• 09/09/2013

  Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) skorar á stjórnvöld að tryggja langþráða og nauðsynlega uppbyggingu á starfsemi Náttúruminjasafns Íslands.
  Náttúruminjasafn Íslands er eitt höfuðsafnanna þriggja sem eru í eigu hins opinbera og eiga lögum samkvæmt að vera leiðandi í faglegu safnastarfi hvert á sínu sviði. Í 4. grein Íslenskra safnalaga segir:

  Höfuðsöfn eru í eigu ríkisins og eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Þau eru stofnuð með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra.

  Þar segir einnig í 1. grein laganna:

  Í lögum þessum er kveðið á um skipulag safnastarfs í þeim tilgangi að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.

  Ríkissjóði ber að tryggja rekstrargrundvöll náttúruminjasafnsins og sjá til þess að stofnunin geti sinnt sínu hlutverki eins og er skilgreint í safnalögum. Í ljósi nýlegrar fjölmiðlaumfjöllunar þykir okkur ástæða til þess að hvetja stjórnvöld til þess að tryggja uppbyggingu safnsins. Starfsemi safnsins má ekki leggjast í dvala eða sitja áfram fast í þeirri stöðu sem stofnunin hefur glímt við síðan hún varð til í núverandi mynd árið 2007.
  Nú þegar loksins sér fyrir endann á sorgarsögu lykilstofnunar í íslenskum náttúrufræðum, má ekki bugast heldur þarf ríkissjóður að standa undir lagalegum skyldum sínum og byggja upp höfuðsafn sem íslenskt samfélag getur verið stolt af!
  Stjórn FÍSOS