• 11/07/2012

  Íslensku safnaverðlaunin voru veitt á Bessastöðum 8. júlí síðast liðinn. Að þessu sinni hlaut Menningarmiðstöð Þingeyinga verðlaunin fyrir endurnýjun á grunnsýningu Byggðasafns Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík. Sif Jóhannesdóttir, forstöðukona Menningarmiðstöðvarinnar, veitti verðlaununum viðtökum fyrir hönd Byggðasafns Suður-Þingeyinga, sem heyrir undir menningarmiðstöðina. Í umsögn dómnefndar um safnið segir:

  Grunnsýningin Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum var opnuð í Byggðasafni Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík árið 2010. Opnun sýningarinnar markaði endapunkt umfangsmikilla breytinga á Safnahúsinu. Í stað hefðbundinnar aðgreiningar á menningu og náttúru er valin sú leið að draga upp mynd af sögu byggðarinnar í samspili manns og náttúru. Menningarminjar og náttúrugripir eru þannig settir í nýtt og spennandi samhengi.
  Uppsetning sýningarinnar er þaulhugsuð og aðlaðandi. Sýningarrýmið er haganlega nýtt þannig að sýningargripir og textar vekja forvitni gesta. Að baki sýningunni liggur hugmyndavinna hóps einstaklinga sem koma úr ýmsum áttum og leggja til verkefnisins reynslu á sviði ólíkra fræðigreina, lista og hönnunar. Sú vinna skilaði sér í fjölbreyttri og ferskri nálgun og fleiri sjónarhornum en oft sjást í sýningum af þessum toga.

  Tilnefningar til verðlaunanna voru þrjár. Auk grunnsýningarinnar í Húsavík var Listasafn Einars Jónssonar tilnefnt fyrir nýja heimasíðu. Þjóðminjasafn Íslands var einnig tilnefnt fyrir útgáfu Handbókar um varðveislu safnkosts. Í umsögnum dómnefndar um heimasíðuna og handbókina segir:

  Ný heimasíða Listasafns Einars Jónssonar er áfangi í þeirri viðleitni að gera byggingu og list Einars aðgengilega almenningi á áhugaverðan hátt. Vefsíðan gefur góða mynd af verkum listamannsins um leið og gerð er grein fyrir sögu safnsins sjálfs og hugmyndafræði Einars. Ýmsar heimildir um Einar og list hans eru gerðar aðgengilegar og þannig er lærðum og leikum gefin innsýn í hugarheim listamannsins og ferilinn á bak við verkin í safninu og í garðinum. Í textum og myndbandsupptökum er teflt saman fræðandi lýsingum listfræðings á nokkrum af helstu verkum Einars og hugrenningum almennra safngesta tengdum upplifun af sömu verkum. Þótt mikið efni sé birt á síðunni er jafnframt gert ráð fyrir áframhaldandi þróun. Vefsíðan er afar aðgengileg og auðveld í notkun. Hún er fallega hönnuð og vel unnin og textar eru bæði á íslensku og ensku.

  Handbók um varðveislu safnkosts er gott dæmi um viðleitni Þjóðminjasafns, höfuðsafns þjóðminjavörslu, til þess að miðla þekkingu til safnmanna sem starfa við ólíkar aðstæður á söfnum landsins. Rannsókna- og varðveislusvið safnsins hefur um árabil staðið að því að auka þekkingu safnmanna á aðferðum fyrirbyggjandi forvörslu og mikilvægi réttrar meðhöndlunar safngripa. Á síðustu árum hafa jarðskjálftar og eldgos endurtekið ógnað menningararfi þjóðarinnar og um leið sýnt fram á mikilvægi fyrirbyggjandi forvörslu við að tryggja öryggi safnkostsins. Handbókin byggir á íslenskum aðstæðum og er að hluta frumsaminn en forverðir og ýmsir sérfræðingar hafa þýtt og staðfært annað. Bókin er gefin út rafrænt og er gert ráð fyrir því að hægt verði að bæta við hana. Eitt af markmiðum aðstandenda er að efnið sé aðgengilegt þar sem almenningur, félög, fyrirtæki og stofnanir aðrar en söfn varðveita stóran hluta menningararfsins. Þannig er útáfan ekki aðeins þýðingarmikil fyrir opinber söfn á landinu heldur einnig fyrir einkaaðila sem bera ábyrgð á sameiginlegum menningararfi þjóðarinnar. Handbók um varðveislu safnkosts er unnin að frumkvæði forvarða á Þjóðminjasafni Íslands en einnig komu að verkefninu Þjóðskjalasafn Íslands og Landsbókasafn – Háskólabókasafn.

  Íslandsdeild ICOM (Alþjóðaráðs safna) og Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár safni sem með starfsemi sinni þykir skara fram úr. Dómnefnd útnefnir þrjú söfn og hefur til hliðsjónar innsendar hugmyndir en auglýst er eftir ábendingum frá almenningi, félagasamtökum og fagaðilum. Dómnefndin er skipuð fulltrúum félaganna tveggja og fulltrúa frá því safni sem síðast hlaut verðlaunin. Í ár bárust rúmlega fjörutíu ábendingar. Verðlaunin voru nú veitt í áttunda sinn en voru fyrst veitt árlega. Eftirtalin söfn hafa fengið íslensku Safnaverðlaunin: Síldarminjasafnið á Siglufirði árið 2000, Listasafn Reykjavíkur – fræðsludeild 2001, Byggðasafn Árnesinga 2002, Þjóðminjasafns Íslands – myndasafn 2003, Minjasafn Reykjavíkur 2006, Byggðasafn Vestfjarða 2008, Nýlistasafnið í Reykjavík 2010.
  Við óskum Menningarmiðstöð Þingeyinga til hamingju með verðlaunin og sendum Listasafni Einars Jónssonar og Þjóðminjasafni Íslands hamingjuóskir með tilnefningarnar.
  [nggallery id=2]