Stjórn Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) gagnrýnir ákvörðun Kópavogsbæjar að skera niður framlag til reksturs Tónlistarsafns Íslands.
Félagið mótmælir einnig því að ákvörðunin sé tekin einhliða án sýnilegs samráðs. Tónlistararfur þjóðarinnar er í húfi og það á ekki að vera í höndum sveitastjórnar einnar og sér að tefla honum í tvísýnu. Með ákvörðuninni er Kópavogsbær að leggja í hættu vinnu við varðveislu og miðlun íslensks tónlistararfs. Vinnu sem hefur vakið verðskuldaða athygli víða og er tekin til fyrirmyndar innan lands sem utan.
Samkvæmt íslenskum safnalögum eru söfn varanlegar stofnanir. Rekstur safna krefst skuldbindingar sem á ekki að hlaupast undan í hálfkæringi eða með geðþóttaákvörðunum. FÍSOS hvetur bæjarráðsfulltrúa Kópavogsbæjar að endurskoða ákvörðun sína og standa undir þeim skuldbindingum sem bærinn hefur gengist undir.
FÍSOS leggur áherslu á að bærinn leggi allt í sölurnar til að leysa þann ágreining sem komið hefur upp við Mennta- og menningarmálaráðuneyti svo það sé hægt að halda uppi því mikilvæga starfi sem unnið hefur verið á Tónlistarsafni Íslands. Velvilji beggja aðila þarf til að viðunandi lausn finnist í málinu.
Virðingarfyllst,
Bergsveinn Þórsson, Formaður Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS)