• 04/05/2020

    Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Hér með tilkynnist hvaða fimm söfn/verkefni eru tilnefnd til safnaverðlaunanna 2020 samkvæmt niðurstöðu valnefndar verðlaunanna.

    ICOM og FÍSOS óska hinum tilnefndu söfnum og starfsfólki þeirra innilega til hamingju með tilnefninguna en þau eru öll vel að þeim heiðri komin. Þá þökkum við einnig valnefnd safnaverðlaunanna kærlega fyrir vel unnin störf en valnefndina skipa: Inga Jónsdóttir, formaður og fyrrverandi forstöðumaður Listasafn Árnesinga, Jón Jónsson, þjóðfræðingur, Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, Sigrún Ásta Jónsdóttir, sérfræðingur Gljúfrasteini og Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur Minjasafninu á Akureyri.

    Forseti Íslands,  Guðni Th. Jóhannesson,  afhendir safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi. Athöfnin verður streymt á samfélagsmiðlum í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.

    TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:

    Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi

    Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði ásamt Gunnarsstofnun, menningar- og fræðasetri á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

    Þessi þrjú söfn ásamt Gunnarsstofnun leiddu þetta samstarfsverkefni í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, en alls tóku níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi þátt í verkefninu. Þar var frumlegum aðferðum beitt til að skoða og skapa umræðu um hugtökin fullveldi og sjálfbærni út frá aðstæðum barna þá og nú. Kjarninn var fjórskipt sýning, sem sett var upp á þessum söfnum og Gunnarsstofnun. Á hverjum stað voru tvö börn í forgrunni, annars vegar barn frá árinu 1918 og hins vegar barn af sama kyni og á sama aldri árið 2018. Aðstæðum þessara barna var lýst í fyrstu persónu frásögnum þar sem komið var inn á mismunandi málefni sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, s.s. fátækt, hungur, heilsu, menntun, jafnrétti, aðgang að vatni, sjálfbæra orku, atvinnumöguleika og nýsköpun. Sögurnar voru frumsamdar en byggðar á heimildum um aðstæður barna þá og nú. Frásagnirnar voru myndskreyttar með ljósmyndum, annars vegar af barni í nútímanum og hins vegar af þessu sama barni í „fortíðinni“. Til að ná fram einkennum gamalla ljósmynda var myndin af barninu í fortíðinni tekin með gömlum ljósmyndatækjum frá Eyjólfi Jónssyni ljósmyndara frá Seyðisfirði, sem varðveitt eru í Tækniminjasafni Austurlands. Einnig voru til sýnis gripir úr safnkosti hvers safns og gripir úr nútímanum sem tengdust umfjöllunarefnunum og voru gestir hvattir til að líta í eigin barm og spegla eigin aðstæður við aðstæður barnanna og heimsmarkmiðin. Einfaldleiki og sjálfbærni voru höfð að leiðarljósi við hönnun sýningarinnar og á vef verkefnisins má nálgast ýmis fræðsluverkefni sem tengdust sýningunni.

    Auk fyrrgreindra safna komu eftirtaldar stofnanir að verkefninu: Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Landgræðsla ríkisins og Menntaskólinn á Egilsstöðum en verkefnið var leitt af Austurbrú og verkefnisstjóri var Elva Hlín Pétursdóttir fyrrum safnstjóri Minjasafns Austurlands.

    Mat valnefndar er að samstarf austfirsku safnanna í verkefninu Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi, sé til fordæmisgefandi um hvernig söfn af hvaða stærðargráðu sem er geta gert sig gildandi í samfélagsumræðunni og verið leiðandi í samstarfi við fleiri stofnanir. Sýningin tók á knýjandi málefnum samtímans, tengdi safnkost við samfélagið þá, nú og í náinni framtíð með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

    Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár – ný grunnsýning Sjóminjasafns Bogarsögusafns Reykjavíkur og aðkoma tveggja hollvinasamtaka, Óðins og Magna.

    Ný grunnsýning Sjóminjasafnsins í Reykjavík er eitt af stærstu verkefnum Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem varð til árið 2014 með sameiningu sögusafna borgarinnar undir einn hatt. Unnið var að gerð sýningarinnar allt frá þeim tíma uns hún var opnuð 8. júní 2018. Gildi fisksins fyrir afkomu Íslendinga verður seint ofmetið, en hann hefur verið mikilvægur hluti af íslensku mataræði um aldir og ein verðmætasta útflutningsvara þjóðarinnar. Í hugmyndavinnu fyrir sýninguna var leitað til fjölmargra sérfræðinga á ýmsum sviðum s.s. fiskifræðinga, umhverfisfræðinga og rithöfunda, auk sérfræðinga safnsins. Í undirbúningsvinnunni var lögð áhersla á að greina markhópa og þeirri nýjung beitt að fá þá til að svara spurningum um hvað þeir vildu sjá. Hönnun sýningarinnar var í höndum Kossmann.dejong sem er hollenskt fyrirtæki sem starfar á alþjóðavettvangi. Sýningin er byggð í kringum fiskinn sjálfan þar sem honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn, að landi, í gegnum vinnslu og loks á diskinn. Sýningin spannar sögu fiskveiða á Íslandi, frá því að árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Hún sýnir breidd atvinnuvegarins, hve margir koma að honum með einu eða öðru móti, sjómenn, fiskverkafólk í landi, makar, börn, söluaðilar og neytendur, vísindafólk og stjórnmálamenn. Allir leggja sitt af mörkum og einnig þeir sem vinna að því að finna leiðir til að nýta veiðina sem best, svo sem roð, bein og annað sem nýta má. Þetta er umfangsmikil sýning, sett fram á lifandi og gagnvirkan hátt með gripum, textum, myndum og leikjum. Sagan er sögð frá sjónarhóli útgerðarbæjarins Reykjavíkur og umgjörð sýningarinnar í Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, því safnhúsið sjálft hýsti áður blómlega fiskvinnslu.

    Samstarf Sjóminjasafnsins við Hollvinasamtök varðskipsins Óðins og dráttarbátsins Magna er ein birtingarmynd af mörgum hvernig safnið er í góðum gagnkvæmum tengslum við það samfélag sem það starfar í og þjónar.

    Mat valnefndar er að sýningin Fiskur & fólk í Sjóminjasafni Borgarsögusafns Reykjavíkur höfði til fjölbreytts hóps gesta, jafnt þeirra sem vel þekkja til og þeirra sem lítið þekkja til sjósóknar. Sýningin miðlar sögunni á fræðandi, lifandi, gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Aðferðafræðinvið gerð sýningarinnar og hið umfangsmikla tengslanet sem virkjað var, er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

    2019 – ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur

    Með verkefninu 2019 – ár listar í almannarými beindi Listasafn Reykjavíkur sjónum að gildi listar fyrir mannlíf og ásýnd umhverfisins og þar með starfsemi safnsins utan veggja þess, en alls hefur safnið umsjón með 182 útilistaverkum. Verkefnið snýr að mörgum sviðum safnastarfs svo sem forvörslu og viðhaldi, sýningum og viðburðum, tækniframförum og orðræðu um list í almannarými. Ásmundarsafn, eitt þriggja húsa Listasafns Reykjavíkur er sterklega tengt útilistaverkum þar sem Ásmundur Sveinsson er höfundur höggmynda sem standa á yfir 20 áberandi stöðum í borgarlandslaginu og víða á landsbyggðinni.

    Verkefnið hófst með sýningu á Kjarvalsstöðum á innsendum tillögum að útilistaverki í Vogabyggð þar sem vinningstillagan, Pálmatré eftir listamanninn Karen Sanders var kynnt. Vikulega var útilistaverk valið til kynningar á samfélagsmiðlum safnsins. Snemma árs var nýtt smáforrit (app) tekið í notkun sem miðlar upplýsingum um útilistaverk í umsjá Listasafns Reykjavíkur. Hægt er að hlaða því niður í síma og sækja hljóðleiðsagnir, gönguleiðir sem hægt er að njóta hvort heldur gangandi eða hjólandi og einnig er boðið upp á leiki. Efnt var til sýningaraðar í Ásmundarsafni þar sem fimm listamönnum, sem eiga það sameiginlegt að eiga listaverk í almenningsrými, var boðið að sýna samhliða sýningu á listaverkum Ásmundar. Um vorið var efnt til þriggja málþinga; Hvað er almannarými?, Deilur um list í almannarými og Þróun og framtíð listar í almannarými. Í byrjun sumars var verkið Tákn eftir Steinunni Þórarinsdóttur afhjúpað á þaki Arnarhvols þar sem það mun standa tímabundið. Í september var sýningin Haustlaukar opnuð þar sem verk fimm myndlistarmanna birtust á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík. Í stað efnislegra skúlptúra, minnisvarða eða varanlegra umhverfisverka var sjónum beint að verkum sem eru unnin í óáþreifanlegt efni og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Viðfangsefnin tengdust málefnum líðandi stundar svo sem sítengingu, núvitund, umhverfismálum, valdi, eignarhaldi og mörkum einka- og almannarýmis. Í nóvember var síðan efnt til ráðstefnu í samvinnu við Hafnarborg og Rannsóknarsetur í safnafræðum undir yfirskriftinni List í almannarými: þýðing og uppspretta. Yfir árið voru mörg útilistaverk yfirfarin, forvarin og lagfærð. Þar má nefna Fyssu eftir Rúrí sem var endurvígð eftir langt hlé, Friðarsúlu Yoko Ono, Íslandsvita Parmiggani og Hvítu fiðrildin eftir Ásmund Sveinsson.

    Mat valnefndar er að 2019 – Ár listar i almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur hafi verið fjölbreytt og það vakti athygli á listinni í daglegu umhverfi utan veggja safnsins. Verkefnið náði til áþreifanlegra sem og óáþreifanlegra verka. Miðlunin var bæði hefðbundin og nýstárleg þar sem samfélagsmiðlar voru nýttir og tækninýjungar virkjaðar. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

    Vatnið í náttúru Íslands – ný grunnsýning Náttúruminjasafns Íslands

    Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Þann 1. desember 2018 urðu þau tímamót að opnuð var fyrsta grunnsýning þess, VATNIÐ í náttúru Íslands, 11 árum eftir stofnun þessa höfuðsafns Þar er fjallað um vatn frá ýmsum hliðum, um efna- og eðlisþætti þess, gerð og eðli vatnsauðlindarinnar, hlutverk vatns við mótun lands og uppbyggingu og fjölbreytileika vatnalífríkis, frá jurtum, örverum og dýrum til heilla vistkerfa. Sýningunni er ætlað að vekja áhuga og virðingu fyrir vatni, kynna leyndardóma vatnsins og mikilvægi þess fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Á sýningunni eru lifandi dýr og plöntur. Áhersla er lögð á gagnvirka miðlun og virka þátttöku gesta. Þar er miðlað hvernig vatn er undirstaða lífsins og hve fjölbreytt ásýnd vatns á Íslandi er, kalt grunnvatn og heitir hverir, stöðuvötn og straumvötn, mýrlendi margs konar og urmull fossa og flúða. Í boði er að skoða hulinn lífheim vatnsins, smásæ dýr og plöntur og læra um þróun þeirra og hlutverk í vistkerfinu.

    Einnig er hægt að uppgötva fjölbreytt vistkerfi ferskvatns, vatnadýr og vatnaplöntur, fengsælar laxveiðiár og heimsfræg fuglavötn. Fyrir þrjár margmiðlunarstöðvar á sýningunni hlaut margmiðlunarfyrirtækið Gagarín ein virtustu verðlaun á sviði hönnunar og nýsköpunar, The Red Dot, Best of the best, í flokknum viðmótshönnun og notendaupplifun. Verðlaunuðu margmiðlunarstöðvarnar eru ólíkar en veita upplifun og sýn inn í þessa mikilvægu auðlind sem vatnið er, en þær eru: Fossar, myndrænn hljóðskúlptúr þar sem 773 fossanöfn á Íslandi steypast niður í háum fossi, Rennslismælar, gagnvirk stöð sem sýnir rauntímarennsli í 18 mismunandi ám á Íslandi sem Veðurstofa Íslands vaktar og Vistrýnir, gagnvirk stöð þar sem gestir geta kannað lífríki í níu gerðum votlendis á Íslandi.

    Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

    Varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar Þjóðminjasafns Íslands ásamt Handbók um varðveislu safnkosts

    Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og leiðandi á sínu sviði. Þar er varðveittur ómetanlegur minjaauður þjóðarinnar, sem er í senn kveikja þekkingar og nýsköpunar. Rannsókna- og varðveislusvið safnsins hefur aukið þekkingu safnmanna á fyrirbyggjandi þáttum forvörslu og mikilvægi réttrar meðhöndlunar safngripa. Einn liður í því er útgáfa Handbókar um varðveislu safnkosts, í tveimur bindum, sem gefin er út af Þjóðminjasafninu í samvinnu höfuðsafnanna þriggja ásamt Þjóðskjalasafni Íslands og Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Handbókin er afrakstur sérfræðinga þessara stofnana á sviði varðveislu undir ritstjórn Nathalie Jacqueminet, forvarðar. Markmiðið með útgáfunni er að gera grunnþekkingu á varðveislu safngripa aðgengilega, útskýra í stuttu máli orsakir þess að þeir geti skemmst og orðið fyrir niðurbroti og veita ráðgjöf um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir frekari skemmdum. Síðara bindið var gefið út 15. mars 2018 og er aðgengilegt á vefsíðu Þjóðminjasafnsins líkt og fyrra bindið.

    Þann 9. desember 2019 var ný varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands vígð í Hafnarfirði. Með tilkomu hennar og flutning munasafnsins frá Kópavogi var jafnframt hægt að bæta aðbúnað og varðveisluskilyrði Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni sem var áfram til húsa í Kópavogi. Við flutninginn voru tækniminjar grisjaðar á faglegum forsendum og var m.a. mörgum tækjum komið í umsjá byggðasafna, einkasafna og til einstaklinga. Nýja miðastöðin íHafnarfirði er innréttuð sérstaklega til þess að tryggja kjöraðstæður fyrir þær minjar sem Þjóðminjasafni Íslands er falið að varðveita. Efni í safngripum eru mjög fjölbreytt, ýmist lífræn eða ólífræn og yfirleitt eru gripir samsettir úr fleiri en einu efni. Efni hafa mismunandi efnafræðileg einkenni og svörun gagnvart umhverfi sínu. Þau eldast mishratt og á mismunandi hátt, sem gerir það að verkum að erfitt getur verið að skapa fullkomið umhverfi til að tryggja stöðugleika gripa en fagleg meðferð og forvarsla stuðlar að vandaðri varðveislu oft viðkvæmra muna. Í miðstöðinni er mjög góð aðstaða fyrir móttöku gripa, skráningu, verkstæði til forvörslu og sérhæfðar varðveisludeildir þar sem markvissri stýringu hita, raka og birtu er beitt. Rými til rannsókna er stórbætt þar sem fræðimenn, nemendur, aðrir einstaklingar og hópar geta fengið aðstöðu til að nýta safnkostinn í verkefnum sínum. Þjóðminjasafn Íslands hefur tekið framfaraskref til framtíðar í varðveislumálum sem eru öðrum söfnum til fyrirmyndar, en góð varðveisla er forsenda þess að framtíðin þekki auð fortíðar og geti nýtt sér hann.

    Mat valnefndar er að varðveislu- og rannsóknarsetur Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnkosts sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.