Þann 28. janúar 2016 var fyrsti fyrirlestur ársins. Ásdís Spanó, verkefnastjóri og Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistamanna (SÍM) kynntu drög að samningi um þátttöku og framlag myndlistarmanna til sýningarhalds í opinberum listasöfnum, í kjölfar herferðinnar sem SÍM hefur staðið fyrir „VIÐ BORGUM LISTAMÖNNUM“.
Að frumkvæði Sambands íslenskra myndlistarmanna var ákveðið að setja saman starfshóp í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarborg menningar- og listamiðstöð, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga og Listasafn Akureyrar. Í starfshópnum sátu fyrir hönd SÍM, Ilmur Stefánsdóttir og Úlfur Grönvold, myndlistarmenn. Fyrir hönd safnanna sátu Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, og dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands. Verkefnastjóri starfshópsins var Ásdís Spanó, myndlistarmaður.
Starfshópnum var ætlað að móta tillögur að launasamningum fyrir listamenn sem sýna í listasöfnum á Íslandi sem rekin eru eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum.
Við gerð draganna leit starfshópurinn til sænska MU (Medverkande og utstallningsersattning)-samningsins, en sænska ríkið skrifaði undir samning um þóknun til listamanna, sem sýna verk sín í opinberum listasöfnum í Svíþjóð, árið 2009. Slík þóknun er viðbót við greiðslur fyrir flutning, uppsetningu og útgáfu á efni fyrir sýningar listamannsins.
Í samningnum er kveðið á um að greiða þurfi sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum viðsýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur. Gera skal skriflegan samning um þau atriði sem greiða þarf laun fyrir, samkvæmt taxta samningsins, ásamt því að greiða þóknun fyrir sýnd verk. MU-samningurinn hefur verið fyrirmynd sambærilegra samninga í Noregi og Danmörku. Unnið er að gerð samninga í Finnlandi og Austurríki, með MU samninginn að leiðarljósi.
SÍM hefur opna heimasíðuna www.vidborgummyndlistarmonnum.info þar sem hægt er að nálgast, greinar, myndbönd, útdrátt úr ársskýrslum listasafna og könnun SÍM á högum mynlistarmanna ásamt framlagssamningnum.
Glærur SÍM