Nafn: Gísli Helgason
Safn: Borgarsögusafni Reykjavíkur
Staða: Verkefnastjóri rannsókna og skráninga á Ljósmyndasafni Reykjavíkur
Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?
Fyrir nokkrum vikum opnuðum við nýja sýningu á myndum Stuart Richardson, sem ég hafði svo sem litla aðkomu að, nema taka niður sýninguna sem var á undan og græja salinn, mála og hengja myndirnar á veggina. Annars erum við sífellt að skanna og skrá myndir úr safnkostinum, opna ný myndasöfn eða vinna með eldri söfn sem við varðveitum. Myndirnar eru síðan, í flestum tilvikum, gerðar aðgengilegar öllum á myndavef Ljósmyndasafnsins. Á síðasta ári náðum við að fjölga myndum á myndavefnum um ríflega 7 þúsund og vonandi náum við að gera eitthvað svipað á þessu ári. Af nógu er að taka því við áætlum að um 7 milljón myndir leynist í safnkostinum.
Undanfarna daga hef ég verið að vinna að verkefni sem styrkt var af Safnasjóði og við köllum Sýnileiki kvenna í íslenskri ljósmyndasögu sem snýst um að skanna myndir úr söfnun tiltekinna kvenna, skrá þær og setja á myndavefinn. Þá erum við að fara af stað með skönnunar- og skráningaverkefni á myndum eftir Gunnar V. Andrésson blaðaljósmyndara, en á næsta ári ætlum við að opna yfirlitssýning á verkum hans. Mikilvægur hluti af vinnu okkar hér er að sinna fyrirspurnum frá fólki, stofnunum eða fyrirtækjum sem þá eru gjarnan að leita af ljósmyndum, s.s. af tilteknum manneskjum, húsum, skipum, atburðum o.s.frv. Við erum að taka við ca. 300 slíkum fyrirspurnum á ári. Sem dæmi þá eru kollegar mínir þessa stundina að leita logandi ljósi af myndum af fjallkonum og ballettdönsurum.
Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?
Þegar ég var í MA námi við sagnfræðiskor HÍ 2004-2005, reyndi ég að skrá mig í alla þá áfanga sem ég taldi praktíska og gætu tengst atvinnulífinu á einhvern hátt. Þar voru umfjöllunarefninu m.a. handrit, skjöl, útgáfa, miðlun og söfn. Í einum af þessum áföngum, sem Eggert Þór Bernharðsson kenndi, var verkefni sem unnið var í samstarfi við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Verkefnið snerist um að skrá 20 ljósmyndir í eigu safnsins en þar sem áfanginn var í raun á BA stigi þurfti ég að stækka verkefnið um helming. Starfsmenn safnsins fengu svo verkefnið í hendur og gátu notað upplýsingarnar úr því til að skrá myndirnar inn í skráningakerfi Ljósmyndasafnsins. Nemendur áfangans fóru svo í nokkrar vettvangsheimsóknir, þar á meðal á Ljósmyndasafnið, sem mér fannst mjög áhugaverður staður að koma á. Þegar líða fór að lokum annarinnar manaði ég mig svo upp í að senda tölvupóst á safnið og sótti um sumarstarf sem breyttist svo í fastráðningu. Og nú eru liðin 19 ár og enn sem komið hef ég enga löngum til að skipta um starfsvettvang.
Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?
Ef ég hugsa til baka þá hef ég alltaf verið frekar heillaður af gömlum ljósmyndum og ég tel mig ótrúlega lánsaman að hafa dottið niður á þetta starf. Það sem mér finnst allra skemmtilegt að gera í vinnunni er að þefa uppi gamlar og góðar ljósmyndir, láta skanna þær inn, skrá þær eftir bestu vitund og gera svo aðgengilegar öllum á myndavef Ljósmyndasafnsins.
Vinna við sýningar getur stundum verið skemmtilega og á ég þá við þær ljósmyndasýningar sem við starfsólkið vinnum úr safnkostinum. En þar hef ég einkum unnið náið með kollegum mínum Sigríði Kristínu Birnudóttur og Kristínu Hauksdóttur. Síðast sýning sem við gerðum saman kallaðist Litapalletta tímans og stóð uppi í salnum hjá okkur síðastliðið sumar. Þar drógum við fram í sviðsljósið litmyndir úr safneign, teknar á árabilinu 1950-1970 og þótti afar skemmtileg og vel heppnuð sýning, þótt ég segi sjálfur frá. 😊
Þá er ekki hægt að gleyma konfektinu okkar, ljósmyndabókinni Nætur sem daga, sem Borgarsögusafn Reykjavíkur gaf út í lok árs 2021 með úrvals ljósmyndum úr safnkosti Ljósmyndasafnsins. Það var ótrúlega gaman og gefandi að sjá bókina smám saman verða að veruleika og óhætt að segja að bókagerðin hafi verið einkar lærdómsrík, fjölbreytt og skemmtileg. Svo skemmdi ekki að útkoman var ótrúlega fallegt bókverk sem ég er afar stoltur yfir að hafa fengið að eiga þátt í að skapa.
Það að vinna á íslensku safni býður oftast upp á mikla fjölbreytni, þótt það komi kannski stundum niður á afköstum og sérhæfingu. Maður þarf að ganga í öll möguleg og ómöguleg störf sem getur verið skemmtilegt en oft bæði erfitt og lýjandi. Þótt ég sé, að nafninu til, einkum að vinna að innra starfi safnsins, við rannsóknir og skráningar á ljósmyndum, við sýningagerð og þjónustu við notendur þá kemur margt upp á „stóru heimili“. Reglulega tek ég þátt í málningar- og uppsetningarvinnu, þar sem þarf að sparsla, pússa, mála, bora, skrúfa, negla, ramma inn, saga, sópa, ryksuga og jafnvel skúra. Svo þarf að skipta um perur, flytja kassa, setja upp hillur, hella í glös með bros á vör og vaska svo upp. Ég hef meira að segja lent í því að elda veislumat ofan í „heimsþekkta“ gesti safnsins og jafnvel fengið koss á kinn frá mjög svo eftirsóttum og myndalegum Hollywood-leikara. 😊
Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?
Það er erfitt að gleyma safnanótt 2010 í sýningarsal Ljósmyndasafnsins. Á meðal viðburða kvöldsins var dansverk frá nemendum Klassíska Listdansskólans. Þegar dansverkinu var við það að ljúka drógu dansmeyjarnar skyndilega upp úr pússi sínu grænt litaduft sem þeim hafði áskotnast og dreifðu því um salinn og veltu sér síðan upp úr því með tjáningarfullum og listrænum tilþrifum. Að dansi loknum voru ekki bara dansararnir grænir frá toppi til táar heldur var sýningarsalurinn þakin ljósgrænu litadufti og við starfsmenn safnsins stóðum eins og steini lostinn á hliðarlínunni.
Blessunarlega sluppu öll verkin sem héngu á veggjunum en þegar hreinsunarstarf hófst kom fljótt í ljós að litaduftið var ekki hugsað sem áhrifaauki við gjörninga fagurra lista heldur var þetta litarefni fyrir málningu. Fyrst reyndum við að sópa og ryksuga duftið upp af gólfinu en það gekk frekar illa. Þá var reynt að bleyta í duftinu með vatni og síðan sápuvatni og svo hreinsiefnum af fjölbreyttu tagi. Við skrúbbuðum, skófum og nudduðum gólfið með öllu tiltækum verkfærum og voru aðfarirnar það skrautlegar að safngestir héldu að um framúrstefnulegan listgjörning væri að ræða. Að endingu var ákveðið að loka safninu og vorum við fram til 3 um nóttina við að reyna að ná litnum af gólfinu. Nokkrum dögum síðar útveguðu dansararnir hreinsunarfyrirtæki sem kom og losaði okkur við restina af grænu slikjunni, leysti upp bónið af gólfinu og endurbónaði. Hins vegar vorum við reglulega minnt á grænu sprengjuna því að næstu árin voru allar moppur og tuskur safnsins fagurlega ljósgrænar að lit, svo ekki sé talað um vinnusloppana, sem öllu jafnan eru hvítir. Í nokkur ár á eftir voru líka fáeinir ljósgrænir blettir á veggjum safnsins, því þrátt fyrir að málað var yfir þá, aftur og aftur, síaðist græni liturinn jafnharðan í gegn, eða þar til við máluðum salinn í dekkri lit.
Hver er þinn uppáhalds safngripur?
Ég treysti mér eiginlega ekki til að svara þessari spurningu! 😊
Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?
Það er erfitt að tiltaka eitthvert eitt safn umfram önnur, en farskóli safnamanna í Glasgow 2007 og Dublin 2018 voru eftirminnilegir, þá voru mörg áhugaverð söfn skoðuð. Löngu áður en ég byrjaði að vinna á safni fór ég hins vegar í nokkurra vikna lestarferðalag um Evrópu og skoðað þá mörg gömul og eftirminnileg söfn, einkum í Kaupmannahöf og Vínarborg. Þá er Louvre safnið í París auðvitað frekar eftirminnilegt, en eiginlega of stór biti til að kyngja á einum degi.