• 26/04/2024

  Nafn:  Eva Kristín Dal

  Safn: Byggðasafn Reykjanesbæjar

  Staða: Safnstjóri

  Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

  Um þessar mundir erum við að undirbúa flutning í nýtt og betra varðveislu- og skrifstofuhúsnæði. Það verður mikil breyting til hins betra fyrir okkur. Safnkosturinn telur yfir 23.000 muni svo þetta er umfangsmikið verkefni. Samhliða því erum við að vinna að gerð nýrrar grunnsýningar sem við stefnum á að opna á næsta ári. Þar ætlum við að einblína á sérkenni Suðurnesjanna og hvað hefur mótað samfélagið hér. Það er því skammt stórra högga á milli. Í sumar er ýmislegt í bígerð hjá okkur til að fagna 30 ára afmæli Reykjanesbæjar og 80 ára afmæli lýðeldisins. Af því tilefni verðum við t.d. með reglulegar sögugöngur og sett verða upp söguskilti á völdum stöðum.

  Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

  Ég lærði fornleifafræði og starfaði við fagið í nokkur ár. Ég áttaði mig fljótt á því hversu skemmtilegt mér finnst að miðla menningararfinum sem varð til þess að ég álpaðist yfir í safnageirann. Fyrst með stuttu stoppi í Byggðasafninu á Görðum, svo í Þjóðminjasafnið og loks hingað í Reykjanesbæ.

  Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

  Það hentar mér vel hversu fjölbreytt starfið er. Það er svo hressandi að standa upp frá skrifborðinu og  vinna með safneignina og sýningarnar. Í safnkostinum kennir ýmissa grasa og mér finnst mjög skemmtilegt að grúska í honum. Ég er búin að starfa í Byggðasafni Reykjanesbæjar í tvö ár og er enn að uppgötva dýrgripina sem safnið hefur að geyma.

  Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

  Ég var ekki búin að vinna lengi í safninu þegar samstarfmaður minn bað mig um að koma niður í varðveislurými svo hann gæti sýnt mér pennasafnið sem hafði borist árinu áður og átti eftir að skrá. Ég veit svo sem ekki hverju ég átti von á en alls ekki tveimur fullhlöðnum brettum með möppum og kössum. Ég væri alveg til í að eiga mynd af svipnum sem kom á mig þegar ég sá ósköpin. Pennarnir telja mörg þúsund og þeim hefur verið raðað í sérsaumaða plastvasa í möppum eftir ákveðnu kerfi sem við skiljum ekki til hlýtar. Að auki voru „skiptipennar“ í stórum kössum, pennar sem safnarinn átti fleiri en eitt eintak af. Mér féllust aðeins hendur en svo þegar ég byrjaði að skoða safnið þá kviknaði fljótt hugmynd að flokka lausu pennana eftir gerð fyrirtækja sem þeir voru merktir og nota þetta mikla magn til að raða upp mynstrum. Þannig kviknaði hugmyndin að sýningunni Eins manns rusl er annars gull sem vatt heldur betur upp á sig og er núna stærðarinna sýning með mörgum gripaflokkum sem eiga það sameiginlegt að vera fjöldaframleiddir og álitnir einnota.

  Hver er þinn uppáhalds safngripur?

  Ég get ómögulega valið einn safngrip. En ég hef alltaf mjög gaman af gripum sem vekja upp minningar og nostalgíu. Það er nóg af þeim hjá okkur en einn at styrkleikum safnsins er einmitt safnkostur frá 20. öldinni. Carmenrúllur, kortastrauvélar, walk-man og gamlir gsm símar kalla fram ýmsar tilfinningar.

  Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

  Uppáhalds safnið mitt er líklega Louisiana, þar hef ég séð margar magnaðar sýningar. Í fyrra sá ég sýningu Ragnars Kjartanssonar þar, Epic Waste of Love and Understanding, sem var í alla staði mjög skemmtileg og áhrifamikil. Önnur eftirminnileg sýning þaðan var á verkum listakonunnar Mika Rottenberg. Synir mínir voru með í þeirri ferð og það var svo gaman að sjá hvernig verkin hennar heilluðu þá og vöktu upp alls konar pælingar. Mér finnst líka umgjörðin á Louisiana til fyrirmyndar þar sem húsið, garðurinn, umhverfið og veitingastaðurinn spila vel saman og skapa heildstæða upplifun.