Stjórn FÍSOS hefur borist beiðni þess efnis að taka yfir útgáfu safnablaðsins Kvists,
Safnablaðið Kvistur er tímarit um safnamál á Íslandi. Það hefur komið út tvisvar og hlotið góðar viðtökur.
Stjórn Físos telur að áframhaldandi útgáfa blaðsins sé íslensku safnastarfi til framdráttar og gæti þar að auki nýst til að auka sýnileika félagsins og efla starf þess. Með breytingunni væri hægt að tengja útgáfu þess betur við starfsemi félagsins, en auk þess að vera frábær vettvangur fyrir umfjöllun um söfn og safnatengda starfsemi er blaðið ekki síður kynning fyrir íslenskt safnastarf.
Ritstjórn Safnablaðsins Kvists óskaði eftir því fyrr á þessu ári að FÍSOS tæki yfir rekstur og útgáfu blaðsins. Útgáfa blaðsins er fjármögnuð að mestu með verkefnastyrk úr Safnasjóði en einnig með áskrift, styrktarlínum og auglýsingatekjum. Erlendis er útgáfa slíkra tímarita oftar en ekki í höndum félaga safnafólks.
Rekstur og útgáfa safnablaðsins Kvists fylgir skuldbinding að standa að útgáfu blaðsins í ákveðinn tíma. Fyrirhugað er að gefa út eitt tölublað á ári, en áskrift gæti verið tengd félagsaðild (með tilheyrandi hækkun á árgjaldi).
Stjórn FÍSOS hefur tekið vel í þessa beiðni og hefur fundað með fulltrúum safnablaðsins um málið. Búast má við því að ákvörðunin verði lögð til samþykktar á næsta aðalfundi félagsins.
Stjórn FÍSOS óskar eftir viðbrögðum, hugmyndum og öðrum vangaveltum, í tengslum við hugsanlega ,,yfirtöku“. Sendist á bergsveinnth@gmail.com