Fréttir

Safnfræðsla í kenningarlegu samhengi. Fræðslustarf Hönnunarsafns Íslands greint út frá hugsmíðahyggju

Hádegisfyrirlestur FÍSOS verður þann 22. apríl 2015 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, að venju frá 12:00-13:00.

Þóra Sigurbjörnsdóttir safnafræðingur og sérfræðingur á Hönnunarsafni Íslands, er fyrirlesari að þessu sinni og mun fjalla um meistararitgerð sína: Safnfræðsla í kenningarlegu samhengi. Fræðslustarf Hönnunarsafns Íslands greint út frá hugsmíðahyggjunni.

Kenningar tengdar hugsmíðahyggjunni eru nýttar til að skoða fræðslustarf Hönnunarsafnsins og til að velta vöngum yfir safnfræðslu almennt. Staða safnfræðslu innan Hönnunarsafnsins er skoðuð út frá sögu hennar og möguleikum.

Græða söfn og starfsmenn þeirra á því að kynna sér kenningar varðandi fræðslu? Til hvers að setja sér markmið tengd fræðslustarfi? Geta eigendur safna haft áhrif á safnfræðslu? Eiga söfn að hjálpa gestum að spyrja?

Farið verður yfir meginefni ritgerðarinnar og spurningum velt upp er varða safnfræðslu í anda hugsmíðahyggju.

Fyrirlesturinn er tekinn upp í hljóði og mynd.

Allir velkomnir

Málþing um safnfræðslu

Þann 27. apríl næstkomandi mun Þjóðminjasafnið og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa fyrir málþingi um safnfræðslu. Málþingið verður haldið í Safnahúsinu á milli 13:00 og 17:00, að loknum vorfundi Þjóðminjasafnsins.

Á málþinginu verður m.a. fjallað um:

  • Stofnun sérstakrar safnfræðsludeildar innan FÍSOS
  • Samstarf við erlendar stofnanir og félagasamtök
  • Saga og staða safnfræðslu á Íslandi
  • Nýjar íslenskar rannsóknir í safnfræðslu
  • Námsbraut í safnfræðslu við HÍ

Í lok dags verður svo “markaðstorg hugmynda” þar sem kynntar verða nýjar og spennandi hugmyndir í safnfræðslu
og/eða verkefni eða aðferðir sem hafa virkað vel til þessa.

Við viljum kalla eftir tillögum fyrir markaðstorgið. Allir sem hafa áhuga eru hvattir til að hafa samband! Hér er um að ræða gott tækifæri fyrir fræðslufólk safna til að kynna eigin hugmyndir og verkefni. Hver og einn fær 7 mínútur til umráða (hámark 6-8 glærur) og gefinn er tími fyrir 1-2 spurningar á eftir hverju erindi. Vinsamlega sendið tillögur til okkar fyrir 13. apríl!

Bergsveinn Þórsson (bergsveinn.thorsson@reykjavik.is)
Bryndís Sverrisdóttir (bryndis@thjodminjasafn.is)

Dagsnámskeið í menningarstjórnun og upplýsingatækni, vefumsjón og notkun samfélagsmiðla.

20150130_134719Hefur þú áhuga á að sækja dagsnámskeið í menningarstjórnun og upplýsingatækni, vefumsjón og notkun samfélagsmiðla  ?

Um er að ræða námskeið á vegum háskólans á Bifröst. Námskeiðið er haldið hér í Reykjavík á Hverfisgötu 4-6, 101 Reykjavík

Námskeiðið verður haldið föstudaginn 15. maí 2015.

Lágmarks þátttaka er 20 manns. Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um tilhögun námskeiðs og kennara. Verð 19.900 kr.

Félag íslenskra safna og safnmanna – dagsnámskeið

Vinsamlegast sendið línu um skráningu fyrir 6. apríl á elisabet@safnmenn.is

 

Ályktun FÍSOS og FÍS um stöðu Náttúruminjasafns Íslands

Stjórn Félags íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS) og Félags íslenskra safnafræðinga (FÍS) skora á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðuneyti að móta metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir uppbyggingu á starfsemi Náttúruminjasafns Íslands, og tryggja rekstargrundvöll safnsins svo sómi verði að fyrir þjóðina. Staða Náttúruminjasafns Íslands er algerlega óásættanleg, sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum.

Náttúruminjasafn Íslands er eitt höfuðsafnanna þriggja sem eru í eigu hins opinbera og eiga lögum samkvæmt að vera leiðandi í faglegu safnastarfi. Höfuðsöfnin þrjú, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands gegna því mikilvæga hlutverki að vera grunnstoð í miðlun og varðveislu á náttúruarfi þjóðarinnar og menningu.

Um starfsemi íslenskra safna gilda lög nr. 141/2011 svokölluð safnalög, þau eru sett til þess „að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn“ (1.gr. Tilgangur).

Í 5. gr. safnalaga segir enn fremur: Söfn eru opin almenningi og safna, varðveita, rannsaka og miðla því sem er til vitnis um manninn, sögu hans og menningu, náttúru og umhverfi í nafni samfélagsins og til framgangs þess. Þau skulu hafa að leiðarljósi að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.

Það er skýlaus krafa að hið opinbera axli þá ábyrgð sem því ber, og leggi sitt að mörkum til uppbyggingar Náttúruminjasafns Íslands. Það er forgangsmál að tryggja safninu húsnæði og sýningaraðstöðu til frambúðar.  Öflugt náttúruminjasafn styrkir menntakerfið, menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.  Aukinn skilningur okkar á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta og mest aðkallandi verkefni samtímans.

Fyrir hönd FÍSOS og FÍS

Bergsveinn Þórsson form. FÍSOS

Helga Lára Þorsteinsdóttir form. FÍS

 

Íslenski safnadagurinn 2015

Þann 17. maí 2015 verður íslenski safnadagurinn haldinn hátíðlegur í samstarfi við Íslandsdeild ICOM. FÍSOS heldur utan um kynningu, safnar saman dagskrá safna, gerir hana aðgengilega og dreifir dagskránni til fjölmiðla.

Markmiðið með deginum er að kynna og efla safnastarf á Íslandi. Fjölbreytt dagskrá er í boði og landsmenn hvattir til að heimsækja söfn og njóta skemmtunar og fræðslu fyrir alla fjölskylduna. Íslenski safnadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur ár hvert, annan sunnudag í júlí, en vegna breyttra aðstæðna hefur verið ákveðið að færa hann til og halda hann í samhengi við Alþjóðlega safnadaginn.

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af International Council of Museums (ICOM) ýmist er haldið upp á daginn yfir helgi, einn dag eða eina viku. Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum. ICOM leggur til þema ár hvert og 2015 er unnið eftir yfirskriftinni “Söfn í þágu sjálfbærni” (e. museums for sustainable society).

Að halda íslenska safnadaginn í samhengi við alþjóðlega safnadaginn, er viðbragð við breyttu starfsumhverfi safna og gefur aukin tækifæri til þess að vinna markvisst að því að efla faglegt safnastarf með ákveðið alþjóðlegt þema að leiðarljósi hverju sinni.

Öll söfn eru hvött til þess að fara að huga að þessum degi og senda síðan inn dagskrá sína á safnadagurinn@safnmenn.is ásamt upplýsingum um opnunartíma og aðgangseyri á þessum degi.

Banner_ice

Samnorrænt samstarf um safnfræðsluverkefni

FÍSOS tekur þátt í samnorrænu verkefni með samtökum sem heita NAME (Nordic Association for Museum Education), þau samanstanda af fulltrúum Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands.

Ætlunin er að gefa út rit sem fjallar um það besta í safnfræðslu á Norðurlöndunum. Ritið er hugsað sem praktísk handbók fyrir safnafólk þar sem vel heppnuðum verkefnum er lýst, sagt frá framkvæmd, aðferðum, útkomu og hvað mætti gera betur/öðruvísi.

Í verkefninu er verið að horfa til safnræðslu í víðu samhengi, þannig að verkefnin afmarkast EKKI við samstarf eða þjónustu við skóla. Þau verkefni sem fela í sér tilraun til að mynda sérstök tengsl við safngesti væru t.d. tilvalin í þetta rit.

Heiti verkefnisins á ensku er “The best of Nordic museum communication – fresh network approaches from Nordic association for museum education“. Þar af leiðandi er verið að leita eftir nýlegum verkefnum, sem taka á fræðslu eða miðlun innan safna á ferskan og skapandi hátt.

Kallað hefur verið eftir tillögum að verkefnum fyrir ritið! Allar tillögur eru vel þegnar, sendið póst á Bergsveinnth (at) gmail.com. Ekki sakar ef tillögunum fylgir smá lýsing. Lýsingin má vera stutt og hnitmiðuð eða ítarleg og löng!

Fyrsti hádegisfyrirlestur ársins 2015

Bergsveinn Þórsson, formaður FÍSOS, mun halda erindi um 22. ráðstefnu NEMO, Network of European Museum Organisations sem fram fór 6.-8. nóvember í Bologna á Ítalíu, undir heitinu “LIVING TOGETHER IN A SUSTAINABLE EUROPE – MUSEUMS WORKING FOR SOCIAL COHESION”.

Fyrirlesturinn fer fram 21. janúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnið og hefst á slaginu 12:00!

Fyrirlesturinn nefnist Íslensk útrás: Evrópskt samstarf og vísar það í auknar áherslur FÍSOS á alþjóðlegt samstarf. Félagið sendi tvo fulltrúa á ráðstefnu NEMO í fyrsta skiptið. Bergsveinn mun kynna samtökin, efni ráðstefnunnar og þau alþjóðlegu samstarfsverkefni sem félagið er komið í sem haldið er utan um af NEMO.

NEMO eru mjög virk samtök, bæði fyrir sérfræðinga safna og samtök safna. Samtökin halda úti heimasíðu sem var nýlega endurhönnuð með það í huga að auka aðgengi að ýmis konar gagnlegu efni.  http://www.ne-mo.org/

Meðal annars má nefna Webinars þar sem hægt er taka þátt í námskeiðum í gegnum netið, horfa á fyrirlestra í beinni og taka þátt í umræðum. Í Leshorni NEMO er einnig urmull af fræðsluefni, til að lesa á köldum, næðingssömum vetrarkvöldum.

Ekki missa af fyrsta hádegisfyrirlestri ársins, við hvetjum alla áhugasama um að mæta! Að venju er fyrirlesturinn tekinn upp í hljóði og mynd fyrir safnafólkið okkar á landsbyggðinni.

Aðgengi að menningararfi

Um birtingu höfundarvarins myndefnis í gagnasöfnum safna

Í tilefni umræðu um birtingu höfundaréttarvarins myndefnis í safnkosti íslenskra safna á vefnum, vill Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það er álit FÍSOS að birting mynda af höfundarréttarvörðu efni í safnmunaskrám feli ekki í sér gjaldskyldu enda er sérstaða safnmunaskráa viðurkennd í höfundalögum 72/1972. Einnig að rafrænn aðgangur almennings að safnmunaskrá í gegnum netið, feli ekki í sér breytingu á eðli eða tilgangi gagnasafnsins.

Það er lögbundin skylda safna að veita almenningi aðgang að safnkosti

Um starfsemi íslenskra safna gilda lög nr. 141/2011 svokölluð safnalög, þau eru sett til þess „að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn“ (1.gr. Tilgangur).

Safnalög kveða enn fremur á um að söfn séu ekki rekin í hagnaðarskyni, heldur að þau starfi í þágu almennings og séu opin almenningi. Þau sinna margvíslegu hlutverki og þar á meðal eiga þau samkvæmt lögum að stunda markvissa söfnun sem felst í „söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra“ (3. gr. Hlutverk safna). Eitt meginhlutverk safna samkvæmt Safnalögum er að veita almenningi aðgang að menningararfinum, bæði í þágu rannsókna og fræðslu með því að söfn geri „safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum“.

Hluti af utanumhaldi safnkosts er safnmunaskrá, sem er lykill að stórum safneignum og er grundvöllur að aðgengi að safnkosti safna og þar af leiðandi mikilvægur þáttur í því að söfn sinni lögbundnu hlutverki sínu. Gildir einu hvort heldur er miðlun, rannsókn eða fræðsla.

Tilkoma netsins hefur sett mark sitt á safnastarf með fjölbreyttum hætti, eitt af því felst í stórbættu aðgengi almennings og fræðimanna að safnkosti og heimildasöfnum. Rafræn birting á safnmunaskrám í gegnum netið er mikilvægt hagsmunamál fyrir söfn á Íslandi, til þess að þau geti sinnt skyldum sínum og uppfyllt hlutverk sitt.

Dæmi um birtingu safnmunaskrár til almennings er ytri vefur Sarps sem er rafrænt menningarsögulegt gagnasafn fyrir um 50 söfn á landinu. Sameignaraðilar Rekstrarfélags Sarps, sem eru söfnin sjálf, eiga hugbúnaðinn og hvert og eitt aðildarsafn á gögnin sem það skráir í gagnasafnið.

Sarpur er miðlæg safnmunaskrá safna og er hann nýttur í daglegri starfsemi þeirra út um allt land. Árið 2013 var almenningi veittur aðgangur að stórum hluta þessara gagna í gegnum ytri vef Sarps. Slík birting safnskráa gefur almenningi og fræðafólki einnig tækifæri til að auka við þekkingarbrunn safnanna með eigin framlagi.

Opnun ytri vefs Sarps er í takt við alþjóðlega þróun hvað varðar aukið aðgengi að safnkosti safna í heiminum, í samræmi við upplýsingastefnu stjórnvalda og aukið aðgengi almennings að upplýsingum og þekkingu. Um er að ræða stórt framfaraskref og fékk Rekstrarfélag Sarps meðal annars íslensku safnaverðlaunin 2014.

Það er beinlínis skylda safna, siðferðisleg og lagaleg, að nýta sér möguleika tækninnar til þess að auka aðgengi að safnmunaskrám og þar af leiðandi gera safnkost sinn aðgengilegan almenningi. Í 14. grein Safnalaga segir „Söfn skulu leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun“ segir þar einnig að „upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skulu vera aðgengilegar almenningi“.

Sérstaða safnmunaskráa

Samkvæmt 3. mgr. 25.gr. Höfundalaga nr. 73/1972  er listasöfnum heimilt að birta myndir í safnmunaskrá af listaverki í sinni eigu. FÍSOS telur að með þessu ákvæði sé verið að viðurkenna sérstöðu safnmunaskráa og hlýtur þar af leiðandi að gilda um annað höfundaréttarvarið efni. Rétt er að ítreka að notkun og tilurð safnmunaskráa er ekki í gróðaskyni, enda starfa söfn ekki í hagnaðarskyni lögum samkvæmt. Gæði mynda eru í algjöru lágmarki og allar myndbirtingar eru með tilheyrandi vatnsmerki.

Lögbundin skylda safna til að veita almenningi aðgengi að safnkosti sínum er ótvíræð. Í málaflutningi Myndstefs er algjörlega litið fram hjá þessari lögbundnu skyldu. Þar að auki lætur Myndstef 3. mgr. 25. gr. höfundalaga liggja á milli hluta í málaflutningi sínum.

FÍSOS telur málaflutning Myndstefs ekki af hinu góða þar sem hann elur á tortryggni gagnvart söfnum. Íslensk söfn hafa öll átt í góðu samstarfi við myndhöfunda, framlag þeirra er mjög mikilvægt í öllu safnastarfi.

Skapast hefur réttaróvissa um lögmæti þess að söfn birti myndefni af safngripum sínum í safnmunaskrám í gegnum netið eins og gert hefur verið síðan 2013. Lögmæti gjaldfrjálsrar birtingar upplýsinga og mynda af efni sem varið er höfundarrétti, er eitt brýnasta úrlausnarefni íslenskra safna og jafnframt er hér um að ræða gríðarlega almannahagsmuni.

Er um höfundaréttarvarða birtingu að ræða eins og Myndstef heldur fram eða hafa viðurkennd söfn rétt til að veita opinberan aðgang að því efni sem þau varðveita?

Að frumkvæði nokkurra safna liggur inni hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu erindi, þar sem óskað er eftir frekari lögskýringu á 25.gr. höfundalaga 73/1972. Félag íslenskra safna og safnmanna skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið að skýra þessa réttaróvissu og gera nauðsynlegar lagabreytingar sem hefta ekki lögbundið hlutverk safna til þess að fræða og miðla, né aðgengi almennings að heimildum um sameiginlegan menningararf.

‘Ljáðu mér vængi’ – Hlutverk Gagarín í sýningahönnun

Miðvikudaginn 19. nóvember verður hádegisfyrirlestur FÍSOS í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl.12-13.

Fyrirlesturinn að þessu sinni kallast ‘Ljáðu mér vængi’ – Hlutverk Gagarín í sýningahönnun.

Ásta Olga Magnúsdóttir verkefnastjóri hjá Gagarín mun fjalla um hvernig unnið er með gagnvirkni, áþreifanleika til að gera upplifun gesta ríkari á sýningum og söfnum. Með því að fá vera þátttakandi á fjölbreytilegan hátt í sýningum sem þó hafa skýran söguþráð og sýn er hægt að takast á loft í ferðum okkar um heima vísindanna, sagnfræðinnar, menningarinnar, listarinnar.
Gagarín hefur síðustu ár unnið að fjölmörgum sýningum og margmiðlunarlausnum fyrir söfn bæði hér á landi og erlendis og í fyrirlestrinum verða tekin fyrir ný sýningaratriði sem Gagarín gerði fyrir Mannréttindasafnið í Winnipeg sem og fyrir Eldheimasýninguna í Vestmannaeyjum.

Að venju verður fyrirlesturinn tekinn upp og gerður aðgengilegur á heimasíðu FÍSOS, en félagið hvetur félagsmenn sína og aðra áhugasaama til þess að mæta á miðvikudaginn!

 

Farvegur myndlistar til framtíðar

AlmaDís Kristinsdóttir var með hádegisfyrirlestur þann 9. október um fræðsluverkefnið Farvegur myndlistar til framtíðar:  fróðleikur og 25 verkefni fyrir grunnskólanemendur og kennara.

Söfn og skólar eiga það sameiginlegt að miðla þekkingu. Eitt af megin hlutverkum safna er gera safnkost sinn aðgengilegan. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hefur um nokkurt skeið haft safneign sína aðgengilega á netinu og var sú aðgerð frumkvöðlastarf í íslensku safnastarfi. Kennarar geta nýtt sér báða gagnagrunna við kennslu www.sarpur.is og www.lso.is en hér er stuðst við hinn síðarnefnda. Continue reading

Aðalfundur FÍSOS og fræðslu fundur Safnaráðs þann 3.október 2014

Fyrir aðalfund FÍSOS var Safnaráð með fræðslufund um umsóknir í safnasjóð, skilgreiningu verkefna og aðra styrki. Markmið fundarins er að efla þekkingu þeirra sem sækja um styrki í sjóðinn á fyrirkomulagi sjóðsins, hvernig skilgreina skuli verkefni og kynna styrki Þróunarsjóðs EFTA á sviði menningarmála sem margar fyrirspurnir bárust um s.l. vor. Til máls tóku:
Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs -Umsóknir í safnasjóð 2015. Eiríkur Stephensen, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís: Um skilgreind verkefni. Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi í mennta- og menningarmálaráðuneyti: Þróunarsjóður EFTA og menningarsamstar. Haraldur Þór Egilsson, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri: Að horfa út fyrir sjóndeildarhringinn. Samstarf safna á norður- og austurlandi við Norður Noreg.

Aðalfundur FÍSOS

Stjórn situr óbreytt og kynnti Bergsveinn Þórsson formaður störf félagsins ásamt verkefnastýru, Elísabetu Pétursdóttur. Jón Allansson gjaldkeri kynnti ársreikning félagsins og skýrði einstaka liði. Fyrir hönd farskólastjórnar 2014 tóku Linda Ásdísardóttir og Helga Maureen Gylfadóttir saman hvernig til tókst í Farskóla safnmanna í Berlín 14.-18. september. Farskóli 2015 með þemað forvörslu, verður á Höfn í Hornafirði og Farskólastjóri verður Vala Garðarsdóttir.  Þóra Sigurbjörnsdóttir var með öfluga kynningu fyrir hönd aðgerðarhóps um þörf á að auka virði og gildi safnastarfs og hvaða fyrstu skref hópurinn ætlar að stíga til þess að auka verðmæti þessa starfa.

Aðalfundur FÍSOS og fræðslufundur Safnaráðs 3. október

Minnum á aðalfund FíSOS og fræðslufund Safnaráðs, föstudaginn 3. október.

Spennandi og áhugaverð dagskrá í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins frá 13:30-17:00
ALLIR HVATTIR TIL AÐ MÆTA

Dagskrá
kl.13:30-15:00
FRÆÐSLUFUNDUR SAFNARÁÐS
VERKEFNI, UMSÓKNIR OG AÐRIR STYRKIR

Safnaráð boðar til fræðslufundar þann 3. október kl. 13:30 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns um umsóknir í safnasjóð, skilgreiningu verkefna og aðra styrki. Markmið fundarins er að efla þekkingu þeirra sem sækja um styrki í sjóðinn á fyrirkomulagi sjóðsins, hvernig skilgreina skuli verkefni og kynna styrki Þróunarsjóðs EFTA á sviði menningarmála sem margar fyrirspurnir bárust um s.l. vor.

Dagskrá:
13:30 – Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs -Umsóknir í safnasjóð 2015

13:50 – Eiríkur Stephensen, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís: Um skilgreind verkefni

14:20 – Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi í mennta- og menningarmálaráðuneyti: Þróunarsjóður EFTA og menningarsamstarf

14:50 – Haraldur Þór Egilsson, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri: Að horfa út fyrir sjóndeildarhringinn. Samstarf safna á norður- og austurlandi við Norður Noreg.

Að fundi loknum verður boðið upp á kaffi frá kl.15:00-15:15 og þá tekur við

AÐALFUNDUR FÍSOS. 

Dagskrá aðalfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla formanns um störf félagsins. Skýrðir reikningar félagsins. Umræður um þessa liði og afgreiðslu þeirra.

a) Lagabreytingar. Það hefur lengi verið ætlunin að skerpa betur á mismunandi aðild safna og síðan safnmanna. Utanfélagsgjald t.d gjald fyrir þá sem taka þátt í farskóla en eru utanfélags.

3. Kosning í stjórn. Kosning fimm stjórnarmanna og tveggja varamanna.

4. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára. Eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.

5. Ákveðið árgjald félagsmanna og stofnanna.

6. Farskóli.

a) Kosning farskólastjóra 2015

b) Uppgjör og umræður á farskóla í Berlín 2014.

7. Önnur mál.

a) Aðgerðir kynntar til að auka virði og verðmæti starfa á sviði safna.

Sarpur hlýtur Safnaverðlaunin

 

Íslensku safnaverðlaunin 2014 033

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Íslensku safnaverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, sunnudaginn 6. júlí. Var það Rekstrarfélag Sarps sem hlaut viðurkenninguna fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps og 1.000.000 kr. að auki.

Þrjú söfn hlutu tilnefningu árið 2014 – Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar sem tilnefnd er fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni, Þjóðminjasafn Íslands fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins og Rekstrarfélag Sarps fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.

Í umsögn valnefndar segir:

Rekstrarfélag Sarps er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Á árinu 2013 urðu þau tímamót í Íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður svo kallaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum. Ytri vefurinn er gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá, sem söfnin varðveita, er einstaklega fjölbreyttur; þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú ásamt upplýsingum um hús og margt fleira.

Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila. Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum.

Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn í gegnum sérstakt athugasemdakerfi. Gagnasafnið er því lifandi og kvikt, tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar meðal annars með myndvæðingu þess.
Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.

Tilnefningar til íslensku safnaverðlaunanna 2014

Íslensku safnaverðlauninÍslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Í ár var söfnum í fyrsta skipti heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Continue reading

Staða og framtíð safna

Þann 15. maí 2014 boðaði FÍSOS til málþingsins “Staða og framtíð safna” í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði við Háskóla Íslands, um boðleiðir styrkveitinga, tilfærslu og skiptingu safna á milli ráðuneyta og þekkingaruppbyggingu. Hér má sjá upptöku af málþinginu í fimm þáttum, ásamt glærum frummælenda. Continue reading

Söfn í þágu almennings eða stjórnmálamanna ? Staða og framtíð safna

Úthlutun forsætisráðherra á fyrri hluta ársins til ýmissa verkefna tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa vakti athygli. Vinnubrögðin voru gagnrýnd töluvert því svo virtist sem að ekki hafi verið gætt jafnræðis við úthlutun né aðilum sem starfa á þessu sviði veitt tækifæri til að sækja um hlutdeild í þessari fjárúthlutun.

Undanfarin ár hafa ýmsum sjóðum verið komið á fót til þess að sinna fjárveitingum ríkissjóðs á sviði menningar. Með sjóðum eins og Safnasjóði er reynt að tryggja að opinberu fé sé úthlutað með eins sanngjörnum og faglegum hætti eins og mögulegt er. Til samanburðar má nefna að úthlutun forsætisráðherra nam um 205 milljónum króna á meðan Safnasjóður hafði úr 120 milljónum króna að moða.

Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) gagnrýndi úthlutun forsætisráðherra á sínum tíma þar sem fjármunir á þessu sviði eru takmarkaðir. Ekki þarf að draga í efa að ráðherra gangi gott eitt til, en vinnubrögðin eru ekki til eftirbreytni.

Annað mál sem FÍSOS gagnrýndi og snýr að sama ráðuneyti er tilfærsla ríkisstjórnarinnar á málaflokkum tengdum söfnum. Nú er svo komið að Þjóðminjasafn og Minjastofnun Íslands heyra undir forsætisráðuneytið. Hið fyrrnefnda, eitt af þremur höfuðsöfnum landsins, er eina safnið í forsætisráðuneytinu! Á meðan málefni allra annarra safna heyra undir Mennta- og Menningarmálaráðuneytið. Bæði þessi mál vekja upp spurningar um framtíð safna, starfsumhverfi þeirra og fagleg vinnubrögð.

Söfn eru stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru flest rekin af almannafé. Þau varpa ljósi á listasögu, náttúru- og menningararf landsins. Þau varðveita, skrá og rannsaka þennan merkilega arf og með starfi sínu tryggja söfnin aðgengi að honum um ókomna framtíð.

Til þess að sátt ríki um störf safna er því mjög mikilvægt að fjárveitingar til þeirra séu ákvörðuð með sem bestum hætti. Annað hefur ekki eingöngu áhrif á jafnræði í úthlutun opinbers fés heldur hefur slæm fjársýsla einnig vond áhrif á orðspor safna meðal almennings.

Orðsporið viðhelst meðal annars með því að halda uppi faglegu starfi innan safna. Sem æðsta vald í safnamálum þarf hið opinbera að standa sig í stykkinu, það þarf að tryggja að fjárveiting sé sanngjörn og uppfyllir faglegar kröfur, eins þarf það að hafa á snærum sínum sérfræðinga sem þekkja fagið og geta framfylgt kröfum um jafnræði. Málefni safna þurfa því að eiga sér góðan samastað. Hvar sá staður er, skiptir ekki meginmáli. Það verður samt sem áður að liggja fyrir góður rökstuðningur fyrir því að höfuðsöfn séu færð til á milli ráðuneyta.

Auðvitað gleðjumst við yfir því að ráðamenn þjóðarinnar lýsi yfir áhuga á söfnum, minjavörslu og tengdri starfsemi. Það er ekki þar með sagt að slíkt eigi að ráða för í stefnumótun og umsýslu hins opinbera í þeim málaflokki.

FÍSOS er fagfélag safnafólks í landinu og boðar nú til málþings um stöðu og framtíð safna á fimmtudaginn (15. maí) í Odda stofu 101 kl.13-17 í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði við Háskóla Íslands. Helstu umræðuefni þingsins eru þekkingaruppbygging, boðleiðir styrkveitinga og tilfærsla og skipting safna á milli ráðuneyta. Nánari dagskrá og fyrirlesara má sjá á heimasíðu félagsins undir safnmenn.is . Allir velkomnir

Höfundur greinar: Bergsveinn Þórsson listfræðingur og safnafræðingur . Safnkennari Landnámssýningar og formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, FÍSOS. bergsveinn.thorsson@reykjavik.is

 

Könnun – Sameina íslenska safnadaginn við Alþjóðlega safnadaginn árið 2015 ?

Vinsamlegast gefið ykkur örfáar mínútur til þess að svara könnun um hvort sameina eigi íslenska safnadaginn við Alþjóðlega safnadaginn 2015.

Í umræðu á póstlistanum í mars 2014 kom fram sú hugmynd hvort sameina ætti íslenska safnadaginn í júlí við Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí 2015. Margt mælir með þessu og ekki síst hið alþjóðlega samhengi. Söfn eru alþjóðleg fyrirbæri og undanfarin ár hafa 30 þúsund söfn í 120 löndum tekið þátt með ýmsum viðburðum í kringum alþjóðlega safnadaginn. Í umræðunni kom einnig kom fram það sjónarmið að blóðugt er fyrir söfn að hafa frítt inn í júlí á íslenska safnadaginn þegar ferðamannastraumurinn er sem mestur. Hins vegar eru mörg söfn lokuð í maí og spurning hvort þau gætu og vildu opna söfnin á þessum tíma ?  Mögulega þjónustað þannig nærsamfélagið þegar ferðamannastraumurinn er minni ?

Það er nauðsynlegt að fá álit fleiri aðila á þessu máli, til þess að stjórn FíSOS geti tekið upplýsta og málefnalega ákvörðun.  Því biðjum við sérstaklega forstöðumenn safna að svara þessari örstuttu könnun um sameiningu Íslenska safnadagsins við alþjóðlega safnadaginn árið 2015.

könnunin opnast í öðrum glugga:

https://www.surveymonkey.com/s/775YQVC

Örnámskeið í samfélagsmiðlum

FíSOS í samstarfi við Safnabókina verður með örnámskeið í samfélagsmiðlum fyrir safnafólk því að kostnaðarlausu frá kl. 10-12 þann 15. maí í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.  Safnafólk getur mætt með tölvuna sína og fengið aðstoð Önnu Lísu Björnsdóttur til þess að stofna Facebook síður, Twitter reikninga, Instagram og Pinterest.  Farið verður yfir hvernig er hægt að nota þessa miðla til kynningar á starfsemi safna og auka þannig sýnileika safnanna á samfélagsmiðlum.  Á námskeiðinu skoðum við sérstaklega hvernig söfn geta nýtt sér samfélagsmiðla á viðburðum eins og hinni árlegu safnaviku Twitter og Alþjóðadag safna þann 18. maí.

Vinsamlegast skráið ykkur með því að senda línu á elisabet@safnmenn.is

Við minnum einnig á að málþing FÍSOS í samstarfi við íslandsdeild ICOM og safnafræði HÍ “Staða og framtíð safna”, hefst klukkan 13:00 sama dag í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi.

Íslensku safnaverðlaunin 2014

Íslensku safnaverðlaunin verða afhend í ár

Safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

Óskað er eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum.

Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla.

Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna og 1.000.000 króna að auki. Safnaverðlaunin verða veitt í níunda sinn á íslenska safnadaginn 13. júlí 2014.

Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 20. maí 2014.

Sendist:

Safnaverdlaun2014@icom.is

eða:

Safnaverðlaunin 2014, Pósthólf: P.O. Box 1489, 121 Reykjavík

Íslandsdeild ICOM – ALþjóðaráðs safna og FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmenna standa saman að verðlaununum.

Málþing um stöðu og framtíð safna

Málþing 15.maí 2014 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands kl.13-17

FÍSOS, félag íslenskra safna og safnmanna í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði HÍ stendur fyrir málþingi 15. maí. Meginmarkmið þingsins er að veita upplýsingar og skapa málefnalegan vettvang til þess að ræða mál sem söfn þurfa að fá skýr svör við.

Dagskrá

13:00 Allt í kerfi? Um flökkulíf safna og fasta búsetu. Bergsveinn Þórsson formaður FÍSOS

13:30 Tilfærsla safna innan mennta og -menningarmála ráðuneytis. Ragnheiður H. Þórarinsdóttir deildarstjóri skrifstofu menningarmála, mennta og- menningarmálaráðuneyti

14:00 Kaffihlé

14:15 Staða þekkingaruppbyggingar og rannsókna. Sigurjón B. Hafsteinsson dósent við Háskóla Íslands

14:50 Boðleiðir styrkveitinga. Katrín Jakobsdóttir þingmaður vinstri grænna og fyrrverandi menntamálaráðherra

15:30 Kaffihlé

15:45 Pallborðsumræður fyrirlesarar sitja í pallborði ásamt Margréti  Hallgrímsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu menningararfs hjá forsætisráðuneytinu.

17:00 Málþingi slitið

Málþingið verður tekið upp í hljóði og mynd