförnum árum. Önnur söfn standa sterkar að vígi, hafa stóran hluta safnkosts síns fullskráðan í Sarp, með myndum af gripum og öðrum upplýsingum. Aðstaða safna er einnig mismunandi hvað varðar notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Á meðan sum söfn hafa lagt sig eftir á undanförnum árum að miðla starfi sínum á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram og öðrum sambærilegum leiðum, þá hafa önnur setið eftir og eru ekki eins tilbúin til að grípa til þeirra leiða í að miðla sínu starfi og þar með að sinna hlutverki sitt sem almannastofnun. Ástæðurnar fyrir ólíkri stöðu geta verið margar og mismunandi; sum eru fáliðuð og hafa ekki haft tækifæri til að undirbúa efni til að miðla á samfélagsmiðlum, tækniþekking er af skornum skammti meðal starfsmanna og litla sem enga aðstoð er að fá til að kippa því í liðinn, og stefnumótun hefur ekki verið gerð innan safnsins með tilliti til hlutverks þess að stafræn miðlun (umfram skráningar í Sarp) sé einn af hornsteinum starfseminnar.

  Við þessar aðstæður reynir á hlutverk höfuðsafnanna í að styðja við söfn sem starfa á þeirra sviðum, að mínu mati. Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands hafa yfir að ráða reynslu og þekkingu sem mikill akkur væri fyrir önnur söfn að fá tækifæri til að nýta sér. Náttúruminjasafn Íslands er því miður ekki enn komið á þann stað sem hin höfuðsöfnin eru á í þessum efnum og sýnir enn og aftur hversu mikill dragbítur það er að svo sé ekki. En þegar kemur að miðlun safna sem starfa á þeim grunni, hefði verið gagnlegt að geta leitað til höfuðsafnsins. Það er hins vegar ekki eingöngu höfuðsöfnin sem þurfa að bera ábyrgð og sína forystuhlutverk. Söfn sem standa vel að vígi eins og Borgarsögusafn, Listasafn Reykjavíkur og önnur stöndug söfn sem sinna nærsamfélaginu, þurfa að mínu mati, að líta í eigin barm og spyrja sig hvort að þau geti með einhverju móti stutt við starfsemi annarra safna. Vert er að minnast þess að söfn undirgangast siðareglur ICOM en þar segir meðal annars að: „Starfsfólk safna skal viðurkenna og halda á lofti nauðsyn þess að eiga samstarf og samráð milli stofnana sem hafa sameiginleg svið og söfnunarstefnu.“

  Spurning er hvort að þetta ástand geti og mögulega hafi varanleg áhrif á starfsemi safna. Engum blöðum er um það að flétta í mínum huga að þetta muni hafa áhrif – og til góðs – á íslenskt safnastarf. En hér er komið „kærkomið“ tækifæri til að einblína á einn þátt safnastarfs, stafrænan undirbúning safna og möguleika þeirra til að virkja til fjölbreytilegrar miðlunar með stafrænum hætti, hvort sem það er í gegnum vefsíður þeirra eða samfélagsmiðlum. Mögulega getur þetta ástand einnig orðið til þess að ímynd fólks af söfnum muni breytast og fært þeim jákvæðari ímynd en ella. Veltur það hins vegar á þeim viðbrögðum sem söfnin sýna á þessum tíma. Taki söfn stafrænar lausnir sér til handagagns og leiti allra leiða til að miðla starfseminni, er viðbúið að gestir þeirra sýni þeim meiri áhuga og einnig að miðlunin nái til breiðari hóps fólks sem annars vissi ekki af eða hafði litla þekkingu á því sem söfn hafa upp á að bjóða. Ástandið getur þar með verið leið fyrir söfn að stækka markhóp sinn.

  Söfn eru að fara fjölmargar leiðir til að takast á við lokun þeirra. Listasafnið á Akureyri hefur tekið upp stutt myndbönd og deilt t.d. á Facebook. Sem dæmi stóð Hlynur Hallsson safnstjóri í sýningarsal safnsins og sagði á einni mínútu frá listaverki sem nú er til sýnis og var mögulega hvatinn á sínum tíma að því að safnið var stofnað. Menningarhúsin í Kópavogi efndu til samræðu milli starfsmanns Gerðarsafns og Einars Fals Ingólfssonar um ljósmyndasýningu sem nú er í gangi. Efninu var streymt og vakin athygli á því meðal annars á síðum dagblaðsins Stundin. Streymið var liður í reglubundum viðburðum sem menningarhúsin ætla að standa fyrir með sama hætti. Minjasafn Austurlands tók saman leiðir fyrir fólk að njóta menningar með stafrænum hætti á meðan á samgöngubanninu og lokun safnsins stendur. Duus safnahús í Reykjanesbæ sendi út stutta mynd m.a. Facebook með yfirliti frá sýningu um herstöðina á Miðnesheiði sem nú stendur uppi og Listasafn Reykjanesbæjar hefur boðið fólki á sýningu safnsins, með því að skoða rafrænt. Hönnunarsafn Íslands hefur verið með beinar útsendingar á Facebook frá störfum vefara á safninu og kallar útsendinguna „slow weaving“ eða „hæga vefun“! Þessum dæmum hefur svo verið deilt víða s.s. inn á samfélagsmiðlahópa sem þjóna nærsamfélaginu eða sérstökum markhópum.

  En hvað aðrar leiðir eru færar fyrir söfn í þessu ástandi að fara? Hér eru nokkrar tillögur, en segja má að líta beri á þetta ástand sem ákveðið tækifæri fyrir söfn til að vekja athygli á starfsemi sinni og þar með um leið sinna hlutverkum sínum.

  1. Nota tækifærið og vera í góðum samskiptum við aðila sem standa að safninu s.s. eins og stjórnir, hollvini og aðra velunnarra safnsins. Deila með þeim því sem gert er á safninu á þessum tímum og benda þeim einnig á efni sem búið er til af öðrum söfnum.
  2. Vera ófeimin að styðjast við og nota aðgengilegt efni í miðlun sinni s.s. eins og myndbönd, vefsíður með forvitnilegu efni eða lesefni úr gagnabönkum s.s. eins og bækurnar Byggðasöfn á Íslandi og Saga listasafn á Íslandi, en þær eru báðar í opnum aðgangi í heild sinni á Opinn vísindi.
  3. Gefa sér tíma til að endurskoða stefnu safnsins og rýna í það hvort megi skerpa þar á þeim áherslum sem lúta að framleiðslu og notkun stafræns efnis.
  4. Safnið ætti einnig að huga að því og gefa sér tíma til að hugsa um hvort það sé að ná til allra hópa í samfélaginu með stafrænum hætti. Söfnin þurf að spyrja sig að því hvort að það sé að ná til eldra fólks, ungs fólks, fólks af erlendum uppruna, og ekki síst stofnana sem vinna með fólk í viðkvæmri stöðu.
  5. Söfn ættu einnig að íhuga hvort að þetta sé ekki tækifæri til að virkja fólk til að búa efni til um eitthvað sem snertir á áherslum safnsins og sé tilbúið til að deila því.
  6. Safnið ætti að rýna í heimasíðuna og velta því fyrir sér hvort möguleiki sé á því að koma upp virkari síðu en nú er. Gera aðgengilegt, til dæmis, það efni sem búið hefur verið til fyrir samfélagsmiðla, skrifa uppfærða texta um stöðuna á safninu og samfélaginu, skrifa um það sem gert er eða að hverju er verið að vinna. Slíkum upplýsingum ætti síðan að deila á samfélagsmiðlum.
  7. Halda óformlega fundi með starfsfólki og samstarfmönnum rafrænt. Sumir hafa farið þá leið að bjóða upp á „Happy hour“ í gegnum fjarfundabúnað!
  8. Svo má ekki gleyma því að þetta er tækifæri til að tala við kollega annarra safna. Nú, eða nota tækifærið og kynnast nýjum með því að setja sig í samband við þá og leita ráða eða bera undir þá hugmyndir. Grunnhugsunin í siðareglum ICOM undirstrikar þetta hlutverk sem hornstein að faglegum metnaði safnmanna – og ekki síst á tímum eins og þeim sem við eru að glíma við núna.

  Þetta er á engan hátt tæmandi listi. Óskandi væri að þú, lesandi góður, legðir þínar hugmyndir fram og deildir þeim með öðrum sem starfa á sviði safna. Þeim er hægt að koma á framfæri t.d. á samfélagsmiðlum (s.s. eins og Facebook-grúppu FÍSOS) eða á póstlista safnmanna.