Þann 18. maí á Alþjóðlega safnadeginum voru Íslensku safnaverðlaunin afhent í þrettánda sinn. Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að verðlaununum, sem eru viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.
Verðlaunin að þessu sinni hlaut Minjasafnið á Akureyri en í umsögn valnefndar segir meðal annars:
Minjasafnið á Akureyri er rótfast í eyfirsku samfélagi og hefur verið það frá stofnun árið 1962. Starfsemi þess er fagleg og fjölþætt. Það hefur sinnt söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagsleg tenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum.
Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.
Þau söfn sem hlutu einnig tilnefningu til verðlaunanna voru Byggðasafnið í Görðum fyrir nýja grunnsýningu, Gerðarsafn fyrir nýjar áherslur í miðlun, Hönnunarsafn Íslands fyrir árangur í stafrænni miðlun og Síldarminjasafn Íslands fyrir framúrskarandi fræðsluverkefni.
Í valnefnd sátu Birkir Karlsson og Berglind Þorsteinsdóttir fyrir Íslandsdeildar ICOM og Helga Maureen Gylfadóttir og Sigríður Sigurðardóttir fyrir hönd FÍSOS. Ágústa Kristófersdóttir var formaður nefndarinnar fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands, sem hlaut verðlaunin 2020.
Margrét Hallgrímsdóttir, fráfarandi þjóðminjavörður, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og ríkti mikil gleði meðal safnafólks sem fjölmennti á viðburðinn og fagnaði blómlegri starfsemi safna á Íslandi í dag.