• 11/11/2014

  Um birtingu höfundarvarins myndefnis í gagnasöfnum safna
  Í tilefni umræðu um birtingu höfundaréttarvarins myndefnis í safnkosti íslenskra safna á vefnum, vill Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
  Það er álit FÍSOS að birting mynda af höfundarréttarvörðu efni í safnmunaskrám feli ekki í sér gjaldskyldu enda er sérstaða safnmunaskráa viðurkennd í höfundalögum 72/1972. Einnig að rafrænn aðgangur almennings að safnmunaskrá í gegnum netið, feli ekki í sér breytingu á eðli eða tilgangi gagnasafnsins.
  Það er lögbundin skylda safna að veita almenningi aðgang að safnkosti
  Um starfsemi íslenskra safna gilda lög nr. 141/2011 svokölluð safnalög, þau eru sett til þess „að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn“ (1.gr. Tilgangur).
  Safnalög kveða enn fremur á um að söfn séu ekki rekin í hagnaðarskyni, heldur að þau starfi í þágu almennings og séu opin almenningi. Þau sinna margvíslegu hlutverki og þar á meðal eiga þau samkvæmt lögum að stunda markvissa söfnun sem felst í „söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra“ (3. gr. Hlutverk safna). Eitt meginhlutverk safna samkvæmt Safnalögum er að veita almenningi aðgang að menningararfinum, bæði í þágu rannsókna og fræðslu með því að söfn geri „safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum“.
  Hluti af utanumhaldi safnkosts er safnmunaskrá, sem er lykill að stórum safneignum og er grundvöllur að aðgengi að safnkosti safna og þar af leiðandi mikilvægur þáttur í því að söfn sinni lögbundnu hlutverki sínu. Gildir einu hvort heldur er miðlun, rannsókn eða fræðsla.
  Tilkoma netsins hefur sett mark sitt á safnastarf með fjölbreyttum hætti, eitt af því felst í stórbættu aðgengi almennings og fræðimanna að safnkosti og heimildasöfnum. Rafræn birting á safnmunaskrám í gegnum netið er mikilvægt hagsmunamál fyrir söfn á Íslandi, til þess að þau geti sinnt skyldum sínum og uppfyllt hlutverk sitt.
  Dæmi um birtingu safnmunaskrár til almennings er ytri vefur Sarps sem er rafrænt menningarsögulegt gagnasafn fyrir um 50 söfn á landinu. Sameignaraðilar Rekstrarfélags Sarps, sem eru söfnin sjálf, eiga hugbúnaðinn og hvert og eitt aðildarsafn á gögnin sem það skráir í gagnasafnið.
  Sarpur er miðlæg safnmunaskrá safna og er hann nýttur í daglegri starfsemi þeirra út um allt land. Árið 2013 var almenningi veittur aðgangur að stórum hluta þessara gagna í gegnum ytri vef Sarps. Slík birting safnskráa gefur almenningi og fræðafólki einnig tækifæri til að auka við þekkingarbrunn safnanna með eigin framlagi.
  Opnun ytri vefs Sarps er í takt við alþjóðlega þróun hvað varðar aukið aðgengi að safnkosti safna í heiminum, í samræmi við upplýsingastefnu stjórnvalda og aukið aðgengi almennings að upplýsingum og þekkingu. Um er að ræða stórt framfaraskref og fékk Rekstrarfélag Sarps meðal annars íslensku safnaverðlaunin 2014.
  Það er beinlínis skylda safna, siðferðisleg og lagaleg, að nýta sér möguleika tækninnar til þess að auka aðgengi að safnmunaskrám og þar af leiðandi gera safnkost sinn aðgengilegan almenningi. Í 14. grein Safnalaga segir „Söfn skulu leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun“ segir þar einnig að „upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skulu vera aðgengilegar almenningi“.
  Sérstaða safnmunaskráa
  Samkvæmt 3. mgr. 25.gr. Höfundalaga nr. 73/1972  er listasöfnum heimilt að birta myndir í safnmunaskrá af listaverki í sinni eigu. FÍSOS telur að með þessu ákvæði sé verið að viðurkenna sérstöðu safnmunaskráa og hlýtur þar af leiðandi að gilda um annað höfundaréttarvarið efni. Rétt er að ítreka að notkun og tilurð safnmunaskráa er ekki í gróðaskyni, enda starfa söfn ekki í hagnaðarskyni lögum samkvæmt. Gæði mynda eru í algjöru lágmarki og allar myndbirtingar eru með tilheyrandi vatnsmerki.
  Lögbundin skylda safna til að veita almenningi aðgengi að safnkosti sínum er ótvíræð. Í málaflutningi Myndstefs er algjörlega litið fram hjá þessari lögbundnu skyldu. Þar að auki lætur Myndstef 3. mgr. 25. gr. höfundalaga liggja á milli hluta í málaflutningi sínum.
  FÍSOS telur málaflutning Myndstefs ekki af hinu góða þar sem hann elur á tortryggni gagnvart söfnum. Íslensk söfn hafa öll átt í góðu samstarfi við myndhöfunda, framlag þeirra er mjög mikilvægt í öllu safnastarfi.
  Skapast hefur réttaróvissa um lögmæti þess að söfn birti myndefni af safngripum sínum í safnmunaskrám í gegnum netið eins og gert hefur verið síðan 2013. Lögmæti gjaldfrjálsrar birtingar upplýsinga og mynda af efni sem varið er höfundarrétti, er eitt brýnasta úrlausnarefni íslenskra safna og jafnframt er hér um að ræða gríðarlega almannahagsmuni.
  Er um höfundaréttarvarða birtingu að ræða eins og Myndstef heldur fram eða hafa viðurkennd söfn rétt til að veita opinberan aðgang að því efni sem þau varðveita?
  Að frumkvæði nokkurra safna liggur inni hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu erindi, þar sem óskað er eftir frekari lögskýringu á 25.gr. höfundalaga 73/1972. Félag íslenskra safna og safnmanna skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið að skýra þessa réttaróvissu og gera nauðsynlegar lagabreytingar sem hefta ekki lögbundið hlutverk safna til þess að fræða og miðla, né aðgengi almennings að heimildum um sameiginlegan menningararf.