Sunnudaginn 22. maí frá kl. 12 – 16 býður listamaðurinn Egill Sæbjörnsson uppá föndurstund í Hafnarborg þar sem þátttakendur á öllum aldri fá að móta úr brauðdegi. Við bökun og hefun breytist það sem mótað var óhjákvæmilega, allt belgist út, bjagast og óvænt form verða til.
Bakaríið tengist stærri sýningu Egils sem sett verður upp í Hafnarborg í haust en þar veltir listamaðurinn fyrir sér hvernig byggingar, náttúra og umhverfi hefur áhrif á daglegt líf okkar allra.
Bakaríið verður sett upp í Apótekinu í Hafnarborg og eru þátttakendur velkomnir hvenær sem er yfir daginn. Það sem þátttakendur búa til er síðan bakað á staðnum og það sem er ekki borðað um leið er fólk beðið um að láta Agli í té til frekari þróunar í tengslum við sýningu hans næsta haust. Þeir sem koma og taka þátt fá áritað verk frá Agli í þakklætisskyni.
Egill Sæbjörnsson (f. 1973) er einn af framsæknustu listamönnum þjóðarinnar. Hann nam myndlist við Listaháskóla Íslands og við Parísarháskóla 8 St. Denis á árunum 1993–1997 og hefur verið búsettur og starfað við myndlist í Berlín og Reykjavík frá 1999.
Nánari upplýsingar veitir:
Áslaug Íris Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s. 585 5790
Strandgötu 34, 220 Hafnarfjörður. S: 585 5790 www.hafnarborg.is