• 06/07/2023

    Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og segja stuttlega frá honum. 

    Byggðasafn Hafnarfjarðar

     

    Hver er gripurinn?

    Tóbaksbaukur úr lausnarsteini sem var í eigu Borgþórs Sigfússonar(f. 06.03.1905 d. 18.08.1986), á hann er ritað:„Boggi“ og á hina hliðina „Frá Söru“.

    Til hvers var hann notaður?

    Þetta er lausnarsteinn sem búið er að breyta í tóbaksbauk. Hér áður fyrr áleit fólk að lausnarsteinar væru úr steinaríkinu en staðreyndin er að lausnarsteinn er fræ eða aldin jurtarinnar mímósu, sem vex í Mið-Ameríku og á eyjunum þar í grennd og berst stundum með golfstraumnum hingað til lands. Annar „steinn“ hringlaði inní en það var sjálft fræið. Mönnum þótti eitthvað dularfullt og jafnvel yfirnáttúrulegt við lausnarsteina enda voru þeir ekki svo algengir. Lausnarsteinn fékk nafn sitt af því, að ef barnsfæðing konu gekk erfiðlega, þá þótti gott til lausnar því að leggja þennan hlut í rúm hennar, á brjóst eða maga. Gæfa þótti ef ljósmæður ættu lausnarstein í fórum sínum og oft gengu lausnarsteinar í arf kynslóð fram af kynslóð.

    Lausnarsteinar voru holir að innan og því stundum breytt í tóbaksbauka. Ef nota átti lausnarsteininn undir tóbak, var innri „steinninn“ tekinn úr og settur á stútur úr silfri. Stundum var líka hægt að opna gegnt stútnum, til að koma tóbakinu þar inn. Á þessum bauk er það þó ekki þannig, heldur er stúturinn skrúfaður af, ef láta á tóbak í. Lausnarsteinn var í minnsta lagi sem tóbaksílát og því jafnvel meira til skrauts. Tappinn er efnismikill, með keðju sem fest er við baukinn, hvort tveggja úr silfri. Skreyttur silfurflötur er umhverfis stútinn og á honum stendur öðrum megin „Boggi“ og hinum megin „Frá Söru“.

    Hver er saga hans?

    Sara Magnúsdóttir(f. 20.04.1908 d. 13.03.1995) fann lausnarsteininn sjórekinn í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Hún lét gullsmiðinn Gunnar Hjaltason(21.11.1920 d. 24.06.1999) breyta honum í tóbaksbauk og smíða silfurbúnaðinn. Öðru megin er grafið í silfrið „Boggi“ og á hinni hliðinni „Frá Söru“. Sara lét útbúa tóbaksbaukinn fyrir mann sinn Borgþór Sigfússon Sara var síðari kona Borgþórs.

    Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?

    Lausnarsteinninn kom á safnið í febrúar árið 1987 þegar fóstursonur Borgþórs, Benedikt Elínbergsson(f. 09.09.1941) gaf safninu steininn. Þáverandi forstöðumaður safnsins, Magnús Jónsson, vissi af þessum mun hjá Borgþóri og hafði orðað það við hann að láta hann safninu eftir sinn dag. Borgþór Sigfússon lést 18. ágúst árið 1986.

    Af hverju völduð þið þennan safngrip?

    Gripurinn á sér skemmtilega sögu bæði persónulega og með tengingu í þjóðsögur og hjátrú fyrri alda. Safngripurinn er varðveittur í geymslu safnsins og alltaf gaman að fá tækifæri til að sýna þá fjölmörgu gripi sem leynast í geymslunni. Sú skemmtilega tilviljun kom í ljós þegar búið var að velja gripinn að barnabarnabarn Borgþórs er starfsmaður Byggðasafnsins, Rósa Karen Borgþórsdóttir.