• 22/04/2024

    Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur 18. maí næstkomandi. Yfirskrift safnadagsins í ár, Söfn í þágu fræðslu og rannsókna, snýr að mikilvægi menningarstofnana þegar kemur að því að bjóða upp á heildræna fræðslu og tækifæri til þekkingaröflunar. Þá er markmiðið með því að halda upp á daginn að stuðla að vitundarvakningu í þessum efnum, sem og að ýta undir sjálfbæra hugsun og auka jöfnuð á heimsvísu.

    Söfn þjóna samfélaginu sem kraftmiklar fræðslumiðstöðvar, þar sem þau glæða forvitni, sköpunargleði og gagnrýna hugsun. Nú í ár er vakin athygli á þætti safna í að styðja við rannsóknir og skapa vettvang til að kanna og deila hugmyndum. Hvort sem viðfangið er saga eða listir, tækni eða vísindi, þá eru söfn vel í stakk búin til að efla skilning og þekkingu okkar á heiminum í gegnum fræðslu og rannsóknir.

    Safnadagurinn er haldin í samstarfi FÍSOS og Íslandsdeildar ICOM og verkefnisstjóri safnadagsins er Dagrún Ósk.

    Markmiðið er eins og áður að það verði líf og fjör á söfnunum á safnadaginn, söfn eru hvött til að standa fyrir viðburðum og mörg söfn hafa frítt inn í tilefni dagsins. Söfn sem ætla að standa fyrir viðburðum eða hafa frítt inn mega gjarnan hafa samband við Dagrúnu á netfanginu doj5@hi.is.

    Markmiðið er einnig að vekja athygli á söfnum í samfélagsmiðlum og fjölmiðlum. Safnafólk sem langar að skrifa greinar í tilefni dagsins eða taka yfir samfélagsmiðla Alþjóðlega safnadagsins og veita innsýn í starfið eru einnig beðin að hafa samband við Dagrúnu.