• 04/11/2014

  Málþing safnaráðs í Þjóðminjasafni, fimmtudaginn 6. nóvember kl.9-16 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins 
  Hver er staða rannsókna í íslenskum söfnum ?
  Hlutverk og staða rannsókna í starfi safna verður rætt á málþingi sem safnaráð stendur fyrir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu fimmtudaginn 6. nóvember kl. 9-16. Greint verður frá niðurstöðum könnunar sem safnaráð lét gera á umfangi rannsókna í safnastarfi. Fulltrúi frá Kulturstyrelsen í Kaupmannahöfn greinir frá rannsóknastarfi danskra safna og fulltrúar háskólasamfélagsins og safnaheimsins hér á landi varpa ljósi á þátt rannsókna í safnastarfi, stöðu og framtíðarsýn. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, mannfræðingur og doktorsnemi í safnafræði, vann könnunina fyrir hönd safnaráðs. Könnunin var gerð meðal allra viðurkenndra safna í landinu. Niðurstöðurnar lýsa stöðunni eins og hún er varðandi þennan mikilvæga þátt – en vekja um leið spurningar um hvort hægt og rétt sé að meta rannsóknir safna út frá sömu mælikvörðum og tíðkast í háskólasamfélaginu.
  Rannsóknir eiga að vera mikilvægur hluti af safnastarfi og ein af forsendum þess að safnastarf sé í takt við tímann. Safnaráð vill kanna og meta vægi rannsókna í starfi safna og finna leiðir til að styrkja þátt rannsókna í safnastarfi. Á málþinginu verður athyglinni einkum beint að hlutverki rannsókna í starfi safna og að þætti safna í að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru og vísinda með rannsóknum sínum og miðlun þeirra. Skoðað verður hvað einkennir safnarannsóknir og hverjar væntingar fræðasamfélagsins séu til safna sem rannsóknarstofnana.
  Dagskrá málþingsins er að finna á vef safnaráðs: www.safnarad.is
  Aðgangur er ókeypis.
  Nánari upplýsingar veita: Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs, í síma 530 2216 / 612 5592 Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, doktorsnemi í safnafræði við HÍ og forstöðumaður rannsóknaþjónustu LHÍ, í síma 545 2211 / 699 7066