• 16/05/2017

    Tangolistasafn
    Þann 18. maí er alþjóðlegi safnadagurinn haldinn hátíðlegur í söfnum víða um heim. Á Listasafni Einars Jónssonar verður dansaður argentínskur tangó í tilefni dagsins. Frá klukkan 20 til 21 sér Helen La Vikinga Halldórsdóttir tangókennari um tangókennslu og í framhaldi verður dansleikur, eða milonga eins og það er kallað meðal tangódansara, til klukkan 23.
    Allir velkomnir og aðgangur ókeypis (en frjáls framlög eru þegin með þökkum).
    Tangó varð til og þróaðist meðal innflytjenda af lægri stéttum í Buenos Aires undir lok 19. aldar. Fljótlega breiddist hann út um heimsbyggðina og sló í gegn í París og Bandaríkjunum undir 1920. Tangóhefðin hefur lifað tímana tvenna og þykir nú ástæða að vernda hana og er argentínskur tangó núna á lista UNESCO yfir ómetanleg menningarverðmæti sem njóta friðunar.
    Það fer vel á því að dansa tangó á Listasafni Einars Jónssonar á alþjóðlega safnadeginum en safnið var byggt á þeim tíma sem tangóinn ruddi sér hressilega til rúms í heiminum. Og að áliti sérfróðra er safnið ein fárra íslenskra 20. aldar bygginga sem einnig ættu að eiga sess á lista UNESCO
    Heimasíða Listasafns Einars Jónssonar