• 01/07/2016

    Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) tekur þátt í norrænu samstarfsneti undir heitinu NAME (Nordic Associations of Museum Education). Á síðasta ári var gefið út rit um safnfræðslu á norðurlöndunum, þar sem vel heppnuð verkefni frá hverju landi voru útlistuð. Um er að ræða „praktíska handbók“ sem hugsuð var til hagnýtingar fyrir alla starfsmenn á sviði safnfræðslu.
    13450076_522451994618139_7669507359963485280_n
    Fulltrúar FÍSOS sóttu fund með öllum fulltrúum tengslanetsins í Kaupmannahöfn þann 21. júní síðastliðinn. Þar var verið að ræða áframhaldandi samstarf og hvernig efla megi starf tengslanetsins. NAME fékk styrk til að skipuleggja viðburði næsta vetur og fyrirhugað er að halda einn hér á landi í september. Nánari upplýsingar um það þegar nær dregur!
    Þar að auki var rætt um tilurð og tilgang NAME. Hvers er að vænta af samstarfi sem þessu? Norrænt tengslanet á sviði safnfræðslu er mikilvægt m.a. til þess að víkka sjóndeildarhring starfsmanna íslenskra safna. Við eigum margt sameiginlegt með norrænum kollegum okkar, með öflugu tengslaneti gefst tækifæri til að miðla eigin þekkingu og læra af reynslu annarra norrænna starfsmanna á sviði safnfræðslu.
    Hluti af því að byggja upp öflugt tengslanet er að heyra hvað félagar FÍSOS sjá fyrir sér með samstarfi sem þessu. Hvað vilja félagsmenn fá út úr samstarfi sem þessu? Allar ábendingar, hugmyndir og vangaveltur eru vel þegnar! Áhugasamir eru beðnir um að senda línu á hina íslensku NAME fulltrúa.
    Fulltrúar FÍSOS í tengslanetinu eru Brynja Sveinsdóttir, Gerðarsafni, og Bergsveinn Þórsson, formaður FÍSOS.