• 02/04/2025

     

    Í gær var 1. apríl en það er alræmdur hrekkjadagur þar sem fólk keppist við gabba aðra og láta hlaupa fyrsta apríl. Söfnin létu sitt ekki eftir liggja og mátti á samfélagsmiðlum finna margvísleg skemmtileg göbb safna. Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi:

    Listasafn Íslands sagði frá því að til að rýma til í varðveislurýmum yrði hægt að leigja stærri listaverk safnsins:

    „Eins og mörgum er kunnugt um er mjög þröngt um safneign Listasafns Íslands í þeim varðveislurýmum sem safnið hefur til umráða. Því hefur verið ákveðið, í samráði við Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið, að opna fyrir útleigu listaverka til almennings og vinna þar með bug á vandanum.

    Í dag hefst forskráning og er fólki boðið að koma í safnið á Fríkirkjuvegi 7 milli 10 og 17 með ljósmyndir

    af heimili sínu þar sem sést hvar mætti koma verkum fyrir. Út frá þeim upplýsingum meta forverðir hvort aðstæður séu viðunandi og hverskonar verk hentar best. Komi upp vafamál sendum við sérfræðing á vettvang til að gera úttekt á aðstæðum.“

     

    Menningarhúsin í Kópavogi tóku sig einnig saman og greindu frá því að opna ætti Smásafnið í öllum menningarhúsum þess. Þá kom fram að safninu væri ætlað að halda í við hraðann í samfélaginu og auka þjónustu við gesti menningarhúsanna:

    „Menningarhúsin í Kópavogi, Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa og Salurinn, bæta nú við fimmta safninu. Smásafnið, mun bjóða upp á það besta úr öllum heimum, en þar hefur verið unnið að því, með hjálp gervigreindar og þrívíddarprentunar að stytta bækur, smækka listaverk, stytta tónverk og halda örverusýningu.“

    En gestir voru boðnir í útgáfuhóf í tilefni dagsins kl. 12 í gær.

     

    Stórfréttir bárust líka frá Tækniminjasafni Austurlands en á Facebook kom fram að safnið hefði keypt Perluna í Öskjuhlíð fyrir nýja grunnsýningu:

    „Við nánari skoðun sjáum við að tekjumöguleikarnir eru einfaldlega talsvert meiri í höfuðborginni“ Ákvörðunin var tekin á stjórnarfundi Tækniminjasafnsins og síðar kynnt af Jónínu Brynjólfsdóttur safnstjóra Tækniminjasafnsins á sveitarstjórnarfundi Múlaþings í vikunni sem leið. Sýningarteymi safnsins liggur nú yfir grunnteikningum af Perlunni og metur hvort eigi að endurhanna sýninguna sem fyrirhuguð var í endurreistu Angró við Lónið eða hvort Angró verði einfaldlega endurreist í Perlunni.

     

    Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti bað fólk um aðstoð við að flytja:

    „Í nýjum hagræðingatillögum ríkisstjórnar Íslands kom fram að sameiningar fámennra stofnana ættu að koma

    til framkvæmda sem fyrst. Nú í gær var kynnt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og staðfesti hún tillögurnar. Nú í morgun fengum við þær fréttir að sameina ætti söfn á landsbyggðinni og væri stefnan sú að aðeins eitt safn yrði rekið í hverjum landsfjórðungi. Þetta ætti að koma til framkvæmda tafarlaust. Það var því ekkert

    annað að gera en að fara yfir á safn og byrja að pakka. Nú vinnum við hörðum höndum að því að pakka sýningum safnsins niður fyrir flutning til Ísafjarðar en safnið verður sameinað Byggðasafni Vestfjarða og mun opna á nýjum stað í maí. Eins og gefur að skilja þá er þetta afar stórt og erfitt verkefni fyrir fáar hendur og óskum við því eftir aðstoð ykkar. Ef einhver getur gert sér ferð yfir í Örlygshöfn í dag þá væri það ósköp vel þegið. Að launum fær aðstoðarfólk kaffi og spjall og svo ég tali nú ekki um að fá að gramsa í kistum, skápum og skúffum sem hafa jafnvel ekki verið opnaðar áratugum saman!“

     

    Þá sagði Menningarhúsið Berg á Dalvík frá því að þau hefðu fjárfest í lítilli sundlaug, Árnastofnun ætlaði að fækka orðum úr gagnagrunnum sínum og Amtsbókasafnið á Akureyri bauð samfélagskúna Kilju velkomna til starfa.

     

    Við vonum að þið hafið notið dagsins og mögulega hlaupið safnaapríl!